Monday, September 21, 2009

Mánudagur 2

Það lítur út fyrir að ég bloggi á mánudögum. Allavega núna og síðasta. Annars ætla ég að vera duglegri að rita niður hugleiðingar mínar.

Helgin fór rólega fram og slapp ég við allt djamm fyrir utan einn lítinn bjór á Thorvaldsen og að smakka koníak í fyrsta skipti. Friðjón bauð mér upp á smá sopa með mikilli athöfn þar sem hann var að opna afmælisflöskuna sína. Annars var þetta rölt bara rólegheita rölt um miðbæinn með stutt stopp á English pub til að pissa. Vildi að ég hefði sleppt því þar sem ég þurfti að hlusta á margar mis-fullar ljóskur metast um það hver væri með lykil að mikilvægara fyrirtæki í höndunum. Ein var með að Smáralind, ein af Kringlunni og sú sem stökk fram af klósettinu (til þess að vera með í umræðunni) var með lykil að Reiknisstofu bankanna - og aðgang að kerfinu. Nú svo bættist ein í hópin sem vann einu sinni í Seðlabankanum.

Já þetta voru viturlegar og háleynilegar umræður sem áttu sér stað á klósettinu á English.

Ég er að setja mig í stellingar þessa vikuna til þess að undirbúa mig fyrir afmæli Svavar Guðnasonar sem verður þann 19. nóvember næstkomandi. Er með nokkrar hugmyndir að því hvernig ég ætla að fagna afmælinu og ætla ég að byrja að vinna úr þeim núna, ekki seinna vænna. Svo er það lokaverkefni og Nordisk Panorama þar sem við erum að fara að gera stutta heimildarmynd um hátíðina. Svo auðvitað tónlistarhátíðin Réttir.

Nóg framundan og eins gott að koma sér í skokkið sem fyrst og hefja vikuna...

Monday, September 14, 2009

Mánudagur

Í dag ætla ég að kaupa mér árskort í ræktinni. Það er alltaf góður dagur þegar maður gerir það. Ég er nefnilega þannig að þegar ég hef borgað fyrir eitthvað, þá nota ég það mikið. Einstaklega hentugt þegar kort í ræktinni er annars vegar. Árangurinn verður víst ekki mikill nema að mæta.

Spáir brjáluðu veðri í dag. Alveg spurning um að drífa sig að gera það sem maður þarf að gera utandyra. Ég er bara að hafa það svo kósí hérna heima, með te og tölvuna fyrir framan mig að hlusta á Rás 2. Já, að vera í háskóla, getur svo sannarlega haft sinn sjarma þegar það er ekki allt brjálað að gera.

Þessa vikuna ætla ég að taka hollustuna alvarlega. Sykurbannið er erfiðast fyrir mig en samt ætla ég að reyna mitt besta. Svona fyrir utan 2 mjög dökka súkkulaðibita með kaffinu. Það er einfaldlega bara hluti af mínu menningarlega líferni og verður ekki tekið úr dagskránni. Nart á kvöldin verður hinsvegar að fjúka fyrir utan melónu og epli.

Umfram allt ætla ég að vera jákvæð og í góðu skapi alla vikuna. Missa mig í að vinna í lokaverkefninu. Kannski sæki ég um vinnu ef ég verð í svaka stuði.

Gott að skrifa sér svona lista á mánudögum og setja á bloggið sitt. Þá er auðveldara að fylgja markmiðum.

Wednesday, September 9, 2009

Komin til Reykjavíkur

Lífið er hafið í Reykjavík og ég hef strax misst af áhugaverðum tónleikum. Langaði svo á Jón Múla lögin með Sigríði úr Hjaltalín í Austurbæ. En nei, einhvernveginn tókst mér að missa af því og er alveg ferlega svekkt núna. Eins gott að þetta prógram verði flutt á Rósen sem fyrst.

Ég ætla að fara út núna, út og niður í bæ. Þetta gengur ekki, allt of mikið í gangi og ég bara að hanga heima að skrifa í tölvunni og á tískusíðum og Facebook.

Kannski ég fari bara á Rósen.

Wednesday, September 2, 2009

Haustið og tíminn

Haustið er komið og sumarið hefur liðið eins og að venju, hratt og örugglega.

Ég veit ekki af hverju ég hugsa svona mikið um tímann, af því að hann hvort eð er líður, samt er ég í endalausri tilvistarkreppu út af öllu því sem ég er að missa af á meðan ég eldist.

Ekki það að ég geti nokkuð gert í þessu nema að reyna að lifa lífinu til fulls og njóta þess sem ber að garði hvern dag fyrir sig. Þó felur það í sér mikla andstæðu því flestir dagar eru mjög venjulegir og ekkert beinlínis hægt að njóta þeirra eins og góðs súkkulaðis - að minnsta kosti ekki upp á hvern einasta venjulega dag. Þess vegna líður þetta og líður án þess kannski að maður taki nokkuð eftir því að maður noti dagana í eitthvað gáfulegt.

Þannig er allavega tilfinningin að maður hafi ekki náð að nýta hinn venjulega dag til fulls, þó svo að hafa kannski áorkað ýmsu miðað við að aðeins tæplega 24 ár eru búin af þessu lífi.

Hvað sem öðru líður er ég ennþá leitandi. Leitandi í átt að afslöppuðu hugarfari og glaðlegum, tilvistarkreppulausum hversdagsveruleika.

Ég spyr mig líka að því hvort ein helsta ósk mín, um að ferðast, verði nokkuð að veruleika. Þær hugsanir að ég sé föst á stórskuldugri eyju eru raunverulegar, að minnsta kosti þangað til ég verð svo heppinn að fá vinnu erlendis.

Ég reyni þó að hugsa til þess að það tekur aðeins eina mínútu að fá góða vinnu, einn dag að ákveða að flytja út og tiltölulega litla fyrirhöfn að breyta til. Þess vegna á ég að reyna að hætta að ofhugsa hlutina þangað til það bara gerist, einmitt vegna þess að það eru alvöru aðgerðir sem leiða af sér eitthvað nýtt og spennandi, á meðan leitandi hugsanir eyða orku og flækja málin.