Monday, April 25, 2011

Blúshátíð í Reykjavík 2011

Nú er nýafstaðin Blúshátíð í Reykjavík 2011 og fór hún fram í áttunda sinn. Ég fór á alla viðburði hátíðarinnar og get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir neinum vonbrigðum.

Blúshátíðin hefur án vafa vaxið síðan ég fór fyrstu árin en þá var hún haldin á Hótel Borg (sem var og hét). Það sem er verðmætt er að nákvæmlega sami andi hefur haldist, þrátt fyrir að hátíðin hafi stækkað mikið og blúsfagnaðarerindið borist víða. Ég man alltaf eftir því þegar ég upplifði stemninguna fyrst og var þá á framhaldskólaaldri, horfði með aðdáunaraugum á tónlistarmenn spila tónlist sem ég vissi að ég myndi alltaf elska. Þá hélt ég að Halldór Bragason, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, væri erlendur blúsari með hatt, þangað til hann talaði í hljóðnemann, svona prýðilega íslensku. Ennþá fer ég á þessa sömu hátíð og upplifi sömu góðu tilfinninguna, svona eins og að vera kominn heim. Ég vona að þetta verði fastur punktur í lífi mínu hér á Íslandi og margra annarra næstu árin. Því það er jú alltaf gott að hafa þessa föstu punkta í lífinu.

Í ár stóð upp úr Vasti Jackson enda mætti segja að hann hafi verið aðalnúmer hátíðarinnar. Hann er einn sá líflegasti flytjandi sem ég hef séð á sviði, auk þess að vera skapandi listamaður. Hann fékk áhorfendur til þess að hlægja, dansa, undrast, tárast og allt þar á milli og þá er hægt að segja að tilganginum sé náð. Hinn ungi Marquise Knox stóð líka fyrir sínu og mun vafalaust verða stórstjarna í blúsheiminum, ef ekki víðar í tónlistarheiminum. Hjá honum eru gömlu blúsreglurnar góðar og gildar og hann ætlar svo sannarlega að halda uppi heiðri hinnar sönnu blúshefðar. Laus við glamúr og sýndarmennsku, í nánum tengslum við uppruna sinn.

Fleiri flytjendur stóðu fullkomlega fyrir sínu á hátíðinni og ætla ég að nefna nokkra. Stone Stones voru í senn miklir smekkmenn á blústónlist og einnig góðir flytjendur. Allt sem þeir gerðu var áhugavert og verður gaman að fylgjast með þessum íslensku ungu mönnum. Ferlegheit var önnur ung sveit sem ég hef fylgst með í nokkurn tíma. Sveitin gaf nýlega út plötu sem inniheldur virkilega vel spilaðar og góðar lagasmíðar í anda blústónlistar. Ekki var lifandi flutningur þeirra á hátíðinni síðri. Gaman var að sjá Pál Rósinkrans aftur á sviði blússins. Hann er eflaust með "svartari" söngvurum sem við eigum hér á landi. Síðan langar mig til að nefna "sessionistana" sem spiluðu öll kvöldin. Það sást sérstaklega á tónleikunum með Vasti Jackson hvað við eigum mikla heimsklassa menn. Guðmundur Péturs, Róbert Þórhalls, Birgir Baldurs, Davíð Þór, Dóri Braga og Óskar sax voru fagmennskan uppmáluð alla hátíðina, sem þarf varla að taka fram því allir þeir sem hafa fylgst með tónlist á Íslandi síðustu ár ættu að vita það nú þegar.

Að lokum langar mig að nefna það hvað við erum heppin að hafa slíka hátíð á Íslandi sem Blúshátíð í Reykjavík er. Hátíðin og blústónlist á Íslandi almennt hefur vaxið fyrir tilstilli áhugamanna, sem hafa unnið þessa verðmætu uppbyggingarvinnu af ástríðunni einni. Það má aldrei vanmeta slíkan auð, því án þessara örfáu manna og kvenna sem fóru af stað í upphafi, værum við ekki nú að skrá blústónlistarsögu Íslands. Krafturinn og starfið hjá þessum hópi fólks skilar sér út í samfélagið á margan hátt og lyftir okkur upp í samanburði við aðrar þjóðir. Sérstaklega þar sem að í flestum vestrænum löndum hefur blústónlistarhefðin hlotið mikla virðingu og á sér djúpar rætur. Íslensk tónlistarhátíð sem byrjaði fyrir tilstilli blúsáhugamanna fyrir um 9 árum síðan, fyllir nú stóra sal Hótel Hilton þrjú kvöld í röð. Ég ætla að gerast svo djörf að segja að ef einhver ætti að fá listamannalaun eða að "minnsta kosti" fálkaorðuna, væri það Halldór Bragason, fyrir framlag sitt, frumkvæði og þáttöku í þessari uppbyggingu.

