Wednesday, November 25, 2009

Freyja

"Í Belgíu eru persónueinkenni okkar sem þjóðar að þurrkast út" sagði kona við mig sem ég bjó hjá í tvær vikur þar í landi. Hún var á móti Evrópusambandinu enda hreinræktaður Belgi sem fannst að þjóðinni vegið sem landi með séreinkenni.

Ég fór að hugsa þegar ég heyrði lagið "Freyja" sem hljómar alltaf í útvarpinu og er um þessar mundir vinsælasta lag Rásar 2. Þó svo að Magnús sagði sjálfur að lagið væri síðbúin afsökunarbeiðni til landsins, náttúrunnar og auðlindanna, (http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/day/2009/9/29/) þá er ekki erfitt að túlka það sem óð til landsins - og þar með lag um það að við eigum ekki að selja landið og auðlindir okkar. "Ég seldi þig..fiskinn í sjónum og fjöreggin þín.." Allavega passar þetta allt frekar vel í mínum huga.

Það er nefnilega ljóst að þegar fólk talar um aðild að Evrópusambandinu (og skiptist í tvo hópa), að hér er á ferðinni álíka umræða og í byrjun 20. aldar þegar hópur manna barðist fyrir sjálfstæði frá Dönum. Þeir sem voru þjóðernissinnar vildu sjálfstæði en það var líka öllu hljóðlátari hópur fólks í í sögubókunum, sem hélt að við værum kannski efnahagslega betur sett á því að vera frekar undir Dönum. Núna erum við þjóðernissinnar að reyna að berjast fyrir því að halda sjálfstæðinu. Semsagt að fara ekki í Evrópusambandið. Á meðan hinn hópurinn heldur enn að það sé virkilega betra að vera öðrum háður. Ég mun aldrei samþykkja það að þjóðernissinnar séu meðal stuðningsmanna Evrópusambandsins (gegn þeim rökum að það sé þjóðinni fyrir bestu að vera í sambandinu). Það eru einfaldlega þeir sem vilja leita "einfaldra skyndilausna" sem er ekki einu sinni víst hvort geri neitt betra fyrir land og þjóð þegar uppi er staðið.

Ég veit að umhverfið er breytt, ástæður eru breyttar og kannski finnst ekki öllum auðvelt að sjá þessa samsvörun svona tæpum 100 árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki. En í grunninn spyr ég : Hversu heitt elskaru landið þitt. Hversu heitt elskaru að vera Íslendingur. Fyrir hvað viltu fórna sjálfstæðinu sem forfeður okkar börðust hart fyrir? Hversu fast viltu halda í séreinkenni þín sem Íslendings og menningu okkar lands? 100 ár sem sjálfstæð þjóð sem stendur á eigin fótum er ekki langur tími. Getum við virkilega ekki betur að mati Evrópusambandssinnuðum?

Það er algjör rómantíker sem talar. Kannski ekki alveg niðri á jörðinni. En sannfæringin er sterk þegar hún er til staðar á annað borð. Þessi sannfæring er yfir peninga hafin. Þetta eru miklu stærri spurningar en um efnahag Íslands næstu árin. Ef við förum inn er ekki svo auðveldlega aftur snúið. Fljótlega töpum við svo sjarmanum sem sérstök þjóð á eyju úti í hafi.

Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?

Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?

Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?

Thursday, November 19, 2009

Byrjuð að klippa í vetrarkulda

Þá er kominn 19. nóvember og afmæli Svavars liðið! Hann hefði semsagt orðið 100 ára í gær 18. nóvember. Ég ætlaði að koma með pistil í tilefni af því en honum seinkar aðeins. Ég hafði svo mikið að gera í vikunni, var uppi í Listasafni í gær að taka upp athöfn afmælinu til heiðurs. Þetta var formlegt og skemmtilegt, fyrsta bókin var gefin menntamálaráðherra og svo voru veittir styrkir úr sjóði Svavars og Ástu. Ég tók allt upp og hélt því áfram að safna heimildum um þessi tímamót í íslenskri listasögu.

Í gær hitti ég margar frænkur sem ég hef ekki áður séð. Dætur Stefáns, bróðir langafa voru allar í athöfninni. Þetta voru konur ekki ósvipaðar þeim sem ég þekki í ættinni. Litlar með fíngert vaxtarlag og andlitin kunnugleg. Gaman hvernig maður sér oftar en ekki ættarsvipinn. Kannski er þetta hornfirska útlit svona sérstakt, eitthvað er það. Þetta var allavega viðburður út af fyrir sig fyrir mig að fá að tala við "nýjar" frænkur sem sögðu mér frá þeim skiptum sem þær heimsóttu Hornafjörð og dvöldust í Heklu.

Bókin um Svavar verður án efa jólagjöfin í ár í mínum huga, ef einhverjum dettur í hug að gefa mér hana. Hún er þykk og stór og full af frábærum fróðleik til að glugga í yfir jólin. Er ekki þessi "skáldsögumanneskja" svo að ein stór kæmi í staðinn fyrir allar litlu kiljurnar.

Er núna byrjuð að vinna í myndinni, setja inn efni og klippa hana. Stefnan er tekin á 8 mínútna æfingarmynd til að byrja með. Verður skemmtilegt að sjá útkomuna. Ætla að kippa í nokkra spotta til þess að fá tónlist í myndina án þess að stela henni. Þetta verður að vera almennilegt.


Tuesday, November 3, 2009

Viðburðaríkir dagar

Það er heldur betur búið að vera margt á döfinni hjá mér. Ég er búin að taka upp nokkra tíma af efni fyrir heimildamyndina mína og gerði það allt í síðustu viku. Fór semsagt alla síðustu viku upp í Listasafn Íslands og myndaði það sem þar fór fram í undirbúningi fyrir stórri sýningu á verkum Svavars Guðnasonar. Þessi sýning opnaði svo á laugardaginn, þar sem ég og Friðjón fórum að sjálfsögðu og vorum við opnunina. Sýningin var svo falleg og svona persónulega fyrir mig fannst mér það algjör forréttindi að fá að vera með þennan dag. Halldór Björn hélt ræðu sem ég hefði alls ekki viljað missa af. Það sem betra er - ég á hana alla á upptöku. Líka ræðuna hjá forsetanum.

Verður eflaust gott að nota þetta í stóru myndina mína sem ég ætla að reyna að klára fyrir næsta sumar.

Svo er ég að missa mig í að hanna hluti og búa til, sköpunargleðin fer öll í það þessa dagana auk þess að vera með kvikmyndavél á öxlinni og vinna með lifandi myndir. Ég held að ég þurfi reglulega að breyta til og er algjörlega búin að leggja gítarnum í bili og alveg hætt að semja lög og texta. Það er kannski bara gott að "rótera" í þessu reglulega þó svo að ég horfi reglulega á hann og skammist mín fyrir að "geta ekki neitt" lengur með honum. Svo er líka pirrandi að semja lög og texta og gera aldrei neitt meira með það. Held ég þurfi að fara að vinna með gömlu lögin betur áður en ný verða til. Það verður tími fyrir það eins og allt annað.

- er bara á milljón þessa dagana með allt og allt.

Tuesday, October 27, 2009

Tökudagur eitt

Fyrsti tökudagur á myndinni er búinn. Ég held að þetta hafi verið erfiðasti dagurinn þó svo að hann hafi kannski verið frekar stuttur. Erfiðastur vegna þess að það er alltaf erfitt að byrja á nýju verkefni sem maður vill alls ekki klúðra, sama hversu mikil tilhlökkunin er. En þetta gekk hinsvegar vel og Friðjón hjálpaði mér að bera þrífótinn um allt Listasafn. Það munaði öllu.

Við liggjum samt heima með einhverja flensu. Þá þarf líka að taka því rólega og passa sig að fara ekki of geyst. Þessi rólegheitatími er núna og í kvöld, svo byrjar skemmtunin aftur í fyrramálið.

Get bara ekki hætt að brosa eftir að hafa litið öll þessi fallegu málverk augum, sum í annað skipti, sum í þriðja...en mörg í það fyrsta.

Saturday, October 24, 2009

Afmæli listamanns nálgast

Ég sit hér í stofunni á Lindargötunni, í Skuggahverfinu þar sem amma mín átti einu sinni heima. Þá var vissulega allt öðruvísi hér um að litast en miðbæjarstemningin vafalaust sú sama - ef ekki betri. Nú sit ég hinsvegar hér og eyði háskólaárunum, eftirminnilegustu árunum í lífi mínu.

Það er ekki mikil kreppa á þessu heimili því hér verða kokkaðar bakaðar kartöflur og folaldalundir í kvöldmat. Með því verður drukkið rándýrt lífrænt ræktað rauðvín.

Mitt í öllum undirbúningnum get ég ekki annað en hugsað um komandi daga sem verða viðburðarríkir. Ég er að undirbúa heimildakvikmynd um listamann og byrja tökur á mánudaginn. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því og verð ég alltaf sátt að líta til baka og vita að ég nýtti tímann til að klára þetta verkefni. Ég þarf því, frá og með mánudeginum, að hætta að vera feimin og verða ótrúlega frökk og blátt áfram. Taka viðtöl við gáfað fólk og mikilvægt fólk í samfélaginu. Taka upp allt sem mér dettur í hug og aldrei að hika. Ef það á einhvað að vera varið í þessa mynd.

En nú þarf að leggja á borð og taka fram kræsingarnar.

Skál.

Tuesday, October 20, 2009

Fallegur sólardagur í borginni

Ég verð að hætta að skrifa bara á mánudögum. Á mánudögum er maður stundum þreyttur eða ennþá í helgarfríi í huganum. Á þriðjudögum verður hugurinn hinsvegar aftur beittur og þá er mál að skrifa eitthvað viturlegt.

Ég get ekki annað en að viðurkenna að ég hlakka mikið til jólanna. Ég veit fullkomlega að það er frekar langt í það en ég get ekki beðið eftir að fara til Hornafjarðar, út að labba með Janis og svo framvegis. Ég sakna þess svo mikið núna og mér finnst of langt síðan síðast.

Veturinn er líka búinn að vera skrítinn hér. Jújú ég var í áfanga sem var fín mæting í og ágætis álag. Svo er ég að fara að gera lokaverkefni í því og þá verður dágott álag. Þess á milli, semsagt þessa dagana, er ég hinsvegar bara í biðstöðu út af lokaverkefninu og maður er ekkert að fá sér vinnu í 2 vikur. Þannig að ég er bara að glugga í bókum og svona, reyna að kenna mér að slappa af og hlaða batteríin. Þetta er bara ekki eitthvað sem ég er vön að gera og mér líður stundum eins og aumingja eða atvinnulausum einstakling í tilvistarkreppu.

Þess á milli er samt alveg merkilegt hvað maður nýtur þess að vera til. Ég er sennilega að kynnast nýrri hlið á mér sem ég vissi ekki að væri til. Sú sem bara nýtur lífsins sama hvað er í gangi og hversu lítið eða mikið af verkefnum eru á borðinu.

Í dag eru samt nokkur verkefni framundan. T.d. að kaupa kaffi og farra á bókasafnið. Svo þarf ég líka að fara í kennslu á Final cut hjá Höllu til þess að geta klippt kvikmyndina mína. Svo að þetta verður ekkert nema áhugaverður dagur í sólinni í Reykjavík.

