Tuesday, October 27, 2009

Tökudagur eitt

Fyrsti tökudagur á myndinni er búinn. Ég held að þetta hafi verið erfiðasti dagurinn þó svo að hann hafi kannski verið frekar stuttur. Erfiðastur vegna þess að það er alltaf erfitt að byrja á nýju verkefni sem maður vill alls ekki klúðra, sama hversu mikil tilhlökkunin er. En þetta gekk hinsvegar vel og Friðjón hjálpaði mér að bera þrífótinn um allt Listasafn. Það munaði öllu.

Við liggjum samt heima með einhverja flensu. Þá þarf líka að taka því rólega og passa sig að fara ekki of geyst. Þessi rólegheitatími er núna og í kvöld, svo byrjar skemmtunin aftur í fyrramálið.

Get bara ekki hætt að brosa eftir að hafa litið öll þessi fallegu málverk augum, sum í annað skipti, sum í þriðja...en mörg í það fyrsta.

Saturday, October 24, 2009

Afmæli listamanns nálgast

Ég sit hér í stofunni á Lindargötunni, í Skuggahverfinu þar sem amma mín átti einu sinni heima. Þá var vissulega allt öðruvísi hér um að litast en miðbæjarstemningin vafalaust sú sama - ef ekki betri. Nú sit ég hinsvegar hér og eyði háskólaárunum, eftirminnilegustu árunum í lífi mínu.

Það er ekki mikil kreppa á þessu heimili því hér verða kokkaðar bakaðar kartöflur og folaldalundir í kvöldmat. Með því verður drukkið rándýrt lífrænt ræktað rauðvín.

Mitt í öllum undirbúningnum get ég ekki annað en hugsað um komandi daga sem verða viðburðarríkir. Ég er að undirbúa heimildakvikmynd um listamann og byrja tökur á mánudaginn. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því og verð ég alltaf sátt að líta til baka og vita að ég nýtti tímann til að klára þetta verkefni. Ég þarf því, frá og með mánudeginum, að hætta að vera feimin og verða ótrúlega frökk og blátt áfram. Taka viðtöl við gáfað fólk og mikilvægt fólk í samfélaginu. Taka upp allt sem mér dettur í hug og aldrei að hika. Ef það á einhvað að vera varið í þessa mynd.

En nú þarf að leggja á borð og taka fram kræsingarnar.

Skál.

Tuesday, October 20, 2009

Fallegur sólardagur í borginni

Ég verð að hætta að skrifa bara á mánudögum. Á mánudögum er maður stundum þreyttur eða ennþá í helgarfríi í huganum. Á þriðjudögum verður hugurinn hinsvegar aftur beittur og þá er mál að skrifa eitthvað viturlegt.

Ég get ekki annað en að viðurkenna að ég hlakka mikið til jólanna. Ég veit fullkomlega að það er frekar langt í það en ég get ekki beðið eftir að fara til Hornafjarðar, út að labba með Janis og svo framvegis. Ég sakna þess svo mikið núna og mér finnst of langt síðan síðast.

Veturinn er líka búinn að vera skrítinn hér. Jújú ég var í áfanga sem var fín mæting í og ágætis álag. Svo er ég að fara að gera lokaverkefni í því og þá verður dágott álag. Þess á milli, semsagt þessa dagana, er ég hinsvegar bara í biðstöðu út af lokaverkefninu og maður er ekkert að fá sér vinnu í 2 vikur. Þannig að ég er bara að glugga í bókum og svona, reyna að kenna mér að slappa af og hlaða batteríin. Þetta er bara ekki eitthvað sem ég er vön að gera og mér líður stundum eins og aumingja eða atvinnulausum einstakling í tilvistarkreppu.

Þess á milli er samt alveg merkilegt hvað maður nýtur þess að vera til. Ég er sennilega að kynnast nýrri hlið á mér sem ég vissi ekki að væri til. Sú sem bara nýtur lífsins sama hvað er í gangi og hversu lítið eða mikið af verkefnum eru á borðinu.

Í dag eru samt nokkur verkefni framundan. T.d. að kaupa kaffi og farra á bókasafnið. Svo þarf ég líka að fara í kennslu á Final cut hjá Höllu til þess að geta klippt kvikmyndina mína. Svo að þetta verður ekkert nema áhugaverður dagur í sólinni í Reykjavík.

Monday, October 12, 2009

mánudagur fjögur

Ég gleymdi einum mánudegi. Var eitthvað svo upptekin í þarsíðustu viku að vera á Nordisk Panorama, gera stutta heimildamynd sem heitir Samtöl og svo framvegis. Svo síðustu viku var ég að klára áfangann og hugsa um mitt eigið lokaverkefni sem á að vera tæplega 10 mínótna heimildarmynd. Er enn að bíða eftir útkomu hvort hugmyndin mín gangi upp, annars er það "plan bjé" þar sem ég er reyndar með ágæta hugmynd í huga. Það hefur verið heljar upplifun að vera í öllu þessu kvikmyndastússi og áhuginn vaknaði á ný um að gera alvöru mynd.

Ég þarf að komast heim til mín fljótlega, fara út að labba með Janis og kíkja til ömmu. Það er alvarlega kominn tími á það svo ég geti settst niður og flokkað heimildir í friði fyrir Reykjavíkurstressinu.