Tuesday, July 6, 2010

Listin sprettur af lífinu sjálfu en ekki neinni fagurfræði

Ég er búin að opna sýninguna "Listin sprettur af lífinu sjálfu en ekki neinni fagurfræði" og gerði það fimmtudaginn 1. júlí í Kaffi Túnilíusi. Það var ákveðin upplifun að vera fram á kvöld að vinna að textum og svo fram á nótt að hengja upp sýninguna fyrir opnunina. Þar sem þetta er lítil sýning og bara smá hliðarverkefni þá ákvað ég að hafa ekki formlega opnun heldur leyfa henni bara að njóta sín sem tímabundið verkefni. Samstarfskonur mínar í Sparisjóðnum komu mér þó skemmtilega á óvart þegar þær héldu fyrir mig óvænt opnunarteiti í Kaffi Túnilíusi þar sem við drukkum kakó og þær afhendu mér risablómvönd. Mér þótti virkilega vænt um það.

Ég ætla að koma með myndir af sýningunni inn fljótlega hér inn. Það er persónulegur áfangi fyrir mig að hafa opnað þessa sýningu og séð að allt er hægt ef viljinn og dugnaðurinn er fyrir hendi, jafnvel þó að maður sé stundum hræddur við að láta ljós sitt skína. Fyrsta skrefið er alltaf erfiðast, hér eftir verður þetta bara skemmtileg vinna og verkefni á eftir verkefni sem maður vinnur með minni kvíða. Annað er að á þessari leið mætir maður alltaf einhverjum úlfum og grýttum farvegi sem hægir á ferðinni. Það þýðir þó ekki að láta það trufla sig því annar kæmist maður aldrei á leiðarenda.

Wednesday, June 9, 2010

Framfaradagar

SvavarGuðnason verkefnið mjakast áfram. Núna er ég að vinna að heimasíðu um verkefnið sem verður vonandi tilbúin í lok þessa mánaðar. Þar ætla ég að hafa ýmsan fróðleik um Svavar auk þess sem fréttir af verkefninu verða settar inn. Ég vona að í framtíðinni verði vefurinn lifandi heimasíða um myndlist og myndlistamenn frá Hornafirði. Þá munu einnig áhugaverðir hönnuðir vera til umfjöllunar, því eins og margir vita þá er oft þunn lína á milli listar og hönnunar.

Ég fékk mjög góðar fréttir í sambandi við verkefnið í dag og svo fer ég í þriggja daga vinnutörn til RVK í júní. Þar ætla ég að taka viðtöl og kaupa efni í sýninguna. Einnig er ég að ganga frá því að vinna að vídjóverki um málverkin hans Svavars. Í vídjóverkinu verður einnig flutt nýtt tónverk svo að ég vonast til að þetta verði allt saman ferskt og spennandi!

Svo er það þetta hefðbundna..veggspjöld, sýningarskrá og aukaefni. Allt er þetta svo skemmtilegt að ég get ekki annað en verið full tilhlökkunar að sjá útkomuna.

Wednesday, June 2, 2010

Að lifna við

Það hefur ekki verið mikið líf á þessari síðu enda má segja að allt hafi verið upp og niður þennan veturinn. Þegar sumarið kemur fer sólin að skína og allt verður gott.

Það helsta sem hefur haldið í mér lífinu er Rökkurbandið sem hefur verið duglegt að þræða hátíðirnar. Fjörið byrjaði með Norðurljósablús á Höfn í mars, Síðan kom Blúshátíð Reykjavíkur um páskana og Hammondhátíð á Djúpavogi í seinni hluta apríl. Þetta hefur gefið mér mikið síðustu mánuði ásamt því að verkefnið mitt, litla barnið sem virðist ætla að vera lengi að koma í heiminn, hefur alltaf verið til staðar. Sparka í mig og láta vita af sér, án þess að ég nái að taka lokasprettinn.

Einnig er ég búin að afreka fyrstu útlegu ársins, sem var á Hvolsvelli á blúshátíð þar Hvítasunnuhelgina. Það var yndislegt að vera í útilegu í öskufalli og hlusta á góða tónlist og mikið af henni.

Komandi dagar og vikur verða mjög krefjandi þar sem ég ætla að vinna 100% vinnu, klára mastersritgerð, fara í útilegur og halda mikið af tónleikum. Það væri gott að geta skipt sér í tvennt en þó held ég að þetta verði allt hin mesta skemmtun. Kannski ég skelli inn myndum hér fljótlega af viðburðum vetrarins en mikið lifandi skelfing er ég fegin að þessi vetur er liðinn.