Það merkilega við blústónlistina er það að hún fer aldrei úr tísku og fylgir ekki ákveðnum tíðaranda. Hún bara er. Þessi tónlist er nær okkur en við gerum okkur grein fyrir. Hún endurspeglar það að vera mannlegur, vera bitur, vera glaður, vera reiður, vera svikinn, vera til. Hún kemst hvað næst sönnum mannlegum tilfinningum af öllum stefnum tónlistar, vegna þess að hún er sprottin upp úr sönnum aðstæðum. Blústónlist var og verður alltaf einlæg.

Takk fyrir frábæra Blúshátíð í Reykjavík 2011, megi blúsinn halda áfram að gleðja Íslendinga. Sjáumst á Blúshátíð í Reykjavík 2012.

Marquise Knox og Halldór Bragason
á blúsdjammi eftir stórtónleikana 19. apríl.

Nánar:
www.blues.is
http://www.facebook.com/blusfelag
http://www.vastijackson.com/
http://www.marquiseknox.com/
http://www.myspace.com/ferlegheit
http://www.facebook.com/pages/Stone-Stones/

Tuesday, July 6, 2010

Listin sprettur af lífinu sjálfu en ekki neinni fagurfræði

Ég er búin að opna sýninguna "Listin sprettur af lífinu sjálfu en ekki neinni fagurfræði" og gerði það fimmtudaginn 1. júlí í Kaffi Túnilíusi. Það var ákveðin upplifun að vera fram á kvöld að vinna að textum og svo fram á nótt að hengja upp sýninguna fyrir opnunina. Þar sem þetta er lítil sýning og bara smá hliðarverkefni þá ákvað ég að hafa ekki formlega opnun heldur leyfa henni bara að njóta sín sem tímabundið verkefni. Samstarfskonur mínar í Sparisjóðnum komu mér þó skemmtilega á óvart þegar þær héldu fyrir mig óvænt opnunarteiti í Kaffi Túnilíusi þar sem við drukkum kakó og þær afhendu mér risablómvönd. Mér þótti virkilega vænt um það.

Ég ætla að koma með myndir af sýningunni inn fljótlega hér inn. Það er persónulegur áfangi fyrir mig að hafa opnað þessa sýningu og séð að allt er hægt ef viljinn og dugnaðurinn er fyrir hendi, jafnvel þó að maður sé stundum hræddur við að láta ljós sitt skína. Fyrsta skrefið er alltaf erfiðast, hér eftir verður þetta bara skemmtileg vinna og verkefni á eftir verkefni sem maður vinnur með minni kvíða. Annað er að á þessari leið mætir maður alltaf einhverjum úlfum og grýttum farvegi sem hægir á ferðinni. Það þýðir þó ekki að láta það trufla sig því annar kæmist maður aldrei á leiðarenda.

Wednesday, June 9, 2010

Framfaradagar

SvavarGuðnason verkefnið mjakast áfram. Núna er ég að vinna að heimasíðu um verkefnið sem verður vonandi tilbúin í lok þessa mánaðar. Þar ætla ég að hafa ýmsan fróðleik um Svavar auk þess sem fréttir af verkefninu verða settar inn. Ég vona að í framtíðinni verði vefurinn lifandi heimasíða um myndlist og myndlistamenn frá Hornafirði. Þá munu einnig áhugaverðir hönnuðir vera til umfjöllunar, því eins og margir vita þá er oft þunn lína á milli listar og hönnunar.

Ég fékk mjög góðar fréttir í sambandi við verkefnið í dag og svo fer ég í þriggja daga vinnutörn til RVK í júní. Þar ætla ég að taka viðtöl og kaupa efni í sýninguna. Einnig er ég að ganga frá því að vinna að vídjóverki um málverkin hans Svavars. Í vídjóverkinu verður einnig flutt nýtt tónverk svo að ég vonast til að þetta verði allt saman ferskt og spennandi!

Svo er það þetta hefðbundna..veggspjöld, sýningarskrá og aukaefni. Allt er þetta svo skemmtilegt að ég get ekki annað en verið full tilhlökkunar að sjá útkomuna.

