Thursday, January 29, 2009

Þegar ég var í menningarfræðitíma...

Rótleysi
Sem fræ fæðist
og sólin nærir menninguna.
Nútímamaður heilsar
siðmenning slítur úr jörð
lífræn tenging rofin
vélrænt skipulag mengar regnið
úrkynjun sem kveður upprunann um sinn.

Þeir þættir sem virkuðu
virka ekki lengur
sálin er týnd í stórborg með götuljósum og lestarstöðvum...
skilningur á líkamanum gjörsamlega firrtur
afturhvarf til flökkulífsins í stórborg.

Fórnar blóð og sál
til heimsborgar.
Síðasta blómstrið visnar
með rofanum deyr
og rís svo að nýju.

10.nóvember 2005

Kaffið kom inn

Það er nú einfaldlega þannig, að þegar maður er námsmaður, þá getur verið erfitt að koma sér af stað í daginn. Sérstaklega þá daga sem maður þarf í raun ekki að vakna, eins og fimmtudaga. Þá getur verið afskaplega ljúft að standa upp, gera nokkrar yoga æfingar og síðast en ekki síst - fá sér kaffi.

Kaffi er yndisleg uppfinning.

Eða gott símtal frá pabba. Þá fer maður alveg í banastuð, sérstaklega ef við erum að tala um blústónlist.

Það er sérstakt að heyra af hitabylgjunni í Ástralíu og horfa út um gluggann hér heima um leið. Þar sem hvítur snjórinn í fjöllunum blasir við, allt svo yndislega fallegt og kyrrt.

Talandi um það þá get ég varla talað um það lengur án þess að galla mig upp og fara á skokkið. Áður en lægðin skellur á.

Monday, January 26, 2009

Mánudagar; allt annað en skemmtilegir

Það getur verið svo erfitt að koma sér af stað á mánudögum.

Ekki það að ég sé að kvarta, það er alls ekki málið. Stundum langar mig samt mest að sækja um 9-5 vinnu og eiga svo bara frítíma þess á milli. Býst ég þó við því að það verða mörg ár framundan í þeirri rútínu svo að ég þarf ekki að örvænta.

Nú langar mig líka að byrja að mála. Það þýðir að vaka langt fram á nótt. Þar sem ég bý ekki ein þá þarf ég að ræða það við Friðjón en ég er ekki viss um að hann segi neitt á móti því. Ég bara hef því miður ekki haft þá ró og yfirvegun í mér að mála í langan tíma. Sakna þess verulega og held að það gæti gert mér gott ef ég kemst í réttar stellingar. Þetta er bara mikið og andlegt ferli ef það á að takast vel upp.

Fórum á Rósen aðeins um helgina og svo í Kolaportið á sunnudag. Helgin var frábær og einkenndist af öllu því sem hægt er að gera um helgar hér í bænum. Verslunarferð þar sem Friðjón var í þetta skipti að versla, nammilandi, kjúklingasallati, rúnti, vídjókvöldi, tónleikum og fleiru. Föstudagurinn (bóndadagurinn) tókst vel upp og ég kom Friðjóni á óvart hvað eftir annað. Eldaði nautakjöt (í brauði (hamborgara) ) og bauð honum upp á uppáhaldsbjórinn með. Svo voru ostar, súkkulaði og smá gjafir.
Kolaportið var samt svolítið súrt í þetta skipti, þar sem stelpan sem ég ætlaði að kaupa ódýran pels af, eða svona loðinn jakka, hækkaði og lækkaði boðið sitt til skiptis. Svo í lokin ákvað hún að hún væri kannski bara ekkert tilbúin að selja hann - "nei hún ætlaði bara að eiga hann sjálf og fara í honum á djammið". Ég var svo sem ekkert rosalega ósátt með það að bæta ekki við enn einum jakkanum, þetta var samt mjög sérkennileg sölumennska.

Saturday, January 24, 2009

Það er nú einu sinni þannig

Að þegar maður hringir til guðs þá er enginn sem svarar. Það er enginn hinumegin á línunni. Það er einmitt enginn notandi með þetta símanúmer.

Ekki að ég ætli neitt að harma það frekar en fagna því. Þess vegna finnst mér ljóðið eftir Lubba samt svo frábært. Þau eru fleiri góð í nýju ljóðabókinni eftir hann Kvæðahver. Farið endilega í Eymundson og kíkið á hana, meira að segja sá ég að hún er á útsölu og því á góðu verði.

- og nei, ég er ekki að þiggja auglýsingalaun frá Lubba - né Eymundsson.

