Saturday, March 28, 2009

Tónleikar og árshátíð

Ég föstudagskvöldið fór ég á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég fór á svipaða tónleika í fyrra og hafði mjög gaman af, en tónleikarnir í ár voru allt öðruvísi. Gershwin heillaði mig upp úr skónum, þvílík fegurð.

Laugardagurinn fór í árhátíð Hagnýtrar menningarmiðlunar. Það var rosalega gaman, góður matur, góður félagsskapur og góð skemmtiatriði. Upplestur úr Listin að kyssa var ákaflega fyndinn ásamt því að aðrir létu ljós sitt skína. Svo var haldið aðeins í bæinn, kannski ekki stoppað mjög lengi... eða alveg þangað til Friðjón varð fyrir olnbogaskoti og blæddi mikið úr nefinu auk þess sem það varð fljótt þrefalt að stærð. Þá fórum við heim.

Sunnudagur...fórum í fermingarveislu. Brynja Pálína var að fermast og var afskaplega sæt og fín.

Friðjón fékk einnig úrskurð hjá lækninum að nefið væri mölbrotið.

Wednesday, March 25, 2009

Þegar hlutirnir breytast

Stundum vildi ég óska að ég gæti slökkt á skynseminni í mér. Hún veldur mér áhyggjum og meiri áhyggjum. Maðurinn er víst skynsemisvera og allt það en það má á milli vera.

Að skipuleggja alla framtíðina og halda að það sé ekkert mál að sýna endalausa fyrirhyggju veldur mér nefnilega áhyggjum. Samt trúi ég því að hver og einn skapi sína framtíð, það er ekki endilega hægt að vera bara "heppinn" og treysta á það heldur er málið að hafa fyrir þessu. Þá kemur uppskeran að lokum. Þetta er svo sem gott og gilt lögmál sem vert er að fara eftir.

Að hafa hinsvegar áhyggjur af framtíðinni vegna þess að ekki alveg allt virðist vera eins og ég vildi helst hafa það, skapar margar andvökunætur og andlega vanlíðan almennt. Þess vegna væri ég til í að lækka örlítið í skynseminni og fyrirhyggjuseminni, því þegar allt kemur til alls þá getur lífið sífellt komið á óvart og maður verður líka að lifa fyrir núið. Líka einfaldlega vegna þess að þetta tekur mjög mikla orku frá mér þegar á hólminn er komið, þá orku sem ég ætlaði að nota í það að vinna fyrir hlutunum og afkasta miklu á hverjum degi.

Þarf maður að breyta aðstæðum til þess að reyna að komast á hamingjustaðinn, þar sem maður er rólegur og áhyggjulaus, eða þarf maður að breyta sjálfum sér?

Og hvar er millivegurinn, hvernig er hægt að halda áfram brosandi í erfiðinu, skapa sér framtíð en lifa samt fyrir hvern dag? Það er stóra spurningin.

Sunday, March 22, 2009

Í kaldhæðni sagt...

Ég elska RÚV.

Vegna þess að RÚV sýnir alltaf skemmtilega þýska dramaþætti og allskonar þætti frá ýmsum löndum. Svo sýnir RÚV líka skemmtilegar heimildarmyndir og spennandi viðtalsþætti með Boga Ágústsyni. Svo ekki sé minnst á frábærar disneymyndir eða rómantískar gamlar myndir um helgar.

Ég elska RÚV líka vegna þess að við þurfum aldrei að fara á leiguna út af frábærri sjónvarpsdagskrá og eyða pening í DVD.

Vegna RÚV þarf ég aldrei að hafa áhyggjur af því að það sé ekki eitthvað áhugavert að sjá þegar manni leiðist.
Húrra...