Monday, October 12, 2009

mánudagur fjögur

Ég gleymdi einum mánudegi. Var eitthvað svo upptekin í þarsíðustu viku að vera á Nordisk Panorama, gera stutta heimildamynd sem heitir Samtöl og svo framvegis. Svo síðustu viku var ég að klára áfangann og hugsa um mitt eigið lokaverkefni sem á að vera tæplega 10 mínótna heimildarmynd. Er enn að bíða eftir útkomu hvort hugmyndin mín gangi upp, annars er það "plan bjé" þar sem ég er reyndar með ágæta hugmynd í huga. Það hefur verið heljar upplifun að vera í öllu þessu kvikmyndastússi og áhuginn vaknaði á ný um að gera alvöru mynd.

Ég þarf að komast heim til mín fljótlega, fara út að labba með Janis og kíkja til ömmu. Það er alvarlega kominn tími á það svo ég geti settst niður og flokkað heimildir í friði fyrir Reykjavíkurstressinu.

Monday, September 21, 2009

Mánudagur 2

Það lítur út fyrir að ég bloggi á mánudögum. Allavega núna og síðasta. Annars ætla ég að vera duglegri að rita niður hugleiðingar mínar.

Helgin fór rólega fram og slapp ég við allt djamm fyrir utan einn lítinn bjór á Thorvaldsen og að smakka koníak í fyrsta skipti. Friðjón bauð mér upp á smá sopa með mikilli athöfn þar sem hann var að opna afmælisflöskuna sína. Annars var þetta rölt bara rólegheita rölt um miðbæinn með stutt stopp á English pub til að pissa. Vildi að ég hefði sleppt því þar sem ég þurfti að hlusta á margar mis-fullar ljóskur metast um það hver væri með lykil að mikilvægara fyrirtæki í höndunum. Ein var með að Smáralind, ein af Kringlunni og sú sem stökk fram af klósettinu (til þess að vera með í umræðunni) var með lykil að Reiknisstofu bankanna - og aðgang að kerfinu. Nú svo bættist ein í hópin sem vann einu sinni í Seðlabankanum.

Já þetta voru viturlegar og háleynilegar umræður sem áttu sér stað á klósettinu á English.

Ég er að setja mig í stellingar þessa vikuna til þess að undirbúa mig fyrir afmæli Svavar Guðnasonar sem verður þann 19. nóvember næstkomandi. Er með nokkrar hugmyndir að því hvernig ég ætla að fagna afmælinu og ætla ég að byrja að vinna úr þeim núna, ekki seinna vænna. Svo er það lokaverkefni og Nordisk Panorama þar sem við erum að fara að gera stutta heimildarmynd um hátíðina. Svo auðvitað tónlistarhátíðin Réttir.

Nóg framundan og eins gott að koma sér í skokkið sem fyrst og hefja vikuna...

Monday, September 14, 2009

Mánudagur

Í dag ætla ég að kaupa mér árskort í ræktinni. Það er alltaf góður dagur þegar maður gerir það. Ég er nefnilega þannig að þegar ég hef borgað fyrir eitthvað, þá nota ég það mikið. Einstaklega hentugt þegar kort í ræktinni er annars vegar. Árangurinn verður víst ekki mikill nema að mæta.

Spáir brjáluðu veðri í dag. Alveg spurning um að drífa sig að gera það sem maður þarf að gera utandyra. Ég er bara að hafa það svo kósí hérna heima, með te og tölvuna fyrir framan mig að hlusta á Rás 2. Já, að vera í háskóla, getur svo sannarlega haft sinn sjarma þegar það er ekki allt brjálað að gera.

Þessa vikuna ætla ég að taka hollustuna alvarlega. Sykurbannið er erfiðast fyrir mig en samt ætla ég að reyna mitt besta. Svona fyrir utan 2 mjög dökka súkkulaðibita með kaffinu. Það er einfaldlega bara hluti af mínu menningarlega líferni og verður ekki tekið úr dagskránni. Nart á kvöldin verður hinsvegar að fjúka fyrir utan melónu og epli.

Umfram allt ætla ég að vera jákvæð og í góðu skapi alla vikuna. Missa mig í að vinna í lokaverkefninu. Kannski sæki ég um vinnu ef ég verð í svaka stuði.

Gott að skrifa sér svona lista á mánudögum og setja á bloggið sitt. Þá er auðveldara að fylgja markmiðum.

Wednesday, September 9, 2009

Komin til Reykjavíkur

Lífið er hafið í Reykjavík og ég hef strax misst af áhugaverðum tónleikum. Langaði svo á Jón Múla lögin með Sigríði úr Hjaltalín í Austurbæ. En nei, einhvernveginn tókst mér að missa af því og er alveg ferlega svekkt núna. Eins gott að þetta prógram verði flutt á Rósen sem fyrst.

Ég ætla að fara út núna, út og niður í bæ. Þetta gengur ekki, allt of mikið í gangi og ég bara að hanga heima að skrifa í tölvunni og á tískusíðum og Facebook.

Kannski ég fari bara á Rósen.

Wednesday, September 2, 2009

Haustið og tíminn

Haustið er komið og sumarið hefur liðið eins og að venju, hratt og örugglega.

Ég veit ekki af hverju ég hugsa svona mikið um tímann, af því að hann hvort eð er líður, samt er ég í endalausri tilvistarkreppu út af öllu því sem ég er að missa af á meðan ég eldist.

Ekki það að ég geti nokkuð gert í þessu nema að reyna að lifa lífinu til fulls og njóta þess sem ber að garði hvern dag fyrir sig. Þó felur það í sér mikla andstæðu því flestir dagar eru mjög venjulegir og ekkert beinlínis hægt að njóta þeirra eins og góðs súkkulaðis - að minnsta kosti ekki upp á hvern einasta venjulega dag. Þess vegna líður þetta og líður án þess kannski að maður taki nokkuð eftir því að maður noti dagana í eitthvað gáfulegt.

Þannig er allavega tilfinningin að maður hafi ekki náð að nýta hinn venjulega dag til fulls, þó svo að hafa kannski áorkað ýmsu miðað við að aðeins tæplega 24 ár eru búin af þessu lífi.

Hvað sem öðru líður er ég ennþá leitandi. Leitandi í átt að afslöppuðu hugarfari og glaðlegum, tilvistarkreppulausum hversdagsveruleika.

Ég spyr mig líka að því hvort ein helsta ósk mín, um að ferðast, verði nokkuð að veruleika. Þær hugsanir að ég sé föst á stórskuldugri eyju eru raunverulegar, að minnsta kosti þangað til ég verð svo heppinn að fá vinnu erlendis.

Ég reyni þó að hugsa til þess að það tekur aðeins eina mínútu að fá góða vinnu, einn dag að ákveða að flytja út og tiltölulega litla fyrirhöfn að breyta til. Þess vegna á ég að reyna að hætta að ofhugsa hlutina þangað til það bara gerist, einmitt vegna þess að það eru alvöru aðgerðir sem leiða af sér eitthvað nýtt og spennandi, á meðan leitandi hugsanir eyða orku og flækja málin.

Monday, August 10, 2009

Fiskidagur á Dalvík

Sennilega er komið að síðustu ferðasögunni þetta sumarið.

Fiskidagurinn á Dalvík var frábær. Lögðum af stað um 3 á föstudegi og brunuðum í góðu veðri alla leið á Dalvík. Þurftum að bíða í 2 km langri bílaröð eftir að komast inn í bæinn en svo var mjög kósý á tjaldstæðinu sem við fundum rétt fyrir allt skrallið.

Vöknuðum kl. 9 á laugardeginum ferlega hress og vorum komin út á svæði um hálf 12. Þar var ýmislegt smakkað, fiskihamborgari, grillaður þorskur, fiskibollur, fiski þetta og fiski hitt. Allt mjög gott. Svo kítki ég á útimarkað og eyddi pening. Friðjón má ekki líta af mér og þá er ég búin að kaupa eitthvað handverk!
Þar sem það var troðið af fólki á Dalvík rúntuðum við líka yfir í Ólafsfjörð til þess að fara í hraðbanka. Mér fannst nú ólíkt fallegra á Dalvík en það spilaði inn í að í Ólafsfirði var bræðslufíla og rigning en sól á Dalvík.
Tónlistaratriði og fleira var í boði á Fiskideginum svo að dagurinn leið frekar hratt. Um kvöldið grillaði Friðjón svakalegar folaldalundir, við fengum okkur rauðvín, ís í ísbílnum og spjölluðum við nágrannana á tjaldstæðinu. Tvö eldri hjón og ein listakona. Það var fróðlegt þar sem listakonan spáði í spil og kenndi okkur á lífið.
Papaballið um kvöldið var frábært. Það þarf ekkert að segja meira um það nema að við dönsuðum mjög mikið og ég fékk smá salsakennslu.

Á sunnudeginum var ferðalagið langt í frá búið. Við keyrðum á Akureyri og borðuðum á Greifanum. Svo var Goðafoss skoðaður og jarðhitasvæðið í Mývatni. Þar næst, eftir smá ís stopp á Mývatni og ferð í Galleríið, var "rúntað" að Dettifossi. Sú ferð tók reyndar hátt í tvo tíma...en það var vel þess virði. Fossinn var stórfenglegur.

Semsagt frábær ferð og Fiskidagurinn á Dalvík einn sá besti hátíðardagur sem haldinn er á Íslandi að mínu mati. Næst taka við Hornfirskir tónleikar á föstudaginn næstkomandi þar sem Rökkurbandið ætlar að taka nokkur lög í Pakkhúsinu ásamt fleirum hornfirskum hljómsveitum. Svo menningarferð til Reykjavíkur næstu helgi þar sem Menningarnóttin verður tekin með trompi.

Wednesday, August 5, 2009

Verslunarmannahelgin

Verslunarmannahelgin er liðin. Sem þýðir að skólinn er alveg að byrja. Eða hvaða skóli sem það nú verður, það er alltaf verið að fella niður námskeið vegna niðurskurðar. Sérstaklega þau námskeið sem mig langaði svo að taka. Hefði kannski ekki átt að sleppa námskeiðinu í fyrra fyrir þessi spennandi námskeið í ár... sem lúta lægra haldi fyrir kreppunni nú.

Eftir margra daga vangaveltur, vonleysisköst og ótta við það hvert framtíðin leiðir mig þá ætla ég að reyna að vera bjartsýn.

Verslunarmannahelgin var svo sannarlega skemmtileg og verður lengi í minnum höfð. Ég og Friðjón vorum búin að ákveða að sleppa útihátíðunum og fara í góða veðrið og hafa það rómó. Helgin byrjaði í pizzuveislu á Hornafirði á föstudagskvöldinu. Svo á laugardaginn skelltum við okkur á suðurlandið og fórum í göngu í Skaftafelli. Að Svartafossi og í ýmsar áttir útfrá því. Nú þegar því var lokið ákváðum við að fara á Kirkjubæjarklaustur og tjalda þar og grilla. Tjaldsvæðið var vægast sagt fallegt og ekkert smá huggulegt að sitja með rauðvínsglas og horfa út í loftið þar. Svo kom Selma og kíkti á okkur og fljótlega var komin stemning fyrir því að skella sér aðeins út á lífið þar í bæ.

Á sunnudeginum var steikjandi hiti á Klaustri. Ég og Friðjón drógum vindsængina úr tjaldinu og lágum í sólbaði allan daginn. Nema þegar við fórum á Systrakaffi og ég fékk mjög góða grænmetispizzu. Svo var lagt af stað seinni partinn alla leið upp í Laxárdal í Lóni þar sem við mættum í svakalega flott grillað lambalæri hjá mömmu og pabba. Amma var með í för og því var mikið fjör. Í eftirrétt voru grillaðir bananar, skúffukaka, glóðaðir sykurpúðar og sitt lítið af allskonar góðgæti. Árni Johnsen klikkaði ekki á brekkusöngnum, ef þannig mætti orða þetta skemmtiatriði, en við vorum að vanda í hláturskasti yfir söngstíl hans og lélegu gítarströmmi.