Wednesday, June 2, 2010

Að lifna við

Það hefur ekki verið mikið líf á þessari síðu enda má segja að allt hafi verið upp og niður þennan veturinn. Þegar sumarið kemur fer sólin að skína og allt verður gott.

Það helsta sem hefur haldið í mér lífinu er Rökkurbandið sem hefur verið duglegt að þræða hátíðirnar. Fjörið byrjaði með Norðurljósablús á Höfn í mars, Síðan kom Blúshátíð Reykjavíkur um páskana og Hammondhátíð á Djúpavogi í seinni hluta apríl. Þetta hefur gefið mér mikið síðustu mánuði ásamt því að verkefnið mitt, litla barnið sem virðist ætla að vera lengi að koma í heiminn, hefur alltaf verið til staðar. Sparka í mig og láta vita af sér, án þess að ég nái að taka lokasprettinn.

Einnig er ég búin að afreka fyrstu útlegu ársins, sem var á Hvolsvelli á blúshátíð þar Hvítasunnuhelgina. Það var yndislegt að vera í útilegu í öskufalli og hlusta á góða tónlist og mikið af henni.

Komandi dagar og vikur verða mjög krefjandi þar sem ég ætla að vinna 100% vinnu, klára mastersritgerð, fara í útilegur og halda mikið af tónleikum. Það væri gott að geta skipt sér í tvennt en þó held ég að þetta verði allt hin mesta skemmtun. Kannski ég skelli inn myndum hér fljótlega af viðburðum vetrarins en mikið lifandi skelfing er ég fegin að þessi vetur er liðinn.

Wednesday, November 25, 2009

Freyja

"Í Belgíu eru persónueinkenni okkar sem þjóðar að þurrkast út" sagði kona við mig sem ég bjó hjá í tvær vikur þar í landi. Hún var á móti Evrópusambandinu enda hreinræktaður Belgi sem fannst að þjóðinni vegið sem landi með séreinkenni.

Ég fór að hugsa þegar ég heyrði lagið "Freyja" sem hljómar alltaf í útvarpinu og er um þessar mundir vinsælasta lag Rásar 2. Þó svo að Magnús sagði sjálfur að lagið væri síðbúin afsökunarbeiðni til landsins, náttúrunnar og auðlindanna, (http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/day/2009/9/29/) þá er ekki erfitt að túlka það sem óð til landsins - og þar með lag um það að við eigum ekki að selja landið og auðlindir okkar. "Ég seldi þig..fiskinn í sjónum og fjöreggin þín.." Allavega passar þetta allt frekar vel í mínum huga.

Það er nefnilega ljóst að þegar fólk talar um aðild að Evrópusambandinu (og skiptist í tvo hópa), að hér er á ferðinni álíka umræða og í byrjun 20. aldar þegar hópur manna barðist fyrir sjálfstæði frá Dönum. Þeir sem voru þjóðernissinnar vildu sjálfstæði en það var líka öllu hljóðlátari hópur fólks í í sögubókunum, sem hélt að við værum kannski efnahagslega betur sett á því að vera frekar undir Dönum. Núna erum við þjóðernissinnar að reyna að berjast fyrir því að halda sjálfstæðinu. Semsagt að fara ekki í Evrópusambandið. Á meðan hinn hópurinn heldur enn að það sé virkilega betra að vera öðrum háður. Ég mun aldrei samþykkja það að þjóðernissinnar séu meðal stuðningsmanna Evrópusambandsins (gegn þeim rökum að það sé þjóðinni fyrir bestu að vera í sambandinu). Það eru einfaldlega þeir sem vilja leita "einfaldra skyndilausna" sem er ekki einu sinni víst hvort geri neitt betra fyrir land og þjóð þegar uppi er staðið.

Ég veit að umhverfið er breytt, ástæður eru breyttar og kannski finnst ekki öllum auðvelt að sjá þessa samsvörun svona tæpum 100 árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki. En í grunninn spyr ég : Hversu heitt elskaru landið þitt. Hversu heitt elskaru að vera Íslendingur. Fyrir hvað viltu fórna sjálfstæðinu sem forfeður okkar börðust hart fyrir? Hversu fast viltu halda í séreinkenni þín sem Íslendings og menningu okkar lands? 100 ár sem sjálfstæð þjóð sem stendur á eigin fótum er ekki langur tími. Getum við virkilega ekki betur að mati Evrópusambandssinnuðum?

