Wednesday, April 29, 2009

Heimsóknir í draumi

Reglulega frá því að afi minn heitinn Valdimar fór yfir móðuna miklu, hefur mig dreymt hann nokkuð sterkt.

Oftar en ekki hefur mig dreymt hann og ömmu saman en það gerðist aldrei fyrr en að hún dó líka sem var nokkru á eftir. Þessir draumar með afa eru alltaf sterkir í minnum nokkra daga á eftir og jafnvel lengi.

Í nótt dreymdi mig til dæmis að ég væri á Breiðabliksvellinum og átti að vera að læra einhverjar kúnstir hjá Ástu B. vinkonu mömmu og fótboltakonu. Mér gekk ekki vel og þá kom afi og sagði við mig að við skyldum bara taka þessu rólega og allt í einu vorum við bara orðin tvö í heiminum. Var hann í því að róa mig niður og segja að þetta yrði bara allt í stakasta lagi. Svo settist hann niður, tók upp eplasnafs og vodka sem ég drakk til skiptis með klaka og sömuleiðis afi. Engin ölvun, heldur meiri kyrrðarstund og rólegheit.

Svona draumur finnst mér ansi merkilegur og þó að ég hafi aldrei trúað á líf eftir dauðann eða tilveru framliðinna þá er mér farið að finnast eins og afi sé að heimsækja mig og segja mér eitt og annað.

Kannski er þetta einhver björgunaraðgerð hjá heilanum til þess að róa mig, kalla fram persónu sem hefur róandi áhrif, kalla fram öryggi. Maður veit í raun aldrei hvernig mannsheilinn virkar og hvaða ráða hann tekur til þess að koma á jafnvægi.

Það breytir því þó ekki að ef þessir draumar verða mikið fleiri, sérstaklega þegar ég er frekar stressuð og óróleg, þá get ég ekki að því gert að hugsa hvort það sé möguleiki að afi sé að reyna að tala við mig á einn eða annan hátt.

Allavega eru þessir draumar róandi og mér líður alltaf vel þegar ég er búin að "hitta" afa. Þess vegna vona ég að það verði fleiri "skál í eplasnafsi" í framtíðinni.

Saturday, April 25, 2009

Hornafjörður, kosningar, hammond og gleði

Nú er ég stödd á Hornafirði og margt og mikið skemmtilegt búið að gerast síðan ég kom síðasta mánudag.

Þá ber fyrst að nefna að við í Rökkurbandinu tókum þá skyndiákvörðun að halda litla tónleika á Kaffi Horninu á miðvikudagskvöldið, í tilefni af síðasta vetrardegi. Svei mér þá ef við erum ekki alltaf að bæta okkur og erum að mínu mati orðin full fær til þess að fara með prógrammið annað. Enda er það á dagskrá í sumar og er mjög spennt fyrir því, að sjá viðbrögðin hjá fleirum.



Svo fór ég að kjósa utankjörstaðar á miðvikudaginn líka. Það má auðvitað ekki gleyma þeim stórviðburði. Eða þannig. Mér finnst samt þessar kosningar ekki svo tímabærar einhvernveginn.

Svo já, föstudagur, Hammondhátíð á Djúpavogi, þvílík gleði! Höfum farið síðustu 2 ár, fyrst með Mæðusveitinni, síðan með Rökkurbandinu í fyrra en í þetta skipti sem áhorfendur.

Við þurfum auðvitað ekkert að ræða það neitt frekar en Guðmundur Pétursson er magnaður gítarleikari sem virðist einnig alltaf vera að þróa sína spilamennsku. Hann hefur reyndar alltaf, á öllum þeim tónleikum sem ég hef séð hann spila, staðið fullkomlega fyrir sínu. Tekur ein áhugaverðustu og smekklegustu sóló sem heyrast hér á landi og þó víða væri leitað. Svo var auðvitað algjör sæla að horfa á Birgir Baldursson sem er einn af mínum uppáhalds trommuleikurum og hefur verið í mörg ár. Hann er svo skemmtilegur, taktviss, skapandi og hefur allt sem góður trommari þarf að geta, þessa góðu breidd. Nú, þarna voru líka fleiri góðir hljóðfæraleikarar, reyndar þeir bestu á landinu. Ég hef oft sagt hér hversu góður Davíð Þór er og svo er hann líka svona eins og "óþægi prakkarinn" í bandinu og gerir oft eitthvað sem lífgar upp og hefur mikið skemmtanagildi. Þá er ég ekki að taka frá honum hversu góður hljóðfæraleikari hann er og hann naut sín vissulega á hammondinu. Ég hef ekki oft séð Róbert bassaleikarann en hann var auðvitað algjör fagmaður, sem og Halldór Bragason sem er auðvitað enn helsti blúsari landsins til margra ára og hefur einnig unnið alveg ótrúlegt starf með Blúshátíð Reykjavíkur. Lagt fram mikla vinnu í þágu blústónlistarinnar með mikilli ástríðu og ber mikla virðingu fyrir blúshefðinni.