Mánudagurinn fór mikið í að slappa af, sofa, liggja og eina gönguferð upp á fjall í Lóni. Svo var helgin bara búin. Endaði með vídjókvöldi og ísrúnti heima um kvöldið.

Tuesday, July 28, 2009

Bræðsluhelgin

Þá er kominn tími á ferðasöguna.

Ég lagði af stað á Djúpavog á miðvikudagskvöldinu. Friðjón kom á móti og hitti okkur í Berufirðinum þar sem var nú komið mikið rok, en fallegt var samt útsýnið alla leið á Borgarfjörð Eystri. Þar fórum við inn í stofu á Hólalandi, lögðumst niður og sofnuðum fljótlega vært.

Á fimmtudeginum var fljótlega búið sig af stað í gönguna í Stórurð og lögðum við af stað upp úr hádegi frá Vatnsskarði. Gangan tók um 4 tíma í heildina og Stórurðin var ótrúlega falleg. Mér leið eins og ég væri komin í aðra veröld þegar ég labbaði niður í urðina því landslagið þar var allt öðruvísi en ég hafði áður séð. Kom svona smá Lísu í Undralandi tilfinning. Eftir gönguna vorum við þreytt og lúin og hvíldum okkur smá á Hólalandi auk þess sem það voru eldaðar kjúklingapylsur. Síðan fórum við á tónleika hjá Aldísi Fjólu sem komu skemmtilega á óvart og mörg lög þar sem ég fílaði mjög vel. Eftir það skelltum við tjaldinu upp á tjaldsvæðinu.




Eftir hræðilega kalda og svefnlausa nótt vöknuðum við á föstudeginum. Það var þó blíða um daginn sjálfan og enn hafði ekki rignt dropa. Fljótlega um sex leytið fór ég að gera mig tilbúna fyrir tónleikana og flaug tíminn alveg þangað til þeir byrjuðu. Tónleikarnir með Rökkurbandinu í Álfacafé gengu vel og voru þetta sennilega einir bestu tónleikar sem við höfum haldið. Allt gekk upp og runnu lögin áfram eitt af öðru. Þetta voru allavega að mínu mati skemmtilegustu tónleikarnir til þessa, fyrir utan kannski Norðurljósablúshátíðina 2008. Gaman að sjá mörg ný andlit og að margir vinir mínir gætu loksins séð tónleika með okkur. Auk þess sem foreldrar mínir (og Jón Guðni) og Friðjóns voru á svæðinu, sem og ættingjar hans sem höfðu aldrei séð herlegheitin.

Eftir tónleikana fórum við upp í tjald að grilla folaldakjöt en svo á eftir því á rúntinn í heitum bíl í klukkutíma með mömmu og pabba. Flísklæðnaðurinn og öll ullarfötin dugðu semsagt ekki til við kuldanum. Þegar við ætluðum svo að fara að sofa sáum við að tjaldið okkar var frosið á tjaldstæðinu. Við skriðum því inn í stofuna á Geitlandi og sváfum þar vel á loftdýnu.

Laugardagurinn var tekinn snemma og farið í langa göngu og rúnt langleiðina í Loðmundarfjörð. Gangan var inn að fallegu vatni þar sem við fórum meðal annars yfir hóla og hæðir og gengum yfir risastóra mýri. Það er því ekki hægt að segja að það hafi verið mikið slappað af í þessari ferð. Svo var mikil fjölskyldugrillveisla um 6 leytið á Geitlandi og smá útipartý á eftir í garðinum. Fljótlega var þó farið niður á svæði til þess að fara á sjálfa Bræðslutónleikana.

Tónleikarnir voru mjög flottir en þó misjafnir. Mér fannst gaman að sjá Þursaflokkinn og er það örugglega bæði í fyrsta og síðasta skipti sem ég geri það. Eftir tónleikana tók við hefðbundið djamm í Fjarðaborginni. Ég var orðin mjög svo langþreytt sem gerði það að verkum að ég sat voðalega mikið og horfði á hina dansa og þvælast úti um allt.

Sunnudagurinn var bara sami gamli þreytudagurinn þar sem byrjað var í fiskisúpu í Álfacafé. Mæli með henni. Svo var farið á Egilsstaði í pizzuveislu. Mæli líka með því. Svo bara farið fljótlega heim á leið.

Þannig var nú það. Vel heppnuð ferð. Mikið um gönguferðir og minna um djamm... en allt voðalega skemmtilegt.
Næst tekur við Verslunarmannahelgi þar sem stefnan er tekin á lónið. Ódýr en jafnframt frábær skemmtun það.

Friday, July 17, 2009

Engri lík

Ég veit að ég ætlaði ekki að tala meira um pólitík hér í sumar en stundum finn ég mig knúna til þess að segja mína skoðun. Sérstaklega núna, á tímapunkti í íslandssögunni þar sem ástandið er undarlegt. Vissulega er ég að tala um Evrópusambandsaðildarviðræður, já eða Evrópusambandið yfir höfuð. Ég hef nefnilega ákveðna framtíðarsýn.

Þegar Evrópusambandið er annars vegar þá er ekki hægt að taka auðveldar ákvarðanir og alls ekki ákvarðanir sem varða nútímaástand. Svona ákvörðun er ákvörðun sem varðar fyrst og fremst framtíðarlandið Ísland vegna þess einmitt að það er ekki svo auðvelt að segja sig úr Evrópusambandinu. Það er ekki sanngjarnt að segja að Evrópusambandið lagi ástandið á Íslandi eins og það er í dag. Bæði út af því að það tekur einhver ár að komast í sambandið og einnig út af því að þetta er framtíðarákvörðun. Ef við myndum segja okkur úr því (svo ólíklega ef að það tækist) þá myndu sennilega fylgja því stórir efnahagslegir vankostir. Plús það að ráðamenn þjóðarinnar hafa það svo gott á spenanum frá sambandinu að þeir vilja aldrei fyrir sitt litla líf fara til baka, jafnvel þó svo að fólkið á landinu líði fyrir það. Og þá er ég að tala um fólk í öllum flokkum sem líkar góða lífið jafn vel, ekki bara Sjálfstæðisflokkinn eins og sumir myndu ætla (flokkinn sem er einmitt ekki að tala fyrir það að fara í sambandið, jafnvel þó svo að það fylgi því margir eiginhagsmunalegir kostir fyrir ráðamenn, ferðalög og flottheit) .

Það sem vantar er að fólk hugsi einmitt 30-50 ár fram í tímann, ekki næstu 10 árin. Næstu 10 árin verða hvort eð er erfið, það þarf ekkert að bæta það með öllum þeim kostnaði sem fer í aðildarviðræðurnar. Ég sé fyrir mér að með allar þær auðlindir sem við höfum og sérstöðu sem land með vel menntuðu fólki, að eftir tugi ára gætum við staði sterkari en aðrar þjóðir. Við gætum lifað góðu lífi sem einstaklingar sem skapa sér sín auðæfi, halda þeim inn í landinu og nýta allt fyrir okkur sjálf. Þetta eru ekki margir einstaklingar sem þarf að dreifa auðæfunum og framleiðslutekjum okkar til.

Við erum búin að brenna okkur á því að ríkur verði miklu ríkari svo að núna væri hægt að fara öðruvísi að uppbyggingunni, með Ísland fremst í flokki sem fallegt hreint land með gáfuðu fólki og skapandi kröftum. Við myndum halda áfram á þeirri góðu braut sem við erum á með ferðamannaiðnaði og einstakri, séríslenskri menningu, skapa okkur þannig sérstöðu í heiminum, laða fólk að allan ársins hring.

Miðað við þessar pælingar þá er Evrópusambandið bara til þess að gera okkur háð öðrum þar sem við missum sjálfstæði okkar aftur, eftir annars stuttan tíma sem við höfum verið sjálfstæð. Evrópusambandið mun líklegast sjúga í sig allar auðlindir og planta hér enn meira af verksmiðjum, virkjunum og svo framvegis. Hver veit nema þeir taki vatnið okkar, fiskinn, þurrki upp landið... þetta eru auðvitað svartsýnis hugsanir en það er mjög óljóst hvernig Evrópusambandið reynir að "hjálpa" okkur upp úr skuldunum. Hver verða útgjöldin? Svona af því að þeir eru þá væntanlega að fara að "hjálpa litla Íslandi sem var í djúpum skít".

Í stað þess að við reynum að bjarga okkur sjálf með fyrri reynslu að leiðarljósi til bættari lifnaðarhátta. Getum við ekki staðið upprétt sem þjóð núna sem aldrei fyrr og bjargað okkur sjálf? Kannski með einhverjum hætti tekið upp annan gjaldmiðil og séð hvert það leiðir.

Ástandið er ekki gott núna á Íslandi. En það verður ólíklegast bættara til framtíðar með því að gerast hluti af þessu Evrópusambandi. Það gæti lagast í nokkur ár eftir að við förum inn, en kannski er þetta bara stutt tímabil í mannkynssögunni sem Evrópusambandið yfir höfuð virkar sem bandalag milli landa.

Hvar stendur Evrópusambandið í sinni framtíðarsýn?

Hvar stendur Ísland í sinni framtíðarsýn? Spurning um að fara að móta hana af einhverri alvöru og hætta að láta núverandi ríkisstjórn að fara með okkur eins og peð á taflborði.

Tuesday, July 14, 2009

Ekki meiri pólitík.

Hvernig væri það að njóta sumarsins án þess að velta sér upp úr ráðherrum, icesave og öllum þeim fjandanum sem fjallað er um í fréttum á hverjum degi?

Humarhátíðin er búin sem þýðir að sumarið er að líða aðeins of fljótt. Ég fékk góða gesti og svo vorum ég og Friðjón mest í því að borða humarlokur, humarpizzu og ýmislegt annað sem var við hæfi á hátíð sem þessari. Við héldum tónleika á fimmtudeginum fyrir humarhátíð sem voru vel heppnaðir. Alltaf gaman þegar það kemur margt fólk...líka svo góð stemning í Pakkhúsinu.

Ég get eiginlega ekki beðið eftir næstu dögum. Rökkurbandið er að fara að spila á Borgarfirði Eystri á Bræðsluhelginni þannig að það er aldeilis skemmtilegt framundan. Svo fer ég í útilegu, labba upp í Stórurð og kannski til Eskifjarðar næstu helgi svo eitthvað sé nefnt.

Ég hugsa að ég skrifi meira þegar þetta allt er búið. Núna hef ég svo mikið að gera í því að vera full tilhlökkunar.

Wednesday, June 24, 2009

Forsætisráðherra

Jóhanna Sigurðardóttir mun aldrei vinna hug og hjarta mitt.

Vel valin setning sem ég heyrði áðan.

"Það er frábært að vera með forsætisráðherra sem er kona og lesbía" segja sumir. Það gefur gott fordæmi og er gott fyrir kvenréttindabaráttuna.

Nei. Ekki alveg. Ekki finns mér.

Það þarf konu, t.d. með mann og börn og þessa ekta kvenlegu týbu til þess að gefa gott fordæmi. Eins og Vigdís Finnbogadóttir var til dæmis mun frekar. Ekki vélmenni sem er þegar nær er litið ekki svo frábrugðin körlunum.