Það er algjör rómantíker sem talar. Kannski ekki alveg niðri á jörðinni. En sannfæringin er sterk þegar hún er til staðar á annað borð. Þessi sannfæring er yfir peninga hafin. Þetta eru miklu stærri spurningar en um efnahag Íslands næstu árin. Ef við förum inn er ekki svo auðveldlega aftur snúið. Fljótlega töpum við svo sjarmanum sem sérstök þjóð á eyju úti í hafi.

Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?

Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?

Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?

Thursday, November 19, 2009

Byrjuð að klippa í vetrarkulda

Þá er kominn 19. nóvember og afmæli Svavars liðið! Hann hefði semsagt orðið 100 ára í gær 18. nóvember. Ég ætlaði að koma með pistil í tilefni af því en honum seinkar aðeins. Ég hafði svo mikið að gera í vikunni, var uppi í Listasafni í gær að taka upp athöfn afmælinu til heiðurs. Þetta var formlegt og skemmtilegt, fyrsta bókin var gefin menntamálaráðherra og svo voru veittir styrkir úr sjóði Svavars og Ástu. Ég tók allt upp og hélt því áfram að safna heimildum um þessi tímamót í íslenskri listasögu.

Í gær hitti ég margar frænkur sem ég hef ekki áður séð. Dætur Stefáns, bróðir langafa voru allar í athöfninni. Þetta voru konur ekki ósvipaðar þeim sem ég þekki í ættinni. Litlar með fíngert vaxtarlag og andlitin kunnugleg. Gaman hvernig maður sér oftar en ekki ættarsvipinn. Kannski er þetta hornfirska útlit svona sérstakt, eitthvað er það. Þetta var allavega viðburður út af fyrir sig fyrir mig að fá að tala við "nýjar" frænkur sem sögðu mér frá þeim skiptum sem þær heimsóttu Hornafjörð og dvöldust í Heklu.

Bókin um Svavar verður án efa jólagjöfin í ár í mínum huga, ef einhverjum dettur í hug að gefa mér hana. Hún er þykk og stór og full af frábærum fróðleik til að glugga í yfir jólin. Er ekki þessi "skáldsögumanneskja" svo að ein stór kæmi í staðinn fyrir allar litlu kiljurnar.

Er núna byrjuð að vinna í myndinni, setja inn efni og klippa hana. Stefnan er tekin á 8 mínútna æfingarmynd til að byrja með. Verður skemmtilegt að sjá útkomuna. Ætla að kippa í nokkra spotta til þess að fá tónlist í myndina án þess að stela henni. Þetta verður að vera almennilegt.


Tuesday, November 3, 2009

Viðburðaríkir dagar

Það er heldur betur búið að vera margt á döfinni hjá mér. Ég er búin að taka upp nokkra tíma af efni fyrir heimildamyndina mína og gerði það allt í síðustu viku. Fór semsagt alla síðustu viku upp í Listasafn Íslands og myndaði það sem þar fór fram í undirbúningi fyrir stórri sýningu á verkum Svavars Guðnasonar. Þessi sýning opnaði svo á laugardaginn, þar sem ég og Friðjón fórum að sjálfsögðu og vorum við opnunina. Sýningin var svo falleg og svona persónulega fyrir mig fannst mér það algjör forréttindi að fá að vera með þennan dag. Halldór Björn hélt ræðu sem ég hefði alls ekki viljað missa af. Það sem betra er - ég á hana alla á upptöku. Líka ræðuna hjá forsetanum.

Verður eflaust gott að nota þetta í stóru myndina mína sem ég ætla að reyna að klára fyrir næsta sumar.

Svo er ég að missa mig í að hanna hluti og búa til, sköpunargleðin fer öll í það þessa dagana auk þess að vera með kvikmyndavél á öxlinni og vinna með lifandi myndir. Ég held að ég þurfi reglulega að breyta til og er algjörlega búin að leggja gítarnum í bili og alveg hætt að semja lög og texta. Það er kannski bara gott að "rótera" í þessu reglulega þó svo að ég horfi reglulega á hann og skammist mín fyrir að "geta ekki neitt" lengur með honum. Svo er líka pirrandi að semja lög og texta og gera aldrei neitt meira með það. Held ég þurfi að fara að vinna með gömlu lögin betur áður en ný verða til. Það verður tími fyrir það eins og allt annað.

- er bara á milljón þessa dagana með allt og allt.