Tuesday, July 28, 2009

Bræðsluhelgin

Þá er kominn tími á ferðasöguna.

Ég lagði af stað á Djúpavog á miðvikudagskvöldinu. Friðjón kom á móti og hitti okkur í Berufirðinum þar sem var nú komið mikið rok, en fallegt var samt útsýnið alla leið á Borgarfjörð Eystri. Þar fórum við inn í stofu á Hólalandi, lögðumst niður og sofnuðum fljótlega vært.

Á fimmtudeginum var fljótlega búið sig af stað í gönguna í Stórurð og lögðum við af stað upp úr hádegi frá Vatnsskarði. Gangan tók um 4 tíma í heildina og Stórurðin var ótrúlega falleg. Mér leið eins og ég væri komin í aðra veröld þegar ég labbaði niður í urðina því landslagið þar var allt öðruvísi en ég hafði áður séð. Kom svona smá Lísu í Undralandi tilfinning. Eftir gönguna vorum við þreytt og lúin og hvíldum okkur smá á Hólalandi auk þess sem það voru eldaðar kjúklingapylsur. Síðan fórum við á tónleika hjá Aldísi Fjólu sem komu skemmtilega á óvart og mörg lög þar sem ég fílaði mjög vel. Eftir það skelltum við tjaldinu upp á tjaldsvæðinu.




Eftir hræðilega kalda og svefnlausa nótt vöknuðum við á föstudeginum. Það var þó blíða um daginn sjálfan og enn hafði ekki rignt dropa. Fljótlega um sex leytið fór ég að gera mig tilbúna fyrir tónleikana og flaug tíminn alveg þangað til þeir byrjuðu. Tónleikarnir með Rökkurbandinu í Álfacafé gengu vel og voru þetta sennilega einir bestu tónleikar sem við höfum haldið. Allt gekk upp og runnu lögin áfram eitt af öðru. Þetta voru allavega að mínu mati skemmtilegustu tónleikarnir til þessa, fyrir utan kannski Norðurljósablúshátíðina 2008. Gaman að sjá mörg ný andlit og að margir vinir mínir gætu loksins séð tónleika með okkur. Auk þess sem foreldrar mínir (og Jón Guðni) og Friðjóns voru á svæðinu, sem og ættingjar hans sem höfðu aldrei séð herlegheitin.

Eftir tónleikana fórum við upp í tjald að grilla folaldakjöt en svo á eftir því á rúntinn í heitum bíl í klukkutíma með mömmu og pabba. Flísklæðnaðurinn og öll ullarfötin dugðu semsagt ekki til við kuldanum. Þegar við ætluðum svo að fara að sofa sáum við að tjaldið okkar var frosið á tjaldstæðinu. Við skriðum því inn í stofuna á Geitlandi og sváfum þar vel á loftdýnu.

Laugardagurinn var tekinn snemma og farið í langa göngu og rúnt langleiðina í Loðmundarfjörð. Gangan var inn að fallegu vatni þar sem við fórum meðal annars yfir hóla og hæðir og gengum yfir risastóra mýri. Það er því ekki hægt að segja að það hafi verið mikið slappað af í þessari ferð. Svo var mikil fjölskyldugrillveisla um 6 leytið á Geitlandi og smá útipartý á eftir í garðinum. Fljótlega var þó farið niður á svæði til þess að fara á sjálfa Bræðslutónleikana.

Tónleikarnir voru mjög flottir en þó misjafnir. Mér fannst gaman að sjá Þursaflokkinn og er það örugglega bæði í fyrsta og síðasta skipti sem ég geri það. Eftir tónleikana tók við hefðbundið djamm í Fjarðaborginni. Ég var orðin mjög svo langþreytt sem gerði það að verkum að ég sat voðalega mikið og horfði á hina dansa og þvælast úti um allt.

Sunnudagurinn var bara sami gamli þreytudagurinn þar sem byrjað var í fiskisúpu í Álfacafé. Mæli með henni. Svo var farið á Egilsstaði í pizzuveislu. Mæli líka með því. Svo bara farið fljótlega heim á leið.

Þannig var nú það. Vel heppnuð ferð. Mikið um gönguferðir og minna um djamm... en allt voðalega skemmtilegt.
Næst tekur við Verslunarmannahelgi þar sem stefnan er tekin á lónið. Ódýr en jafnframt frábær skemmtun það.

Friday, July 17, 2009

Engri lík

Ég veit að ég ætlaði ekki að tala meira um pólitík hér í sumar en stundum finn ég mig knúna til þess að segja mína skoðun. Sérstaklega núna, á tímapunkti í íslandssögunni þar sem ástandið er undarlegt. Vissulega er ég að tala um Evrópusambandsaðildarviðræður, já eða Evrópusambandið yfir höfuð. Ég hef nefnilega ákveðna framtíðarsýn.