Þegar hún byrjar að tala þá missi ég áhugann mjög fljótt...en það er kannski einmitt þessi góða færni pólitíkusa í því að tala bara í innihaldslausum frösum. Það bætir ekki ástandið að hún er með leiðinlegan tón sem er síður en svo upplífgandi á erfiðum tímum. Svo er ég bara ekki að þola svona hroka, hjá konu sem ætlar sem greinilega lítið annað en að komast mjög fljótlega á góð eftirlaun.

Monday, June 22, 2009

Sumarið er ekki tími til þess að skrifa of mikið...

...þó að það gerist ýmislegt sem vert er að skrifa um og hugleiðingarnar láti ekki á sér standa.

Aðallega munu ferðasögurnar bera hæst við í sumar en ferðasögur hafa verið skrifaðar svo lengi sem menn muna. Alltaf hefur fólk haft tilhneygingu til að ferðast, skipta um umhverfi, sjá nýtt fólk og nýja staði. Allir reyna að ferðast, sama hvað það kostar og hversu mikil fyrirhöfnin er. Jafnvel leggja á sig ferðalag á framandi staði, nýja staði þar sem lífskjörin eru mun bágari en heima fyrir og svo framvegis. Ferðalög eru semsagt hluti af frítíma okkar og hvernig við eyðum honum.

Ég fór hinsvegar ekki á Kirkjubæjarklaustur eins og ég sagði hér í færslunni á undan. Þá var veðrið búið að ná á mér tökum og ég varð blá af kulda eftir að sitja á fótboltaleik. Enda var líka spáð svipuðum kulda alla helgina. Friðjón lagði hinsvegar af stað með allt útilegudótið og endaði á því að hann keyrði alla leið á Hornafjörð. Laugardagurinn fór í 3 tíma fjallgöngu á tind í nágrenninu, pizzuveislu og svo miðnæturgolf um kvöldið.

Svo er ég nýkomin frá Reykjavík þar sem ég eyddi helginni sem var að líða. Fór í útskriftarveislu hjá Eddu og dagsferð á Þingvelli að skoða það fallega umhverfi allt. Þannig lýkur ferðasögunum í bili hjá mér.

Wednesday, June 10, 2009

Útilegusumar

Mig grunar að það sé útilegusumar í vændum.

Ég fór í bæinn síðustu helgi og þá tókum ég og Friðjón þá skyndiákvörðun á laugardeginum að fara til Grindavíkur að tjalda. 4. flokkur kvenna í Sindra sem Valdís er að þjálfa var að keppa og veðrið var svo gott að ekkert annað var í boði en að skella upp tjaldinu. Svo fórum við á blústónleika í Salthúsinu sem er mjög flott timburhús þar í bæ og sjómannaball í kjölfarið.

Ferlega kósý ferð.

Ég er svo búin að vera dugleg í labbi-hlaupi-yoga alla vikuna og árangurinn lætur ekki á sér standa þó að það sé aðeins miðvikudagur, það er að segja líðanlega séð. Það er furðulegt hvað líkaminn er fljótur að taka við sér þegar maður leggur aðeins extra á sig, eins og t.d. að hætta að borða sykur og minnka hveiti. Ég þarf yfirleitt bara svona tvær vikur í venjulegri hlauparútínunni minni ef ég bæti yoga og labbi við, til þess að verða nokkuð ánægð með mig. Það þýðir hinsvegar ekkert að sukka í óhollu fæði á meðan heldur meira borða ávexti og drekka te og sítrónuvatn. Þá er þetta fljótt að virka. Það er ekki seinna vænna en að koma sér í sumarformið nefnilega.

Næstu helgi er ég að hugsa um að fara í aðra útilegu. Á Kirkjubæjarklaustri. Það verður örugglega mjög afslappandi.

Thursday, June 4, 2009

Einkunnir í hús

Einkunnir komnar í hús og ein vel þegin nía þar á meðal.

Ég er ekki enn búin að þroskast upp úr því að vilja fá tíu í öllu. Ég veit, það er barnaskólalegt en sumt breytist aldrei.

Ég fæ ofsalegt kikk út úr því að fá góðar einkunnir. Gott spark fyrir komandi önn sem verður kannski sú síðasta í þessu mastersnámi.

Monday, June 1, 2009

Hvítasunnuhelgin...

...er liðin.

Friðjón farinn aftur í bæinn. Ekki fara frá mér...sagði ég eins og í fyrstu skiptin sem við hittumst. Eða hugsaði. Stundum er það samt bara þannig að maður þarf að sinna skyldum sínum einhverstaðar annarstaðar. Þá verður það bara að vera gott og blessað.

Ég fór á tónleika með Megasi í kvöld. Eftir að hafa farið ansi góða göngu við ágæta heilsu upp á Bergárdal. Ég hefði kannski komist á Hnjúkinn eftir allt en það þýðir ekki að velta sér upp úr því. Það verður tími fyrir það seinna, vonandi fyrr en seinna.

Tónleikarnir með Megasi voru fínir. Pakkhúsið var staðurinn og Senuþjófarnir lögðu undir sig sviðið. Mér fannst ekki síður gaman að hitta Valda Kolla..ansi mörg ár síðan hann kom hingað síðast. Hann spilaði vel á bassann, er alltaf svo stolt af stóra frænda mínum þó svo að ég sé farin að sjá hann spila ansi reglulega hér og þar síðustu árin.

Það vantaði textabók með tónleikunum...hefði verið gaman að heyra textana og sjá þá og lesa. Textarnir eru jú allveg brillíant hjá Megasi.

Vinnuvika tekur við. Bara stutt, svona þrjá til fjóra daga. Svo fer ég kannski til Reykjavíkur næstu helgi. Næstu helgi er líka heill mánuður síðan ég fékk mér síðast eitthvað með áfengismagni í. Ég vil nú ekki hljóma eins og alki en sem ung dama í heilsuátaki er ég bara ansi ánægð með það.

Thursday, May 21, 2009

Hornafjörður.... aldan blá

Búin að vera á Hornafirði í hálfa viku. Finnst eins og það hafi verið lengri tími en það er sennilega vegna þess að það er tilbreyting að vera kærastalaus. Mikil tilbreyting og tíminn líður aðeins hægar fyrst.

Það er þó margt sem kemur í staðinn þegar maður er kominn í rólegheitin. Ég er virkilega ánægð með að vera byrjuð að vinna. Tók mig líka til og fór á fótboltaæfingar, fór með föndur í handraðann, labbaði í skarðinu og fór á fótboltaleik. Þetta allt á nokkrum dögum og segi svo einhver að það sé hér lítið að gera! Ég á enn eftir að gera margt svo að það er nóg eftir.

Ég var ekki enn búin að segja frá því að Friðjón var að frumsýna í Þjóðleikhúsinu síðasta föstudag og var það mjög flott og vel að verki staðið. Það kom meira að segja pínulítið á óvart hversu vandað allt var og var ekki að sjá að þarna væri áhugamannaleikfélag á ferð. Mér fannst Friðjón sem Hallfreður guðfræðistúdent auðvitað standa sig mjög vel, hann var alveg í fremsta flokki. Það var reyndar ekki bara ég sem var að segja það að hann væri frammúrskarandi, það hafa fleiri haft það á orði síðan á frumsýningu. Það eru enn sýningar eftir svo að það er um að gera að skella sér í leikhús, hægt að panta miða á Ó þú, aftur á midi.is.

Svo var laugardagurinn og sunnudagurinn yndislegur. Gott veður hafði sitt að segja. Við vorum í sólbaði, fórum í Nauthólmsvíkina og betri helmgingurinn var svo örlátur að bjóða mér út að borða á Pisa. Allt voðalega ljúft. Læt nokkrar myndir fylgja með.


Nýkominn af frumsýningu með Sigga og Magga á bakvið




Á "ströndinni"

Thursday, May 14, 2009

Þegar önn klárast

Á morgun er önnin búin.

Þá á ég voðalega lítið eftir af mastersnámi mínu. Sorglegt en satt.

Hefur liðið alltof hratt.

Ég fer svo sem örugglega að læra eitthvað meira. Dunda mér við kennsluréttindin eða eitthvað sem mér dettur í hug að læra betur.

Á morgun skila ég síðasta verkefninu í bili. Fer svo í leikhús kl. 20.00 að horfa á Friðjón frumsýna Ó þú aftur. Fer svo í vorteiti með Hagnýtri menningarmiðlun. Svo geri ég vafalaust eitthvað skemmtilegt í framhaldinu. Það þarf að fagna hverjum áfanga með stæl.

Svo er það Hornafjörður á sunnudaginn og þar verð ég í allt sumar. Virkilega er það nú ljúft og gott.

Friday, May 8, 2009

Hamingjan er ekki ódýr

Ég var að velta fyrir mér í nótt hvort ég væri kannski manneskja sem vildi ekki endilega vera hamingjusöm.

Nú eru allir búnir að ákveða það að það eina sem við leitum að í lífinu er hamingjan. Að það sé okkar hinsta markmið, að verða hamingjusöm. Þetta hafa margir talað um, bæði heimspekingar og allir hinir. Þetta er hið eina heilaga viðmið mannsins.

Ég fór hinsvegar að hugsa: En ef það er ekki svoleiðis með alla? Hvað ef maður hefur aðrar skilgreiningar hjá sjálfum sér.

Ég hef til dæmis alltaf komið í veg fyrir það með einhverjum hætti, litlum aðgerðum og hugsunum, að ég sé fullkomlega hamingjusöm.

Eins og í nótt, þá fór ég að velta fyrir mér af hverju mér fyndist ég aldrei hafa nægan tíma. Ég er ekki orðin 24 ára, samt finnst mér að tíminn sé að hlaupa frá mér og ég hafi ekki gert nóg við hann nú þegar. Samt er ég að klára mastersnám, búin að fá mér kærasta, búin að búa til mína eigin hljómsveit og gera nákvæmlega það sem ég ætlaði mér í sem flestu. Samt er það hreint út sagt ekki nóg.

Ég ætlaði helst að vera búin að gera nokkra geisladiska með mínu eigin efni, vinna að hinu og þessu í lista- og menningarmálum, sjá fleiri sýningar og kynnast meira af fólki, ferðast meira og búa í Evrópu í allavega eitt ár...

...já ég ætlaði sennilega að vera búin að sigra heimin. Helst áður en ég fæddist. Af því að mér líður eins og ég sé svo gömul. Þó að það standi ekki á tölum og afrekin séu ágæt í orðum...

þá er það einfaldlega ekki nóg til þess
að ég verði hamingjusöm.

Wednesday, April 29, 2009

Heimsóknir í draumi

Reglulega frá því að afi minn heitinn Valdimar fór yfir móðuna miklu, hefur mig dreymt hann nokkuð sterkt.

Oftar en ekki hefur mig dreymt hann og ömmu saman en það gerðist aldrei fyrr en að hún dó líka sem var nokkru á eftir. Þessir draumar með afa eru alltaf sterkir í minnum nokkra daga á eftir og jafnvel lengi.

Í nótt dreymdi mig til dæmis að ég væri á Breiðabliksvellinum og átti að vera að læra einhverjar kúnstir hjá Ástu B. vinkonu mömmu og fótboltakonu. Mér gekk ekki vel og þá kom afi og sagði við mig að við skyldum bara taka þessu rólega og allt í einu vorum við bara orðin tvö í heiminum. Var hann í því að róa mig niður og segja að þetta yrði bara allt í stakasta lagi. Svo settist hann niður, tók upp eplasnafs og vodka sem ég drakk til skiptis með klaka og sömuleiðis afi. Engin ölvun, heldur meiri kyrrðarstund og rólegheit.