Thursday, January 22, 2009

Ekki rauðvínslegin

Þá er kominn fimmtudagur og er þetta annar fimmtudagurinn sem ég er í Reykjavík eftir jólafrí. Ég verð að viðurkenna að ég er ótrúlega fegin að rútínan er komin af stað og fimmtudagarnir þjóta framhjá einn af öðrum. Verkefnin eru farin að kinka kolli og vilja láta eiga við sig, verkefnatextarnir eru tilbúnir til lesturs, allt einfaldlega að verða eins og það á að vera. Ég sit heima, horfi á DVD, les texta og ljóðabækur til skiptis, geri bara hitt og þetta og er ánægð með lífið.

Er núna í áfanga sem fjallar að mestu um verkefnastjórnun og finnst mér þetta einn mest spennandi áfangi sem ég hef verið í. Þá reynir nú aldeilis vel á stjórnsemishæfileikana mína þar sem maður þarf að standa upp og hafa frumkvæði að verkefni sem maður sjálfur stjórnar. Fjárhagsáætlun, tímaáætlun og allt sem almennt snýr að þessu verkefni þarf maður sjálfur að greina frá. Verkefnið getur verið listahátíð, tónlistarhátíð eða í raun hvað sem er menningartengt. Ég sé vel fyrir mér að láta nokkrar hugmyndir verða að veruleika í framtíðinni og þá er nú mjög gott að fá svona áfanga til þess að æfa sig. Fá líka kennara sem er vanir og hafa séð um alla helstu viðburði hérna á Íslandi síðustu árin. Sjá að það er margt hægt að gera eftir ákveðnum aðferðum ef vilji og fjármagn eru fyrir hendi.

Pilatestíminn á þriðjudaginn var líka eftirminnilegur. Ég naut þess virkilega að láta segja mér fyrir hvaða og hvernig æfingarnar væru gerðar. Róandi og sumar æfingar erfiðar um leið. Þó svo að ég sé kannski búin að vera svolítið öfgafull í hreyfingunni í þessari viku, tvisvar á dag í ræktina eða út að hlaupa. Ég verð að viðurkenna að það er örlítið mikið og ég ætla að reyna að minnka þetta aðeins í næstu viku. Segi það samt og meina það að háskólaræktin er staðurinn til að vera á núna í kuldanum og skammdeginu.

Bóndadagurinn er á morgun og í tilefni þess ætla ég hugsanlega að elda einhvað gott handa Friðjóni (í minnsta kosti verður farið í gott sushi) og kannski bjóða honum upp á smá hvítvín með því ef veður leyfir.

Eitt ljóð í lokin eftir lubba klettaskáld

Ég bað til guðs

ég bað til guðs
um betri tíð
með blóm í haga

ég bað til guðs
um frið og ró
og frjálsan aga

ég bað til guðs
um gilda vasa
og góða daga

ég bað til guðs
að lækna sár
og svanga maga

ég bað til guðs
og svarið var:
"það er enginn notandi
með þetta símanúmer".

Monday, January 19, 2009

Hulda Rós á..

...ekki að drekka rauðvín.

Það var svona helst í fréttum í dag.

Friday, January 16, 2009

Nýir kjólar

Fór í búð á laugarveginum og keypti mér 3 nýja kjóla. Allir á lágmarksverði svo að nú verð ég á næstunni mjög fín fyrir mjög lítinn pening. Ég fór að hugsa um það um daginn hvað ég er mikil stelpa. Þá meina ég það á þann hátt að ég elska að skreyta mig með skartgripum og kaupa falleg föt. Svo elska ég að kaupa fallega hluti og stilla þeim upp fyrir framan mig og horfa á þá dags daglega. Þetta gildir líka um bækur, nema stundum tek ég þær úr hillunni og les, þó sjaldnar sem það gerist. Reyndar byrjuðu fagurkerataktarnir þegar ég var mjög lítil. Vildi alltaf vera í kjól á meðan Valdís var í íþróttagallanum. Tók flotta hluti frá mömmu þegar hún sá ekki til og setti þá upp á hillu í herberginu mínu. Svo kom langt tímabil sem ég þorði ekki að vera í neinu fallegu, bara helst einhverju sem myndi sjá til þess að ég skæri mig sem minnst úr. Núna er ég hinsvegar aftur farin að þora og líka það vel að klæða mig eins og ég vil. Það er skemmtilegt og gefur lífinu gildi.

Komin aftur til Reykjavíkur eftir langt og gott frí á Hornafirði. Afskaplega var ljúft að vera þar og afskaplega er ljúft að vera aftur komin í miðbæinn. Er einmitt í þessum töluðu orðum að fara á röltið niður í bæ, það er alltaf eitthvað nýtt að sjá og kaffið sem maður kaupir dýrum dómum er líka gott.

Það eru allir að hætta að blogga þessa dagana. Örugglega út af facebook. Mér finnst hinsvegar svo gaman að skrifa og ekkert svo gaman á facebook, að ég ætla að halda áfram að skrifa hér inn. Ég veit að það eru allavega 3 sem lesa þetta, Lóa frænka, mamma og Valdís. Það er næg ástæða til að halda áfram.