Svo má ekki gleyma söngkonunni Ragnheiði Gröndal sem steig á svið eftir hlé. Ég hefði fyrir það fyrsta auðvitað viljað heyra fleiri lög en hún söng um 4 lög að mig minnir. Tvö af þeim voru Ray Charles blúsar sem voru mjög flottir, hefði þó alveg mátt við meiri fjölbreytni. Nú, þegar ég hef sagt hvað hefði mátt vera betra þá verð ég að segja að það var mikil upplifun að sjá Ragnheiði Gröndal syngja tónlist í þessum stíl og finnst mér hún hafa bætt við sig í kraftinum. Svo hafði hún svo ótrúlega góða tjáningu sem passaði við tónlistina.

Ég fór mjög sátt aftur til Hornafjarðar eftir gott kvöld. Til hamingju Djúpavogsbúar með frábært framtak og þessa glæsilegu hátíð sem verður vonandi haldin á komandi árum!

Monday, April 20, 2009

Það er nú bara þannig...

...að stundum þarf maður aðeins meira kaffi á mánudögum til þess að koma sér af stað.

Ég þarf að klára tvö stór verkefni og það er ekkert að gerast enn. 20 apríl? Hvernig gat það gerst? Mér finnst eins og ég hafi ekkert tekið þátt í þessum apríl mánuði.

Skrítið.

Ég verð bara að fara að byrja á þessu, koma mér til ömmu og drekka kaffi og meira kaffi. Þá kemur kannski einhver skerpa á hugsunina.

Eins gott.

Thursday, April 16, 2009

Ungir pólitíkusar láta ljós sitt skína

Ég er með pólitík á heilanum þessa dagana. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta alltaf jafn gaman og fylgjast með því og athuga hvort ég sé ennþá með mínum flokki eða ekki. AUÐVITAÐ er ég ekki sammála öllu því sem flokkurinn segir en þrátt fyrir það er blár ennþá uppáhalds liturinn minn. Þannig er það nú bara, jafnvel þó að ég sé mjög listhneigð, menningarsinnuð, vill ekki sjá álver og svo framvegis. Margt sem ætti að passa við aðra flokka en af ákveðnum ástæðum gerir ekki nógu vel. Ég er einstaklingssinnuð, ég trúi á einstaklingsframtakið. Metnaðinn. Eftir þessa einföldun mína læt ég þar við sitja.

Nú fæ ég örugglega fyrir ferðina hjá þeim mörgu vinum mínum og kunningjum sem eru vinstrisinnuð og jafnaðarsinnar og ég ber janframt mikla virðingu fyrir. En, þannig er það nú bara, líka.

Núna er líka tækifærið fyrir unga pólitíkusa að láta ljós sitt skína og koma sér á framfæri. Nú er allt opið og hver sem er getur komið sér nokkuð vel áfram. Sagt sína meiningu, látið vita hvaða málefni skipta mestu máli. Eða er það svo? Getur það hver sem er?

Ég fór að hugsa þetta rækilega, þegar ég las rikivatnajokuls.is áðan. Hversu settlegir og fínir þessir ungu framsóknarmenn voru á þessum fundi. Greinilega allt prúðir einstaklingar, gott mál. Kannski fannst mér þó að þeir væru aðeins of ungir og aðeins of mikið skyldir til þess að virka trúverðugir sem fulltrúar. Nú er ég ekki að reyna að móðga neinar ágætar persónur (síður en svo) en mér finnst klíka, sambönd og ákveðin ættartengsl, pólitísk hefð og svo framvegis, stundum heldur mikil í pólitík. Mín skoðun á því máli en kannski er ég ekki hlutlaus, ég hef eftir allt aldrei kosið Framsókn. Er líka í annarri fjölskyldu...

Ég hugsa að ég sé ekki sú eina sem hugsar þessi mál og veltir fyrir sér, það er bara eðlilegt. Nú er ég heldur ekki að segja að það hafi aldrei verið klíkuskapur í Sjálfstæðisflokknum, eða öðrum flokkum. Þó svo að í flestum tilfellum sé þetta örugglega persónur sem hafi margt að segja og fullt erindi í pólitíkina. Gerir þetta ekki bara fyrir vinsældirnar og lúkkið út á við.