Svona draumur finnst mér ansi merkilegur og þó að ég hafi aldrei trúað á líf eftir dauðann eða tilveru framliðinna þá er mér farið að finnast eins og afi sé að heimsækja mig og segja mér eitt og annað.

Kannski er þetta einhver björgunaraðgerð hjá heilanum til þess að róa mig, kalla fram persónu sem hefur róandi áhrif, kalla fram öryggi. Maður veit í raun aldrei hvernig mannsheilinn virkar og hvaða ráða hann tekur til þess að koma á jafnvægi.

Það breytir því þó ekki að ef þessir draumar verða mikið fleiri, sérstaklega þegar ég er frekar stressuð og óróleg, þá get ég ekki að því gert að hugsa hvort það sé möguleiki að afi sé að reyna að tala við mig á einn eða annan hátt.

Allavega eru þessir draumar róandi og mér líður alltaf vel þegar ég er búin að "hitta" afa. Þess vegna vona ég að það verði fleiri "skál í eplasnafsi" í framtíðinni.

Saturday, April 25, 2009

Hornafjörður, kosningar, hammond og gleði

Nú er ég stödd á Hornafirði og margt og mikið skemmtilegt búið að gerast síðan ég kom síðasta mánudag.

Þá ber fyrst að nefna að við í Rökkurbandinu tókum þá skyndiákvörðun að halda litla tónleika á Kaffi Horninu á miðvikudagskvöldið, í tilefni af síðasta vetrardegi. Svei mér þá ef við erum ekki alltaf að bæta okkur og erum að mínu mati orðin full fær til þess að fara með prógrammið annað. Enda er það á dagskrá í sumar og er mjög spennt fyrir því, að sjá viðbrögðin hjá fleirum.



Svo fór ég að kjósa utankjörstaðar á miðvikudaginn líka. Það má auðvitað ekki gleyma þeim stórviðburði. Eða þannig. Mér finnst samt þessar kosningar ekki svo tímabærar einhvernveginn.

Svo já, föstudagur, Hammondhátíð á Djúpavogi, þvílík gleði! Höfum farið síðustu 2 ár, fyrst með Mæðusveitinni, síðan með Rökkurbandinu í fyrra en í þetta skipti sem áhorfendur.

Við þurfum auðvitað ekkert að ræða það neitt frekar en Guðmundur Pétursson er magnaður gítarleikari sem virðist einnig alltaf vera að þróa sína spilamennsku. Hann hefur reyndar alltaf, á öllum þeim tónleikum sem ég hef séð hann spila, staðið fullkomlega fyrir sínu. Tekur ein áhugaverðustu og smekklegustu sóló sem heyrast hér á landi og þó víða væri leitað. Svo var auðvitað algjör sæla að horfa á Birgir Baldursson sem er einn af mínum uppáhalds trommuleikurum og hefur verið í mörg ár. Hann er svo skemmtilegur, taktviss, skapandi og hefur allt sem góður trommari þarf að geta, þessa góðu breidd. Nú, þarna voru líka fleiri góðir hljóðfæraleikarar, reyndar þeir bestu á landinu. Ég hef oft sagt hér hversu góður Davíð Þór er og svo er hann líka svona eins og "óþægi prakkarinn" í bandinu og gerir oft eitthvað sem lífgar upp og hefur mikið skemmtanagildi. Þá er ég ekki að taka frá honum hversu góður hljóðfæraleikari hann er og hann naut sín vissulega á hammondinu. Ég hef ekki oft séð Róbert bassaleikarann en hann var auðvitað algjör fagmaður, sem og Halldór Bragason sem er auðvitað enn helsti blúsari landsins til margra ára og hefur einnig unnið alveg ótrúlegt starf með Blúshátíð Reykjavíkur. Lagt fram mikla vinnu í þágu blústónlistarinnar með mikilli ástríðu og ber mikla virðingu fyrir blúshefðinni.

Svo má ekki gleyma söngkonunni Ragnheiði Gröndal sem steig á svið eftir hlé. Ég hefði fyrir það fyrsta auðvitað viljað heyra fleiri lög en hún söng um 4 lög að mig minnir. Tvö af þeim voru Ray Charles blúsar sem voru mjög flottir, hefði þó alveg mátt við meiri fjölbreytni. Nú, þegar ég hef sagt hvað hefði mátt vera betra þá verð ég að segja að það var mikil upplifun að sjá Ragnheiði Gröndal syngja tónlist í þessum stíl og finnst mér hún hafa bætt við sig í kraftinum. Svo hafði hún svo ótrúlega góða tjáningu sem passaði við tónlistina.

Ég fór mjög sátt aftur til Hornafjarðar eftir gott kvöld. Til hamingju Djúpavogsbúar með frábært framtak og þessa glæsilegu hátíð sem verður vonandi haldin á komandi árum!

Monday, April 20, 2009

Það er nú bara þannig...

...að stundum þarf maður aðeins meira kaffi á mánudögum til þess að koma sér af stað.

Ég þarf að klára tvö stór verkefni og það er ekkert að gerast enn. 20 apríl? Hvernig gat það gerst? Mér finnst eins og ég hafi ekkert tekið þátt í þessum apríl mánuði.

Skrítið.

Ég verð bara að fara að byrja á þessu, koma mér til ömmu og drekka kaffi og meira kaffi. Þá kemur kannski einhver skerpa á hugsunina.

Eins gott.

Thursday, April 16, 2009

Ungir pólitíkusar láta ljós sitt skína

Ég er með pólitík á heilanum þessa dagana. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta alltaf jafn gaman og fylgjast með því og athuga hvort ég sé ennþá með mínum flokki eða ekki. AUÐVITAÐ er ég ekki sammála öllu því sem flokkurinn segir en þrátt fyrir það er blár ennþá uppáhalds liturinn minn. Þannig er það nú bara, jafnvel þó að ég sé mjög listhneigð, menningarsinnuð, vill ekki sjá álver og svo framvegis. Margt sem ætti að passa við aðra flokka en af ákveðnum ástæðum gerir ekki nógu vel. Ég er einstaklingssinnuð, ég trúi á einstaklingsframtakið. Metnaðinn. Eftir þessa einföldun mína læt ég þar við sitja.

Nú fæ ég örugglega fyrir ferðina hjá þeim mörgu vinum mínum og kunningjum sem eru vinstrisinnuð og jafnaðarsinnar og ég ber janframt mikla virðingu fyrir. En, þannig er það nú bara, líka.

Núna er líka tækifærið fyrir unga pólitíkusa að láta ljós sitt skína og koma sér á framfæri. Nú er allt opið og hver sem er getur komið sér nokkuð vel áfram. Sagt sína meiningu, látið vita hvaða málefni skipta mestu máli. Eða er það svo? Getur það hver sem er?

Ég fór að hugsa þetta rækilega, þegar ég las rikivatnajokuls.is áðan. Hversu settlegir og fínir þessir ungu framsóknarmenn voru á þessum fundi. Greinilega allt prúðir einstaklingar, gott mál. Kannski fannst mér þó að þeir væru aðeins of ungir og aðeins of mikið skyldir til þess að virka trúverðugir sem fulltrúar. Nú er ég ekki að reyna að móðga neinar ágætar persónur (síður en svo) en mér finnst klíka, sambönd og ákveðin ættartengsl, pólitísk hefð og svo framvegis, stundum heldur mikil í pólitík. Mín skoðun á því máli en kannski er ég ekki hlutlaus, ég hef eftir allt aldrei kosið Framsókn. Er líka í annarri fjölskyldu...

Ég hugsa að ég sé ekki sú eina sem hugsar þessi mál og veltir fyrir sér, það er bara eðlilegt. Nú er ég heldur ekki að segja að það hafi aldrei verið klíkuskapur í Sjálfstæðisflokknum, eða öðrum flokkum. Þó svo að í flestum tilfellum sé þetta örugglega persónur sem hafi margt að segja og fullt erindi í pólitíkina. Gerir þetta ekki bara fyrir vinsældirnar og lúkkið út á við.

En pólitík er engri lík og fylgir manni um aldur og ævi. Alltaf á nokkurra ára millibili hefst fjörið á ný. Svo verður einhver á móti, einhver með, einhver er að þrífa eftir skítinn eftir hinn flokkinn, einhver klúðrar öllu, einhver sefur á vaktinni...

Wednesday, April 15, 2009

Hústökufólk

Ég á heima rétt hjá Hverfisgötu og líka rétt hjá Vatnsstíg. Það fór því ekki framhjá mér það sem var að gerast áðan þegar lögreglan tók fólk út úr húsi. Almenn samúð virðist vera með fólkinu og almenn andúð á lögreglumönnum.

Ég skil þetta ekki alveg og kannski er fréttaflutningurinn svona ófullnægjandi. Voru þetta mótmælendur, eða var þetta heimilislaust fólk sem vildi lifa fyrir utan kerfið? Ef svo er að þetta var heimilislaust fólk, því miður, þá skil ég mjög vel að lögreglan hefði dregið það á burt því að það geta fáir lifað fyrir utan kerfið og þannig er það nú bara. Hvorki ég né þú, af hverju ætti einhver annar að mega það.

Erum við að missa allan skilning á því sem kallast siðmenning? Erum við virkilega ekki komin lengra í þroska og samfélagshæfni árið 2009? Er það kannski raunveruleikinn að allt er að ganga afturábak og endar á einhverjum frumstæðum menningartöktum. Skrípaleikurinn gengur lengra og lengra...

Fólk heldur að það megi bara allt í dag af því að við fórum á hausinn. Það er auðvitað erfitt að ráða við ástandið en það er líka auðvelt að nýta ástandið til þess að koma sér á framfæri.

Það er allt í lagi að hinn almenni borgari reyni að haga sér og halda áfram með lífið, ástandið getur varla orðið verra. Það er allt í lagi að vera samfélagshlýðinn, jafnvel þó að það sé í tísku að vera á móti öllu. Svona skrítinn áróður í átt að lögreglunni er ekki það sem við þurfum á að halda núna.

Fræðið mig, ef ég er að misskilja þetta allt saman!

Tuesday, April 14, 2009

Pólitík

Þvílík ábyrgð!

Að þurfa að láta okkur kjósa núna. Bara einn tveir og tíu og enginn er tilbúinn fyrir það. Hvorki fólkið - kjósendur, né fólkið í framboði.

Það lýsir sér best á borgarafundunum á RÚV.

Ég verð að viðurkenna að núna er ég algjörlega týnd í pólitíkinni og yfirleitt hef ég haft mjög sterkar skoðanir. Það nær eiginlega enginn að segja neitt af viti, nema þá fulltrúar Borgarahreyfingarinnar (að ég held hún heiti). Sérstaklega þessi á fundinum á Ísafirði sem sagði það að hann væri nú enginn pólitíkus..væri bara í þessu framboði fyrir fólkið. Svo er Þráinn Bertelsson góður rithöfundur og á maður ekki að kjósa fólk. Kannski endar atkvæði mitt þar, hver veit?

Jah, allavega ekki ég!

Friday, April 10, 2009

Blúshátíð Reykjavíkur - miðvikudagskvöld

Ég lét mig ekki vanta á miðvikudagskvöldið á Rósenberg.