Þegar Evrópusambandið er annars vegar þá er ekki hægt að taka auðveldar ákvarðanir og alls ekki ákvarðanir sem varða nútímaástand. Svona ákvörðun er ákvörðun sem varðar fyrst og fremst framtíðarlandið Ísland vegna þess einmitt að það er ekki svo auðvelt að segja sig úr Evrópusambandinu. Það er ekki sanngjarnt að segja að Evrópusambandið lagi ástandið á Íslandi eins og það er í dag. Bæði út af því að það tekur einhver ár að komast í sambandið og einnig út af því að þetta er framtíðarákvörðun. Ef við myndum segja okkur úr því (svo ólíklega ef að það tækist) þá myndu sennilega fylgja því stórir efnahagslegir vankostir. Plús það að ráðamenn þjóðarinnar hafa það svo gott á spenanum frá sambandinu að þeir vilja aldrei fyrir sitt litla líf fara til baka, jafnvel þó svo að fólkið á landinu líði fyrir það. Og þá er ég að tala um fólk í öllum flokkum sem líkar góða lífið jafn vel, ekki bara Sjálfstæðisflokkinn eins og sumir myndu ætla (flokkinn sem er einmitt ekki að tala fyrir það að fara í sambandið, jafnvel þó svo að það fylgi því margir eiginhagsmunalegir kostir fyrir ráðamenn, ferðalög og flottheit) .

Það sem vantar er að fólk hugsi einmitt 30-50 ár fram í tímann, ekki næstu 10 árin. Næstu 10 árin verða hvort eð er erfið, það þarf ekkert að bæta það með öllum þeim kostnaði sem fer í aðildarviðræðurnar. Ég sé fyrir mér að með allar þær auðlindir sem við höfum og sérstöðu sem land með vel menntuðu fólki, að eftir tugi ára gætum við staði sterkari en aðrar þjóðir. Við gætum lifað góðu lífi sem einstaklingar sem skapa sér sín auðæfi, halda þeim inn í landinu og nýta allt fyrir okkur sjálf. Þetta eru ekki margir einstaklingar sem þarf að dreifa auðæfunum og framleiðslutekjum okkar til.

Við erum búin að brenna okkur á því að ríkur verði miklu ríkari svo að núna væri hægt að fara öðruvísi að uppbyggingunni, með Ísland fremst í flokki sem fallegt hreint land með gáfuðu fólki og skapandi kröftum. Við myndum halda áfram á þeirri góðu braut sem við erum á með ferðamannaiðnaði og einstakri, séríslenskri menningu, skapa okkur þannig sérstöðu í heiminum, laða fólk að allan ársins hring.

Miðað við þessar pælingar þá er Evrópusambandið bara til þess að gera okkur háð öðrum þar sem við missum sjálfstæði okkar aftur, eftir annars stuttan tíma sem við höfum verið sjálfstæð. Evrópusambandið mun líklegast sjúga í sig allar auðlindir og planta hér enn meira af verksmiðjum, virkjunum og svo framvegis. Hver veit nema þeir taki vatnið okkar, fiskinn, þurrki upp landið... þetta eru auðvitað svartsýnis hugsanir en það er mjög óljóst hvernig Evrópusambandið reynir að "hjálpa" okkur upp úr skuldunum. Hver verða útgjöldin? Svona af því að þeir eru þá væntanlega að fara að "hjálpa litla Íslandi sem var í djúpum skít".

Í stað þess að við reynum að bjarga okkur sjálf með fyrri reynslu að leiðarljósi til bættari lifnaðarhátta. Getum við ekki staðið upprétt sem þjóð núna sem aldrei fyrr og bjargað okkur sjálf? Kannski með einhverjum hætti tekið upp annan gjaldmiðil og séð hvert það leiðir.

Ástandið er ekki gott núna á Íslandi. En það verður ólíklegast bættara til framtíðar með því að gerast hluti af þessu Evrópusambandi. Það gæti lagast í nokkur ár eftir að við förum inn, en kannski er þetta bara stutt tímabil í mannkynssögunni sem Evrópusambandið yfir höfuð virkar sem bandalag milli landa.

Hvar stendur Evrópusambandið í sinni framtíðarsýn?

Hvar stendur Ísland í sinni framtíðarsýn? Spurning um að fara að móta hana af einhverri alvöru og hætta að láta núverandi ríkisstjórn að fara með okkur eins og peð á taflborði.

Tuesday, July 14, 2009

Ekki meiri pólitík.

Hvernig væri það að njóta sumarsins án þess að velta sér upp úr ráðherrum, icesave og öllum þeim fjandanum sem fjallað er um í fréttum á hverjum degi?

Humarhátíðin er búin sem þýðir að sumarið er að líða aðeins of fljótt. Ég fékk góða gesti og svo vorum ég og Friðjón mest í því að borða humarlokur, humarpizzu og ýmislegt annað sem var við hæfi á hátíð sem þessari. Við héldum tónleika á fimmtudeginum fyrir humarhátíð sem voru vel heppnaðir. Alltaf gaman þegar það kemur margt fólk...líka svo góð stemning í Pakkhúsinu.

Ég get eiginlega ekki beðið eftir næstu dögum. Rökkurbandið er að fara að spila á Borgarfirði Eystri á Bræðsluhelginni þannig að það er aldeilis skemmtilegt framundan. Svo fer ég í útilegu, labba upp í Stórurð og kannski til Eskifjarðar næstu helgi svo eitthvað sé nefnt.

Ég hugsa að ég skrifi meira þegar þetta allt er búið. Núna hef ég svo mikið að gera í því að vera full tilhlökkunar.