En pólitík er engri lík og fylgir manni um aldur og ævi. Alltaf á nokkurra ára millibili hefst fjörið á ný. Svo verður einhver á móti, einhver með, einhver er að þrífa eftir skítinn eftir hinn flokkinn, einhver klúðrar öllu, einhver sefur á vaktinni...

Wednesday, April 15, 2009

Hústökufólk

Ég á heima rétt hjá Hverfisgötu og líka rétt hjá Vatnsstíg. Það fór því ekki framhjá mér það sem var að gerast áðan þegar lögreglan tók fólk út úr húsi. Almenn samúð virðist vera með fólkinu og almenn andúð á lögreglumönnum.

Ég skil þetta ekki alveg og kannski er fréttaflutningurinn svona ófullnægjandi. Voru þetta mótmælendur, eða var þetta heimilislaust fólk sem vildi lifa fyrir utan kerfið? Ef svo er að þetta var heimilislaust fólk, því miður, þá skil ég mjög vel að lögreglan hefði dregið það á burt því að það geta fáir lifað fyrir utan kerfið og þannig er það nú bara. Hvorki ég né þú, af hverju ætti einhver annar að mega það.

Erum við að missa allan skilning á því sem kallast siðmenning? Erum við virkilega ekki komin lengra í þroska og samfélagshæfni árið 2009? Er það kannski raunveruleikinn að allt er að ganga afturábak og endar á einhverjum frumstæðum menningartöktum. Skrípaleikurinn gengur lengra og lengra...

Fólk heldur að það megi bara allt í dag af því að við fórum á hausinn. Það er auðvitað erfitt að ráða við ástandið en það er líka auðvelt að nýta ástandið til þess að koma sér á framfæri.

Það er allt í lagi að hinn almenni borgari reyni að haga sér og halda áfram með lífið, ástandið getur varla orðið verra. Það er allt í lagi að vera samfélagshlýðinn, jafnvel þó að það sé í tísku að vera á móti öllu. Svona skrítinn áróður í átt að lögreglunni er ekki það sem við þurfum á að halda núna.

Fræðið mig, ef ég er að misskilja þetta allt saman!

Tuesday, April 14, 2009

Pólitík

Þvílík ábyrgð!

Að þurfa að láta okkur kjósa núna. Bara einn tveir og tíu og enginn er tilbúinn fyrir það. Hvorki fólkið - kjósendur, né fólkið í framboði.

Það lýsir sér best á borgarafundunum á RÚV.

Ég verð að viðurkenna að núna er ég algjörlega týnd í pólitíkinni og yfirleitt hef ég haft mjög sterkar skoðanir. Það nær eiginlega enginn að segja neitt af viti, nema þá fulltrúar Borgarahreyfingarinnar (að ég held hún heiti). Sérstaklega þessi á fundinum á Ísafirði sem sagði það að hann væri nú enginn pólitíkus..væri bara í þessu framboði fyrir fólkið. Svo er Þráinn Bertelsson góður rithöfundur og á maður ekki að kjósa fólk. Kannski endar atkvæði mitt þar, hver veit?

Jah, allavega ekki ég!

Friday, April 10, 2009

Blúshátíð Reykjavíkur - miðvikudagskvöld

Ég lét mig ekki vanta á miðvikudagskvöldið á Rósenberg.

Fyrst var atriði Sollu og hljómsveitar hennar. Hún tók mikið af lögum eftir sjálfa sig en einnig lög eins og Turn me on, Oh Darling og fleiri þekkt. Hún átti góða spretti raddlega séð og stundum hafði hún líka fína innlifun á sviðinu. Það var samt eins og það væri eitthvað ekki að smella saman hjá hljómsveitinni, kannski saknaði ég gítarsólóanna svona mikið.

Seinni hljómsveitin var Ferlegheit. Það var nafn með réttu, þó á jákvæðan hátt því þau voru alveg ferleg. Munnhörpuleikarinn var ótrúlega góður, besti sem ég hef séð lengi á Íslandi og einnig miðað við aldur. Trommuleikarinn var fyrirbæri, eins og hann væri úr geimnum hann spilaði svo vel...einnig miðað við aldur. svo var hann prýðilega góður söngvari og lak af honum kynþokkinn! Söngkonan var kröftug og aldrei fölsk. Hún var skemmtileg og með svona Bonnie Raitt "feel". Þannig að, þetta var hin mesta skemmtun þó svo að gítarinn og "sándið" hafi ekki alltaf verið að gera sig.

Eftir að þetta var búið kom Gummi P. Davíð Þór og Ragnheiður Gröndal og létu ljós sitt skína. Það var eftir að þau höfðu verið á Hilton það sama kvöld. Þó að ég heyrði lítið í Ragnheiði var þetta skemmtilegur lokapunktur á kvöldinu. - Myndir væntanlegar.