Fyrst var atriði Sollu og hljómsveitar hennar. Hún tók mikið af lögum eftir sjálfa sig en einnig lög eins og Turn me on, Oh Darling og fleiri þekkt. Hún átti góða spretti raddlega séð og stundum hafði hún líka fína innlifun á sviðinu. Það var samt eins og það væri eitthvað ekki að smella saman hjá hljómsveitinni, kannski saknaði ég gítarsólóanna svona mikið.

Seinni hljómsveitin var Ferlegheit. Það var nafn með réttu, þó á jákvæðan hátt því þau voru alveg ferleg. Munnhörpuleikarinn var ótrúlega góður, besti sem ég hef séð lengi á Íslandi og einnig miðað við aldur. Trommuleikarinn var fyrirbæri, eins og hann væri úr geimnum hann spilaði svo vel...einnig miðað við aldur. svo var hann prýðilega góður söngvari og lak af honum kynþokkinn! Söngkonan var kröftug og aldrei fölsk. Hún var skemmtileg og með svona Bonnie Raitt "feel". Þannig að, þetta var hin mesta skemmtun þó svo að gítarinn og "sándið" hafi ekki alltaf verið að gera sig.

Eftir að þetta var búið kom Gummi P. Davíð Þór og Ragnheiður Gröndal og létu ljós sitt skína. Það var eftir að þau höfðu verið á Hilton það sama kvöld. Þó að ég heyrði lítið í Ragnheiði var þetta skemmtilegur lokapunktur á kvöldinu. - Myndir væntanlegar.

Nú er ég komin á Höfn í páskafrí og að enda við að klára Campaign strategy og pitch fyrir markaðssetningarnámskeiðið. Get ekki beðið eftir því að fara í skarðið á eftir og brenna nokkrum hitaeiningum áður en þær hlaðast fimmfalt aftur tilbaka með páskaeggjaáti á sunnudag!

Gleðilega páska.

Tuesday, April 7, 2009

Gærkvöld á Blúshátíð Reykjavíkur

Ég labbaði mjög sátt út af Rósenberg í gærkvöldi en hér koma nokkur orð um viðburðinn.

Það var hitað upp með góðu djassbandi. Alltaf jafn slakandi að hlusta á fraseringarnar í bland við góðan trommuleik.

Svo tók nú við Tómas R. Einarsson með Ómari Guðjóns og Scott McLemore. Þetta var öðruvísi blús, svona suður-amerískt latínskotin. Mikið stuð, hiti og flott spilamennska. Ég var bara nokkuð skotin í Tómasi, hann er skemmtilegur á sviði og skapandi kontrabassaleikari með húmor. Það er alltaf ánægjulegt að sjá menn gera nýja hluti með hljóðfærin sín (kem betur að því síðar með gítarleikarann).

Síðasta atriði kvöldsins var með Kristjönu Stefáns, Scott, Valda Kolla, Ómari og Agnari Má. Hljómar ekki illa enda gerði það það alls ekki. Hef séð Kristjönu nokkrum sinnum og verð aldrei fyrir vonbrigðum því hún er alveg mögnuð söngkona.

Í gærkvöldi var einhver einstakur kraftur í mannskapnum enda sagði Kristana að það hefði verið svolítið síðan þau spiluðu síðast. Ef ég kem aftur að umræðunni um skapandi tónlistarmenn þá mun ég sennilega aldrei gleyma "sólói" Ómars Guðjónssonar í Sugar in my bowl. Það er nefnilega þannig að þegar allt stoppar á ákveðnum tímapunkti í laginu þá á ákveðin gítarlína að hljóma sem ég beið með eftirvæntingu. Í stað þess spilaði Ómar bara ekki neitt, heldur var svona eins og hann "héldi í sér"með að snerta strengina. Úr varð algjör þögn með spennuþrungnu andrúmslofti og um leið virkaði þetta eins og fullkomin ákvörðun á þessum tímapunkti. Þetta var eitthvað sem gerir Ómar að þeim einstaka gítarleikara sem hann er.

Svona eins og listamaður sem leyfir sér að hengja ómálaðan striga upp á vegg og kalla það listaverk...og á einhvern undarlegan hátt verður það áhugavert.

Sunday, April 5, 2009

Blúshátíð Reykjavíkur

Í gær fór ég á Blúshátíð Reykjavíkur á Café Rósenberg.

Það voru 4 hljómsveitir að spila og allar mjög ólíkar. Ein hljómsveitin voru miðaldra menn "Lame Dudes" hétu þeir og ortu þeir aðallega um það hvað konan er erfið á þriðjudögum og hversu erfitt það er að vera miðaldra. Svo voru tveir strákar sem voru fínir en náðu ekki salnum á sitt band. Fyrsta atriðið var mjög svo kántrí og gospel skotið en það var einhver sjarmi yfir því.

Síðasta hljómsveitin var auðvitað hörkugóð...allir proffarnir mættir með hljóðfærin sín og Hrund að syngja. Þetta gat bara ekki klikkað þó svo að mér fannst lagavalið stundum mega vera aðeins blúsaðara.

Eftir þetta reyndum ég, Friðjón og Raggi að finna eitthvað skemmtilegt í miðbænum. Það var ekki að ganga svo vel. Maður á alltaf að halda sig á Rósen og ekki stíga fæti þar út fyrir nema til að fara heim. Nú hef ég skrifað það og ætla að fara eftir því. Hinir staðirnir í miðbæ Reykjavíkur eru bara vonbrigði.

Í dag erum við frekar þreytt. Það er nefnilega vandamálið við að reyna að finna góða skemmtistaði að tíminn flýgur hratt. Klukkutími hér...klukkutími á næsta og allt í einu er klukkan orðin fimm. Þá fer maður heim og fær sér morgunmat og sefur voðalega lítið. Þynnka kemur málinu semsagt lítið við, það er aðallega þreytan.

Get ekki beðið að fara til Hornafjarðar á morgun og njóta þess að læra og drekka kaffi hjá ömmu...ekkert þreytt eða sjúskuð eftir miðbæ Reykjavíkur.

Saturday, March 28, 2009

Tónleikar og árshátíð

Ég föstudagskvöldið fór ég á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég fór á svipaða tónleika í fyrra og hafði mjög gaman af, en tónleikarnir í ár voru allt öðruvísi. Gershwin heillaði mig upp úr skónum, þvílík fegurð.

Laugardagurinn fór í árhátíð Hagnýtrar menningarmiðlunar. Það var rosalega gaman, góður matur, góður félagsskapur og góð skemmtiatriði. Upplestur úr Listin að kyssa var ákaflega fyndinn ásamt því að aðrir létu ljós sitt skína. Svo var haldið aðeins í bæinn, kannski ekki stoppað mjög lengi... eða alveg þangað til Friðjón varð fyrir olnbogaskoti og blæddi mikið úr nefinu auk þess sem það varð fljótt þrefalt að stærð. Þá fórum við heim.

Sunnudagur...fórum í fermingarveislu. Brynja Pálína var að fermast og var afskaplega sæt og fín.

Friðjón fékk einnig úrskurð hjá lækninum að nefið væri mölbrotið.

Wednesday, March 25, 2009

Þegar hlutirnir breytast

Stundum vildi ég óska að ég gæti slökkt á skynseminni í mér. Hún veldur mér áhyggjum og meiri áhyggjum. Maðurinn er víst skynsemisvera og allt það en það má á milli vera.

Að skipuleggja alla framtíðina og halda að það sé ekkert mál að sýna endalausa fyrirhyggju veldur mér nefnilega áhyggjum. Samt trúi ég því að hver og einn skapi sína framtíð, það er ekki endilega hægt að vera bara "heppinn" og treysta á það heldur er málið að hafa fyrir þessu. Þá kemur uppskeran að lokum. Þetta er svo sem gott og gilt lögmál sem vert er að fara eftir.

Að hafa hinsvegar áhyggjur af framtíðinni vegna þess að ekki alveg allt virðist vera eins og ég vildi helst hafa það, skapar margar andvökunætur og andlega vanlíðan almennt. Þess vegna væri ég til í að lækka örlítið í skynseminni og fyrirhyggjuseminni, því þegar allt kemur til alls þá getur lífið sífellt komið á óvart og maður verður líka að lifa fyrir núið. Líka einfaldlega vegna þess að þetta tekur mjög mikla orku frá mér þegar á hólminn er komið, þá orku sem ég ætlaði að nota í það að vinna fyrir hlutunum og afkasta miklu á hverjum degi.

Þarf maður að breyta aðstæðum til þess að reyna að komast á hamingjustaðinn, þar sem maður er rólegur og áhyggjulaus, eða þarf maður að breyta sjálfum sér?

Og hvar er millivegurinn, hvernig er hægt að halda áfram brosandi í erfiðinu, skapa sér framtíð en lifa samt fyrir hvern dag? Það er stóra spurningin.

Sunday, March 22, 2009

Í kaldhæðni sagt...

Ég elska RÚV.

Vegna þess að RÚV sýnir alltaf skemmtilega þýska dramaþætti og allskonar þætti frá ýmsum löndum. Svo sýnir RÚV líka skemmtilegar heimildarmyndir og spennandi viðtalsþætti með Boga Ágústsyni. Svo ekki sé minnst á frábærar disneymyndir eða rómantískar gamlar myndir um helgar.

Ég elska RÚV líka vegna þess að við þurfum aldrei að fara á leiguna út af frábærri sjónvarpsdagskrá og eyða pening í DVD.

Vegna RÚV þarf ég aldrei að hafa áhyggjur af því að það sé ekki eitthvað áhugavert að sjá þegar manni leiðist.
Húrra...

Wednesday, March 18, 2009

Marsbúinn

Ég sit og klára tímann í menningar- og verkefnastjórnun sem svo oft áður þessa önnina. Var að flytja fyrirlestur um Þuríði Sigurðardóttir í Listasafni ASÍ og þáttöku mína á Safnanótt. Gekk vel, ég talaði tæpitungulaust og er ekki vitund stressuð fyrir þessu lengur. Þetta hefur verið löng þrautarganga og loksins er ég farin að njóta mín ágætlega. Tala listfræði- menningarfræði- og verkefnastórnunarlega...það er margt sem maður getur tvinnað saman.





Er farin að huga að lokaverkefninu og ekki seinna vænna. Það hefst á næsta ári og þarf ég að huga að því að sækja um styrki. Ég er með eitt verkefni í huga sem felur í sér þá leiðu nauðsyn að fara til útlanda að rannsaka. Er eiginlega komin með þetta barn í magann og þarf að fæða það, búin að hugsa um það svo lengi.

Svo er blúshátíðin liðin. Mikið var hún yndisleg í alla staði. Pínulítið sjokkerandi líka, það fylgir því. Eins og það var búið að vera mikið að gera í vikunni á undan, markaðssetningaráfanginn alla daga og æfingar á kvöldin. Undirbúningur fyrir blúshátíð og svo framvegis. Svo lögðum ég og Friðjón af stað á fimmtudagskvöldinu í ágætis veðri. Fengum gott að borða á föstudeginum, þá var mamma líka 50 ára. Svo var ég að syngja með Blúsvíkingunum á Kaffihorninu um kvöldið.
Á laugardeginum var stóri dagurinn. Valdís átti afmæli og svo voru tónleikarnir okkar í Rökkurbandinu á hótelinu um kvöldið. Þrátt fyrir ýmislegt sem fór úrskeiðis þá komumst við ágætlega frá þessu. Að mínu mati var Hótelið ekki að gera sig í hljómburðinum fyrir hljómsveit eins og okkur. Hef líka fengið þau komment hérna í bænum frá listamönnum sem þetta sáu að við ættum að reyna að draga úr öllu og hafa allt mjög fágað í okkar spilamennsku.