Wednesday, March 18, 2009

Marsbúinn

Ég sit og klára tímann í menningar- og verkefnastjórnun sem svo oft áður þessa önnina. Var að flytja fyrirlestur um Þuríði Sigurðardóttir í Listasafni ASÍ og þáttöku mína á Safnanótt. Gekk vel, ég talaði tæpitungulaust og er ekki vitund stressuð fyrir þessu lengur. Þetta hefur verið löng þrautarganga og loksins er ég farin að njóta mín ágætlega. Tala listfræði- menningarfræði- og verkefnastórnunarlega...það er margt sem maður getur tvinnað saman.





Er farin að huga að lokaverkefninu og ekki seinna vænna. Það hefst á næsta ári og þarf ég að huga að því að sækja um styrki. Ég er með eitt verkefni í huga sem felur í sér þá leiðu nauðsyn að fara til útlanda að rannsaka. Er eiginlega komin með þetta barn í magann og þarf að fæða það, búin að hugsa um það svo lengi.

Svo er blúshátíðin liðin. Mikið var hún yndisleg í alla staði. Pínulítið sjokkerandi líka, það fylgir því. Eins og það var búið að vera mikið að gera í vikunni á undan, markaðssetningaráfanginn alla daga og æfingar á kvöldin. Undirbúningur fyrir blúshátíð og svo framvegis. Svo lögðum ég og Friðjón af stað á fimmtudagskvöldinu í ágætis veðri. Fengum gott að borða á föstudeginum, þá var mamma líka 50 ára. Svo var ég að syngja með Blúsvíkingunum á Kaffihorninu um kvöldið.
Á laugardeginum var stóri dagurinn. Valdís átti afmæli og svo voru tónleikarnir okkar í Rökkurbandinu á hótelinu um kvöldið. Þrátt fyrir ýmislegt sem fór úrskeiðis þá komumst við ágætlega frá þessu. Að mínu mati var Hótelið ekki að gera sig í hljómburðinum fyrir hljómsveit eins og okkur. Hef líka fengið þau komment hérna í bænum frá listamönnum sem þetta sáu að við ættum að reyna að draga úr öllu og hafa allt mjög fágað í okkar spilamennsku.

Á sunnudeginum vorum við veik og veðurteppt. Nei, ekki þynnka, heldur bara hitaflensan ógurlega. Svo á mánudeginum fórum við heim og ég var síðan alla vikuna að jafna mig. Er orðin fullfrísk og hress núna, farin að hlaupa á fullu og koma mér í gott form fyrir vorið.

Ég ætla að nota tækifærið af því að ég var að tala um blúshátíðina að þakka öllum sem komu að horfa á okkur fyrir, það var svo virkilega gaman og yndælt að sjá hvað það voru margir sem mættu og fylltu hótelið af lífi og fjöri.

Tuesday, March 10, 2009

Í dag eru nákvæmlega...

...3 ár síðan ég og Friðjón hittumst fyrst.

Svona líður þetta hratt.

Wednesday, March 4, 2009

Mikið ofsalega er erfitt...

...að vera utan af landsbyggðinni.

Sumir skilja hreinlega ekki hvernig maður gat bara rifið sig upp eftir framhaldskólann og flutt á mölina. Að maður hafi virkilega haft kjark og þor til þess að labba út úr sveitabænum og klæða sig úr gúmmítúttunum.

Eða hreinlega hversu æðislegt það er einmitt að hafa upplifað hvoru tveggja, að vera úti á landi í rólegheitum í litlum bæ og í höfuðborginni í öllum látunum. Þetta er algjörlega ólíkur lífstíll og báðir staðirnir hafa sína kosti og galla.

- og mikið ofsalega er það erfitt að fara austur til Hornafjarðar um helgina og hlusta á tónlist í fremsta gæðaflokki þar sem boðið er upp á heila blúshátíð. Tónleikar 3 kvöld í röð á ýmsum stöðum. Menning + aflslöppun og fallegt umhverfi.

Veruleikasjokk

Stundum fær maður veruleikasjokk
...sérstaklega á morgnanna

og veit að það gæti verið eitthvað allt
annað
sem manni er ætlað í framtíðinni.