Wednesday, June 24, 2009

Forsætisráðherra

Jóhanna Sigurðardóttir mun aldrei vinna hug og hjarta mitt.

Vel valin setning sem ég heyrði áðan.

"Það er frábært að vera með forsætisráðherra sem er kona og lesbía" segja sumir. Það gefur gott fordæmi og er gott fyrir kvenréttindabaráttuna.

Nei. Ekki alveg. Ekki finns mér.

Það þarf konu, t.d. með mann og börn og þessa ekta kvenlegu týbu til þess að gefa gott fordæmi. Eins og Vigdís Finnbogadóttir var til dæmis mun frekar. Ekki vélmenni sem er þegar nær er litið ekki svo frábrugðin körlunum.

Þegar hún byrjar að tala þá missi ég áhugann mjög fljótt...en það er kannski einmitt þessi góða færni pólitíkusa í því að tala bara í innihaldslausum frösum. Það bætir ekki ástandið að hún er með leiðinlegan tón sem er síður en svo upplífgandi á erfiðum tímum. Svo er ég bara ekki að þola svona hroka, hjá konu sem ætlar sem greinilega lítið annað en að komast mjög fljótlega á góð eftirlaun.

Monday, June 22, 2009

Sumarið er ekki tími til þess að skrifa of mikið...

...þó að það gerist ýmislegt sem vert er að skrifa um og hugleiðingarnar láti ekki á sér standa.

Aðallega munu ferðasögurnar bera hæst við í sumar en ferðasögur hafa verið skrifaðar svo lengi sem menn muna. Alltaf hefur fólk haft tilhneygingu til að ferðast, skipta um umhverfi, sjá nýtt fólk og nýja staði. Allir reyna að ferðast, sama hvað það kostar og hversu mikil fyrirhöfnin er. Jafnvel leggja á sig ferðalag á framandi staði, nýja staði þar sem lífskjörin eru mun bágari en heima fyrir og svo framvegis. Ferðalög eru semsagt hluti af frítíma okkar og hvernig við eyðum honum.

Ég fór hinsvegar ekki á Kirkjubæjarklaustur eins og ég sagði hér í færslunni á undan. Þá var veðrið búið að ná á mér tökum og ég varð blá af kulda eftir að sitja á fótboltaleik. Enda var líka spáð svipuðum kulda alla helgina. Friðjón lagði hinsvegar af stað með allt útilegudótið og endaði á því að hann keyrði alla leið á Hornafjörð. Laugardagurinn fór í 3 tíma fjallgöngu á tind í nágrenninu, pizzuveislu og svo miðnæturgolf um kvöldið.

Svo er ég nýkomin frá Reykjavík þar sem ég eyddi helginni sem var að líða. Fór í útskriftarveislu hjá Eddu og dagsferð á Þingvelli að skoða það fallega umhverfi allt. Þannig lýkur ferðasögunum í bili hjá mér.

Wednesday, June 10, 2009

Útilegusumar

Mig grunar að það sé útilegusumar í vændum.

Ég fór í bæinn síðustu helgi og þá tókum ég og Friðjón þá skyndiákvörðun á laugardeginum að fara til Grindavíkur að tjalda. 4. flokkur kvenna í Sindra sem Valdís er að þjálfa var að keppa og veðrið var svo gott að ekkert annað var í boði en að skella upp tjaldinu. Svo fórum við á blústónleika í Salthúsinu sem er mjög flott timburhús þar í bæ og sjómannaball í kjölfarið.

Ferlega kósý ferð.

Ég er svo búin að vera dugleg í labbi-hlaupi-yoga alla vikuna og árangurinn lætur ekki á sér standa þó að það sé aðeins miðvikudagur, það er að segja líðanlega séð. Það er furðulegt hvað líkaminn er fljótur að taka við sér þegar maður leggur aðeins extra á sig, eins og t.d. að hætta að borða sykur og minnka hveiti. Ég þarf yfirleitt bara svona tvær vikur í venjulegri hlauparútínunni minni ef ég bæti yoga og labbi við, til þess að verða nokkuð ánægð með mig. Það þýðir hinsvegar ekkert að sukka í óhollu fæði á meðan heldur meira borða ávexti og drekka te og sítrónuvatn. Þá er þetta fljótt að virka. Það er ekki seinna vænna en að koma sér í sumarformið nefnilega.

Næstu helgi er ég að hugsa um að fara í aðra útilegu. Á Kirkjubæjarklaustri. Það verður örugglega mjög afslappandi.

Thursday, June 4, 2009

Einkunnir í hús

Einkunnir komnar í hús og ein vel þegin nía þar á meðal.

Ég er ekki enn búin að þroskast upp úr því að vilja fá tíu í öllu. Ég veit, það er barnaskólalegt en sumt breytist aldrei.

Ég fæ ofsalegt kikk út úr því að fá góðar einkunnir. Gott spark fyrir komandi önn sem verður kannski sú síðasta í þessu mastersnámi.

Monday, June 1, 2009

Hvítasunnuhelgin...

...er liðin.

Friðjón farinn aftur í bæinn. Ekki fara frá mér...sagði ég eins og í fyrstu skiptin sem við hittumst. Eða hugsaði. Stundum er það samt bara þannig að maður þarf að sinna skyldum sínum einhverstaðar annarstaðar. Þá verður það bara að vera gott og blessað.

Ég fór á tónleika með Megasi í kvöld. Eftir að hafa farið ansi góða göngu við ágæta heilsu upp á Bergárdal. Ég hefði kannski komist á Hnjúkinn eftir allt en það þýðir ekki að velta sér upp úr því. Það verður tími fyrir það seinna, vonandi fyrr en seinna.

Tónleikarnir með Megasi voru fínir. Pakkhúsið var staðurinn og Senuþjófarnir lögðu undir sig sviðið. Mér fannst ekki síður gaman að hitta Valda Kolla..ansi mörg ár síðan hann kom hingað síðast. Hann spilaði vel á bassann, er alltaf svo stolt af stóra frænda mínum þó svo að ég sé farin að sjá hann spila ansi reglulega hér og þar síðustu árin.

Það vantaði textabók með tónleikunum...hefði verið gaman að heyra textana og sjá þá og lesa. Textarnir eru jú allveg brillíant hjá Megasi.

Vinnuvika tekur við. Bara stutt, svona þrjá til fjóra daga. Svo fer ég kannski til Reykjavíkur næstu helgi. Næstu helgi er líka heill mánuður síðan ég fékk mér síðast eitthvað með áfengismagni í. Ég vil nú ekki hljóma eins og alki en sem ung dama í heilsuátaki er ég bara ansi ánægð með það.