Á sunnudeginum vorum við veik og veðurteppt. Nei, ekki þynnka, heldur bara hitaflensan ógurlega. Svo á mánudeginum fórum við heim og ég var síðan alla vikuna að jafna mig. Er orðin fullfrísk og hress núna, farin að hlaupa á fullu og koma mér í gott form fyrir vorið.

Ég ætla að nota tækifærið af því að ég var að tala um blúshátíðina að þakka öllum sem komu að horfa á okkur fyrir, það var svo virkilega gaman og yndælt að sjá hvað það voru margir sem mættu og fylltu hótelið af lífi og fjöri.

Tuesday, March 10, 2009

Í dag eru nákvæmlega...

...3 ár síðan ég og Friðjón hittumst fyrst.

Svona líður þetta hratt.

Wednesday, March 4, 2009

Mikið ofsalega er erfitt...

...að vera utan af landsbyggðinni.

Sumir skilja hreinlega ekki hvernig maður gat bara rifið sig upp eftir framhaldskólann og flutt á mölina. Að maður hafi virkilega haft kjark og þor til þess að labba út úr sveitabænum og klæða sig úr gúmmítúttunum.

Eða hreinlega hversu æðislegt það er einmitt að hafa upplifað hvoru tveggja, að vera úti á landi í rólegheitum í litlum bæ og í höfuðborginni í öllum látunum. Þetta er algjörlega ólíkur lífstíll og báðir staðirnir hafa sína kosti og galla.

- og mikið ofsalega er það erfitt að fara austur til Hornafjarðar um helgina og hlusta á tónlist í fremsta gæðaflokki þar sem boðið er upp á heila blúshátíð. Tónleikar 3 kvöld í röð á ýmsum stöðum. Menning + aflslöppun og fallegt umhverfi.

Veruleikasjokk

Stundum fær maður veruleikasjokk
...sérstaklega á morgnanna

og veit að það gæti verið eitthvað allt
annað
sem manni er ætlað í framtíðinni.

Monday, February 23, 2009

Sæludagar

Síðustu dagar hafa verið hreint út sagt skemmtilegir. Ég er búin að vera á Hornafirði að æfa með hljómsveitinni og jafnast ekkert á við það.

Það er líka búið að vera svo fallegt veður í þessari viku hérna, hrein sæla...


Í dag fór ég á málþing í Nýheimum sem var á vegum Háskólasetursins hér á Höfn og Hagnýtrar Menningarmiðlunar úr HÍ . Komu samnemendur mínir alla leið frá Reykjavík og dvöldu í sýslunni samtals fjórar nætur. Mér fannst svo gaman að hitta þau í dag í Nýheimum og það liggur við að manni sé farið að líða eins og fjölskyldumeðlim í risastórri miðlunarfjölskyldu. Það er svo góður andi í hópnum.

Málþing um miðlun, upplifun, ímynd og fræðslu í Ríki Vatnajökuls. Það væri svo margt hægt að segja um málþingið, Eggert talaði um söfn og setur sem var vissulega áhugavert og sérstaklega fyrir þá kannski sem ekki hafa mikið heyrt um þessi mál.

Mér fannst persónulega hún Gunnþóra Ólafsdóttir alveg frábær sem talaði um “Náttúrutengsl og upplifanir ferðamanna á Íslandi: fjögur tengslamynstur vellíðunar”. Fyrirlesturinn var "wake up call" og sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki áður séð náttúruna og metið verðleika hennar til hins ýtrasta. Ég hef reyndar alltaf verið náttúruverndarsinni, upplifunarfíkill á fjöllum og hvar svo sem ég kemst í burtu frá rafmagni og ósýnilegum heilsuspillandi "siðmenningarárum", fílað mig svakalega í ósnortinni náttúru og líður mér hvergi betur...en það eru ekki allir að skilja þetta. Hversu yndislegt það er að sitja uppi á stórum klettasteini uppi í Laxárdal, á mosabletti að hlusta á nákvæmlega ekkert nema þögnina og náttúruna.

Svo fjallaði Gunnþóra líka um áhugavert sjónarhorn, að hver og einn sækir úr sínum reynsluheimi þegar hann upplifir náttúruna. Þannig upplifir listamaðurinn kannski ægifegurð sem fær hann til að mála fallega og tjáningarríka mynd...eins og Svavar Guðnason. En það er nú önnur og stærri umræða sem kemur kannski síðar. Maðurinn getur nýtt sér náttúruna sem óendanlega orkuuppsprettu en aðeins ef hann er opinn fyrir því.

Svo í kvöld fórum við í Rökkurbandinu á Humarhöfnina og tókum nokkur lög fyrir fólkið. Mér fannst það virkilega skemmtilegt að taka lagið fyrir samnemendur mína og sýna á mér nýjar hliðar. Þessu var lika vel tekið og má segja að maður sé alveg í skýjunum yfir móttökunum. Ég komst að því að það er verið að skipuleggja árshátíð í lok mars... semsagt skemmtilegir tímar framundan í háskólanáminu.

Það sem mér fannst mikilvægt að segja hér í lokin er að Norðurljósablús nálgast og er hún haldin í fjórða skipti á Hornafirði þarnæstu helgi. Líklegast mun lítið sem ekkert kosta inn á hátíðina þannig að þetta frábært tækifæri fyrir ferðalag og tónlistarhátíð og skemmtun í leiðinni.



Sjáiði allt fallega sólarlagið í þessari mynd

svo ekki sé minnst á fagurbláan himininn í forgrunni...

Monday, February 16, 2009

Nútímasamfélagið

Er það ekki dæmi um það að við lifum í nútímasamfélagi og online-samfélagi, þegar presturinn býður manni í messu og sunnudagsskóla á facebook?

Það er ekki endilega rangt en eitthvað er svo sérstakt að ég næ ekki að átta mig á því. Svona miðað við það hvernig kirkjusamfélagið er, oft gamaldags og íhaldsamt, en nú, kannski ekki lengur....

Sunday, February 15, 2009

Á Hornafirði, plúsar og mínusar

Nú er ég komin til Hornafjarðar eftir viðburðarríka helgi. Á föstudaginn var Vetrarhátíð og ég var að "vinna" á Listasafni ASÍ. Þetta var sjálfboðavinna á vegum námskeiðsins í verkefnastjórnun og svo eigum við að gera verkefni. Þetta var virkilega skemmtilegt og sá ég vel fyrir mér að vinna á slíku safni í framtíðinni. Ef guð lofar að maður fái svo góða og skemmtilega vinnu.

Það er yndislegt að knúsa Janis litlu hérna heima. Þó að það jafnist nú ekki neitt á við að kúra með Friðjóni þá kemur það eitthvað smá í staðinn. Ekki fær Janis heldur að lúlla hjá mér á nóttunni af því að hún er hundur og hundar eiga ekki að vera uppi í rúmi.
Ótrúlegt hvað maður getur orðið háður því að vera ekki einn í rúminu. Þrátt fyrir að það getur stundum verið erfitt að sofna þegar Friðjón andar hátt. Hann nefnilega hrýtur ekki, stór plús, en hann andar eitthvað svo hátt. Svo magnast það upp þegar ég ligg og reyni að loka augunum. Nóg um það - það er eini mínusinn við að vera á Höfn eins og núna, það er að mér verður svo kalt á kvöldin og nóttunni af því að Friðjón er vanur að sjá til þess að svo er ekki.

En það er líka eini mínusinn við Hornafjörð þegar ég er ein á flakki. Allir hinir plúsarnir eru góðir og manni líður vel.

Thursday, February 12, 2009

Þá kom að því

..að ég náði að skipuleggja mig almennilega. Semsagt, skipuleggja næstu vikur og get ég sagt ykkur að það hafði ekki gengið svo vel síðustu vikuna. Hefði þurft að klóna mig en vegna skipulagsins (og smávægilegum hliðrunum sem kosta mig 5 einingar þessa önnina) þá gengur allt upp. Eins og alltaf þá tók ég tónlistina fram yfir allt annað og er ánægð með þá ákvörðun.

Þó eftir margar andvökunætur og ókyrran hugarburð dag eftir dag.

Það sem þurfti til voru veikindi. Að sitja veikur heima kemur manni í þá stöðu að þurfa að hugsa mikið og ekki aðeins það, heldur fá niðurstöður. Af því að það er ekkert hægt að hlaupa neitt út og gleyma þessum hugsunum, fresta vandamálunum. Maður er þess í stað dæmdur til þess að leysa vandann.

Eftir á - it feels good.

Wednesday, February 11, 2009

Skilgreining á menningu - ein af mörgum

Þegar hver einstaklingur hefur fullnægt sínum grundvallarþörfum til fæðu, vatns o.s.frv. fer hann að stunda ýmislegt sem nýtist honum og öðrum í næsta nágrenni, vekur forvitni og oft á tíðum ánægju. Þegar jarðvegurinn er frjór spretta upp margvísleg tjáskipti og túlkun tilfinninga og hugsana. Það er hin sanna menning sem eykur lífsgæði.

Menningarhugtakið er vítt. Það nær til andlegra viðfangsefna sem og til verklegra. Gerð leikrits, tónverks, hönnun mannvirkja eða hvað sem spretta kann innan borgarmarkanna eru dæmi um frjóan jarðveg – menningu – borgarbúa. Svo geta menn talað um verkmenningu, matarmenningu og raunar er vaxtarsprotum menningarinnar engin takmörk sett.

Úr fyrirlestri menningar og verkefnastjórnun, vor 2009.

Tuesday, February 10, 2009

Að tala við sjálfan sig

Sit ein heima og tala við sjálfa mig.

Tala líka við sjálfa mig á blogginu því að það hefur enginn kommentað síðan ég byrjaði með nýju síðuna. Mér finnst það miður að sjá ekki smá líf einstöku sinnum.

Kannski er bara ekkert hægt að segja neitt á móti því sem ég bulla.

Allavega, kannski líður mér bara svona einstaklega einmanalega og ömurlega af því að flensan náði mér. Helvísk hálsbólgan. Akkurat þegar ég var byrjuð að æfa með hljómsveitinni hérna í bænum. Loksins þegar eitthvað gerðist í sönglistinni þá fékk ég hálsbólgu. Hef ekki fengið hana í svona 1 og hálft ár. Ekki einustu flensu.

Já ég er pínu bitur en þannig líður manni víst alltaf með flensur.

Saturday, February 7, 2009

Laugardagur til lukku

Mikið rétt, laugardagur til lukku.

Er að hugsa heim, langar í heimsókn til ömmu og spjalla yfir kaffi, borða heimabakaða pizzu í kvöld, út að labba með mömmu og Janis, rúnta með Valdísi, horfa á DVD og borða nammi með Jón Guðna, syngja og spila með pabba.....

væri til í það núna.

Í staðinn er það Kolaportið og listasafn í dag. Kannski háskólaræktin.

Rosalega gaman í gær, fórum á B.Sig á Rósen. Frábær stemning, frábær hljómsveit og smá rölt um miðbæinn eftir það. Hitti Eddu loksins eftir langan tíma og svona. Margt mjög skemmtilegt í gær.


Langar samt í Hornafjörðinn fallega...