Nú er ég komin á Höfn í páskafrí og að enda við að klára Campaign strategy og pitch fyrir markaðssetningarnámskeiðið. Get ekki beðið eftir því að fara í skarðið á eftir og brenna nokkrum hitaeiningum áður en þær hlaðast fimmfalt aftur tilbaka með páskaeggjaáti á sunnudag!

Gleðilega páska.

Tuesday, April 7, 2009

Gærkvöld á Blúshátíð Reykjavíkur

Ég labbaði mjög sátt út af Rósenberg í gærkvöldi en hér koma nokkur orð um viðburðinn.

Það var hitað upp með góðu djassbandi. Alltaf jafn slakandi að hlusta á fraseringarnar í bland við góðan trommuleik.

Svo tók nú við Tómas R. Einarsson með Ómari Guðjóns og Scott McLemore. Þetta var öðruvísi blús, svona suður-amerískt latínskotin. Mikið stuð, hiti og flott spilamennska. Ég var bara nokkuð skotin í Tómasi, hann er skemmtilegur á sviði og skapandi kontrabassaleikari með húmor. Það er alltaf ánægjulegt að sjá menn gera nýja hluti með hljóðfærin sín (kem betur að því síðar með gítarleikarann).

Síðasta atriði kvöldsins var með Kristjönu Stefáns, Scott, Valda Kolla, Ómari og Agnari Má. Hljómar ekki illa enda gerði það það alls ekki. Hef séð Kristjönu nokkrum sinnum og verð aldrei fyrir vonbrigðum því hún er alveg mögnuð söngkona.

Í gærkvöldi var einhver einstakur kraftur í mannskapnum enda sagði Kristana að það hefði verið svolítið síðan þau spiluðu síðast. Ef ég kem aftur að umræðunni um skapandi tónlistarmenn þá mun ég sennilega aldrei gleyma "sólói" Ómars Guðjónssonar í Sugar in my bowl. Það er nefnilega þannig að þegar allt stoppar á ákveðnum tímapunkti í laginu þá á ákveðin gítarlína að hljóma sem ég beið með eftirvæntingu. Í stað þess spilaði Ómar bara ekki neitt, heldur var svona eins og hann "héldi í sér"með að snerta strengina. Úr varð algjör þögn með spennuþrungnu andrúmslofti og um leið virkaði þetta eins og fullkomin ákvörðun á þessum tímapunkti. Þetta var eitthvað sem gerir Ómar að þeim einstaka gítarleikara sem hann er.

Svona eins og listamaður sem leyfir sér að hengja ómálaðan striga upp á vegg og kalla það listaverk...og á einhvern undarlegan hátt verður það áhugavert.

Sunday, April 5, 2009

Blúshátíð Reykjavíkur

Í gær fór ég á Blúshátíð Reykjavíkur á Café Rósenberg.

Það voru 4 hljómsveitir að spila og allar mjög ólíkar. Ein hljómsveitin voru miðaldra menn "Lame Dudes" hétu þeir og ortu þeir aðallega um það hvað konan er erfið á þriðjudögum og hversu erfitt það er að vera miðaldra. Svo voru tveir strákar sem voru fínir en náðu ekki salnum á sitt band. Fyrsta atriðið var mjög svo kántrí og gospel skotið en það var einhver sjarmi yfir því.

Síðasta hljómsveitin var auðvitað hörkugóð...allir proffarnir mættir með hljóðfærin sín og Hrund að syngja. Þetta gat bara ekki klikkað þó svo að mér fannst lagavalið stundum mega vera aðeins blúsaðara.

Eftir þetta reyndum ég, Friðjón og Raggi að finna eitthvað skemmtilegt í miðbænum. Það var ekki að ganga svo vel. Maður á alltaf að halda sig á Rósen og ekki stíga fæti þar út fyrir nema til að fara heim. Nú hef ég skrifað það og ætla að fara eftir því. Hinir staðirnir í miðbæ Reykjavíkur eru bara vonbrigði.

Í dag erum við frekar þreytt. Það er nefnilega vandamálið við að reyna að finna góða skemmtistaði að tíminn flýgur hratt. Klukkutími hér...klukkutími á næsta og allt í einu er klukkan orðin fimm. Þá fer maður heim og fær sér morgunmat og sefur voðalega lítið. Þynnka kemur málinu semsagt lítið við, það er aðallega þreytan.

Get ekki beðið að fara til Hornafjarðar á morgun og njóta þess að læra og drekka kaffi hjá ömmu...ekkert þreytt eða sjúskuð eftir miðbæ Reykjavíkur.