Tuesday, February 3, 2009

Hlaupadagar

Ég held að ég hafi aldrei hlaupið eins mikið og í byrjun ársins 2009. Nú eru þetta orðnar daglegar ferðir og virkar eins og hinn mesti vímugjafi á mig. Spilar inn í þetta æðislega veður sem er búið að vera, sól, snjór, stilla alla daga. Ekki annað hægt en að fara út að labba, sem verður að skokki, sem verður að hlaupi og nokkrum sprettum.
Ekki að ég sé orðin eitthvað grindhoruð eftir þetta. Skýringin gæti verið að í gær þá prófaði ég í fyrsta skipti að fá mér 2 hamborgara, heimatilbúna. Það var ekki beint af því að ég var svöng, heldur langaði mig að vita hvort ég gæti það. Ég gat það, - en mikið hræðilega var ég södd. Svona einum of. Svo er ég líka smá nammigrís og borða sætindi um helgar með góðri samvisku.

Nóg um það. Ætla að gera svo margt í þessari viku. Meira en síðustu viku. Miðvikudagur á morgun, vikan hálfnuð, en ég ekki hálfnuð með verkefnin. Ó mæ...

Skiptir ekki máli. Ég er svo kærulaus þessa dagana. Algjörlega úr takti við raunveruleikann. Talandi um kæruleysi þá fengum ég og Friðjón okkur lífrænt ræktað rauðvín síðustu helgi. Já, ég ætlaði einmitt aldrei aftur að drekka rauðvín en þegar ég hugsaði um það frekar þá ákvað ég frekar að reyna að LÆRA að drekka rauðvín rétt. Ég er ekki manneskja sem gefst upp. Viti menn, rauðvínið síðustu helgi rann ljúflega niður með ekki einu sinni hausverk daginn eftir. Geri aðrir betur. 2 glös og ekki einn einasti sopi varð til að ég kúgaðist. Bragðið var orðið mun betra en það var áður. Ég varð ekki einu sinni full og ekki heldur þreytt. Bara til í að rölta á Rósen og Ölstofuna. Nú er ég loksins orðin fullorðin, get drukkið rauðvín og borðað osta með.

Ég ætla nú samt ekkert að verða atvinnumanneskja í rauðvínsdrykkju og drekka það hverja helgi. Jafnvel þó að rauðvín virðist ekki hafa nein áhrif á úthaldið í útihlaupunum.

Thursday, January 29, 2009

Þegar ég var í menningarfræðitíma...

Rótleysi
Sem fræ fæðist
og sólin nærir menninguna.
Nútímamaður heilsar
siðmenning slítur úr jörð
lífræn tenging rofin
vélrænt skipulag mengar regnið
úrkynjun sem kveður upprunann um sinn.

Þeir þættir sem virkuðu
virka ekki lengur
sálin er týnd í stórborg með götuljósum og lestarstöðvum...
skilningur á líkamanum gjörsamlega firrtur
afturhvarf til flökkulífsins í stórborg.

Fórnar blóð og sál
til heimsborgar.
Síðasta blómstrið visnar
með rofanum deyr
og rís svo að nýju.

10.nóvember 2005

Kaffið kom inn

Það er nú einfaldlega þannig, að þegar maður er námsmaður, þá getur verið erfitt að koma sér af stað í daginn. Sérstaklega þá daga sem maður þarf í raun ekki að vakna, eins og fimmtudaga. Þá getur verið afskaplega ljúft að standa upp, gera nokkrar yoga æfingar og síðast en ekki síst - fá sér kaffi.

Kaffi er yndisleg uppfinning.

Eða gott símtal frá pabba. Þá fer maður alveg í banastuð, sérstaklega ef við erum að tala um blústónlist.

Það er sérstakt að heyra af hitabylgjunni í Ástralíu og horfa út um gluggann hér heima um leið. Þar sem hvítur snjórinn í fjöllunum blasir við, allt svo yndislega fallegt og kyrrt.

Talandi um það þá get ég varla talað um það lengur án þess að galla mig upp og fara á skokkið. Áður en lægðin skellur á.

Monday, January 26, 2009

Mánudagar; allt annað en skemmtilegir

Það getur verið svo erfitt að koma sér af stað á mánudögum.

Ekki það að ég sé að kvarta, það er alls ekki málið. Stundum langar mig samt mest að sækja um 9-5 vinnu og eiga svo bara frítíma þess á milli. Býst ég þó við því að það verða mörg ár framundan í þeirri rútínu svo að ég þarf ekki að örvænta.

Nú langar mig líka að byrja að mála. Það þýðir að vaka langt fram á nótt. Þar sem ég bý ekki ein þá þarf ég að ræða það við Friðjón en ég er ekki viss um að hann segi neitt á móti því. Ég bara hef því miður ekki haft þá ró og yfirvegun í mér að mála í langan tíma. Sakna þess verulega og held að það gæti gert mér gott ef ég kemst í réttar stellingar. Þetta er bara mikið og andlegt ferli ef það á að takast vel upp.

Fórum á Rósen aðeins um helgina og svo í Kolaportið á sunnudag. Helgin var frábær og einkenndist af öllu því sem hægt er að gera um helgar hér í bænum. Verslunarferð þar sem Friðjón var í þetta skipti að versla, nammilandi, kjúklingasallati, rúnti, vídjókvöldi, tónleikum og fleiru. Föstudagurinn (bóndadagurinn) tókst vel upp og ég kom Friðjóni á óvart hvað eftir annað. Eldaði nautakjöt (í brauði (hamborgara) ) og bauð honum upp á uppáhaldsbjórinn með. Svo voru ostar, súkkulaði og smá gjafir.
Kolaportið var samt svolítið súrt í þetta skipti, þar sem stelpan sem ég ætlaði að kaupa ódýran pels af, eða svona loðinn jakka, hækkaði og lækkaði boðið sitt til skiptis. Svo í lokin ákvað hún að hún væri kannski bara ekkert tilbúin að selja hann - "nei hún ætlaði bara að eiga hann sjálf og fara í honum á djammið". Ég var svo sem ekkert rosalega ósátt með það að bæta ekki við enn einum jakkanum, þetta var samt mjög sérkennileg sölumennska.

Saturday, January 24, 2009

Það er nú einu sinni þannig

Að þegar maður hringir til guðs þá er enginn sem svarar. Það er enginn hinumegin á línunni. Það er einmitt enginn notandi með þetta símanúmer.

Ekki að ég ætli neitt að harma það frekar en fagna því. Þess vegna finnst mér ljóðið eftir Lubba samt svo frábært. Þau eru fleiri góð í nýju ljóðabókinni eftir hann Kvæðahver. Farið endilega í Eymundson og kíkið á hana, meira að segja sá ég að hún er á útsölu og því á góðu verði.

- og nei, ég er ekki að þiggja auglýsingalaun frá Lubba - né Eymundsson.

Thursday, January 22, 2009

Ekki rauðvínslegin

Þá er kominn fimmtudagur og er þetta annar fimmtudagurinn sem ég er í Reykjavík eftir jólafrí. Ég verð að viðurkenna að ég er ótrúlega fegin að rútínan er komin af stað og fimmtudagarnir þjóta framhjá einn af öðrum. Verkefnin eru farin að kinka kolli og vilja láta eiga við sig, verkefnatextarnir eru tilbúnir til lesturs, allt einfaldlega að verða eins og það á að vera. Ég sit heima, horfi á DVD, les texta og ljóðabækur til skiptis, geri bara hitt og þetta og er ánægð með lífið.

Er núna í áfanga sem fjallar að mestu um verkefnastjórnun og finnst mér þetta einn mest spennandi áfangi sem ég hef verið í. Þá reynir nú aldeilis vel á stjórnsemishæfileikana mína þar sem maður þarf að standa upp og hafa frumkvæði að verkefni sem maður sjálfur stjórnar. Fjárhagsáætlun, tímaáætlun og allt sem almennt snýr að þessu verkefni þarf maður sjálfur að greina frá. Verkefnið getur verið listahátíð, tónlistarhátíð eða í raun hvað sem er menningartengt. Ég sé vel fyrir mér að láta nokkrar hugmyndir verða að veruleika í framtíðinni og þá er nú mjög gott að fá svona áfanga til þess að æfa sig. Fá líka kennara sem er vanir og hafa séð um alla helstu viðburði hérna á Íslandi síðustu árin. Sjá að það er margt hægt að gera eftir ákveðnum aðferðum ef vilji og fjármagn eru fyrir hendi.

Pilatestíminn á þriðjudaginn var líka eftirminnilegur. Ég naut þess virkilega að láta segja mér fyrir hvaða og hvernig æfingarnar væru gerðar. Róandi og sumar æfingar erfiðar um leið. Þó svo að ég sé kannski búin að vera svolítið öfgafull í hreyfingunni í þessari viku, tvisvar á dag í ræktina eða út að hlaupa. Ég verð að viðurkenna að það er örlítið mikið og ég ætla að reyna að minnka þetta aðeins í næstu viku. Segi það samt og meina það að háskólaræktin er staðurinn til að vera á núna í kuldanum og skammdeginu.

Bóndadagurinn er á morgun og í tilefni þess ætla ég hugsanlega að elda einhvað gott handa Friðjóni (í minnsta kosti verður farið í gott sushi) og kannski bjóða honum upp á smá hvítvín með því ef veður leyfir.

Eitt ljóð í lokin eftir lubba klettaskáld

Ég bað til guðs

ég bað til guðs
um betri tíð
með blóm í haga

ég bað til guðs
um frið og ró
og frjálsan aga

ég bað til guðs
um gilda vasa
og góða daga

ég bað til guðs
að lækna sár
og svanga maga

ég bað til guðs
og svarið var:
"það er enginn notandi
með þetta símanúmer".

Monday, January 19, 2009

Hulda Rós á..

...ekki að drekka rauðvín.

Það var svona helst í fréttum í dag.

Friday, January 16, 2009

Nýir kjólar

Fór í búð á laugarveginum og keypti mér 3 nýja kjóla. Allir á lágmarksverði svo að nú verð ég á næstunni mjög fín fyrir mjög lítinn pening. Ég fór að hugsa um það um daginn hvað ég er mikil stelpa. Þá meina ég það á þann hátt að ég elska að skreyta mig með skartgripum og kaupa falleg föt. Svo elska ég að kaupa fallega hluti og stilla þeim upp fyrir framan mig og horfa á þá dags daglega. Þetta gildir líka um bækur, nema stundum tek ég þær úr hillunni og les, þó sjaldnar sem það gerist. Reyndar byrjuðu fagurkerataktarnir þegar ég var mjög lítil. Vildi alltaf vera í kjól á meðan Valdís var í íþróttagallanum. Tók flotta hluti frá mömmu þegar hún sá ekki til og setti þá upp á hillu í herberginu mínu. Svo kom langt tímabil sem ég þorði ekki að vera í neinu fallegu, bara helst einhverju sem myndi sjá til þess að ég skæri mig sem minnst úr. Núna er ég hinsvegar aftur farin að þora og líka það vel að klæða mig eins og ég vil. Það er skemmtilegt og gefur lífinu gildi.

Komin aftur til Reykjavíkur eftir langt og gott frí á Hornafirði. Afskaplega var ljúft að vera þar og afskaplega er ljúft að vera aftur komin í miðbæinn. Er einmitt í þessum töluðu orðum að fara á röltið niður í bæ, það er alltaf eitthvað nýtt að sjá og kaffið sem maður kaupir dýrum dómum er líka gott.

Það eru allir að hætta að blogga þessa dagana. Örugglega út af facebook. Mér finnst hinsvegar svo gaman að skrifa og ekkert svo gaman á facebook, að ég ætla að halda áfram að skrifa hér inn. Ég veit að það eru allavega 3 sem lesa þetta, Lóa frænka, mamma og Valdís. Það er næg ástæða til að halda áfram.