Monday, February 23, 2009

Sæludagar

Síðustu dagar hafa verið hreint út sagt skemmtilegir. Ég er búin að vera á Hornafirði að æfa með hljómsveitinni og jafnast ekkert á við það.

Það er líka búið að vera svo fallegt veður í þessari viku hérna, hrein sæla...


Í dag fór ég á málþing í Nýheimum sem var á vegum Háskólasetursins hér á Höfn og Hagnýtrar Menningarmiðlunar úr HÍ . Komu samnemendur mínir alla leið frá Reykjavík og dvöldu í sýslunni samtals fjórar nætur. Mér fannst svo gaman að hitta þau í dag í Nýheimum og það liggur við að manni sé farið að líða eins og fjölskyldumeðlim í risastórri miðlunarfjölskyldu. Það er svo góður andi í hópnum.

Málþing um miðlun, upplifun, ímynd og fræðslu í Ríki Vatnajökuls. Það væri svo margt hægt að segja um málþingið, Eggert talaði um söfn og setur sem var vissulega áhugavert og sérstaklega fyrir þá kannski sem ekki hafa mikið heyrt um þessi mál.

Mér fannst persónulega hún Gunnþóra Ólafsdóttir alveg frábær sem talaði um “Náttúrutengsl og upplifanir ferðamanna á Íslandi: fjögur tengslamynstur vellíðunar”. Fyrirlesturinn var "wake up call" og sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki áður séð náttúruna og metið verðleika hennar til hins ýtrasta. Ég hef reyndar alltaf verið náttúruverndarsinni, upplifunarfíkill á fjöllum og hvar svo sem ég kemst í burtu frá rafmagni og ósýnilegum heilsuspillandi "siðmenningarárum", fílað mig svakalega í ósnortinni náttúru og líður mér hvergi betur...en það eru ekki allir að skilja þetta. Hversu yndislegt það er að sitja uppi á stórum klettasteini uppi í Laxárdal, á mosabletti að hlusta á nákvæmlega ekkert nema þögnina og náttúruna.

Svo fjallaði Gunnþóra líka um áhugavert sjónarhorn, að hver og einn sækir úr sínum reynsluheimi þegar hann upplifir náttúruna. Þannig upplifir listamaðurinn kannski ægifegurð sem fær hann til að mála fallega og tjáningarríka mynd...eins og Svavar Guðnason. En það er nú önnur og stærri umræða sem kemur kannski síðar. Maðurinn getur nýtt sér náttúruna sem óendanlega orkuuppsprettu en aðeins ef hann er opinn fyrir því.

Svo í kvöld fórum við í Rökkurbandinu á Humarhöfnina og tókum nokkur lög fyrir fólkið. Mér fannst það virkilega skemmtilegt að taka lagið fyrir samnemendur mína og sýna á mér nýjar hliðar. Þessu var lika vel tekið og má segja að maður sé alveg í skýjunum yfir móttökunum. Ég komst að því að það er verið að skipuleggja árshátíð í lok mars... semsagt skemmtilegir tímar framundan í háskólanáminu.

Það sem mér fannst mikilvægt að segja hér í lokin er að Norðurljósablús nálgast og er hún haldin í fjórða skipti á Hornafirði þarnæstu helgi. Líklegast mun lítið sem ekkert kosta inn á hátíðina þannig að þetta frábært tækifæri fyrir ferðalag og tónlistarhátíð og skemmtun í leiðinni.



Sjáiði allt fallega sólarlagið í þessari mynd

svo ekki sé minnst á fagurbláan himininn í forgrunni...

Monday, February 16, 2009

Nútímasamfélagið

Er það ekki dæmi um það að við lifum í nútímasamfélagi og online-samfélagi, þegar presturinn býður manni í messu og sunnudagsskóla á facebook?

Það er ekki endilega rangt en eitthvað er svo sérstakt að ég næ ekki að átta mig á því. Svona miðað við það hvernig kirkjusamfélagið er, oft gamaldags og íhaldsamt, en nú, kannski ekki lengur....

Sunday, February 15, 2009

Á Hornafirði, plúsar og mínusar

Nú er ég komin til Hornafjarðar eftir viðburðarríka helgi. Á föstudaginn var Vetrarhátíð og ég var að "vinna" á Listasafni ASÍ. Þetta var sjálfboðavinna á vegum námskeiðsins í verkefnastjórnun og svo eigum við að gera verkefni. Þetta var virkilega skemmtilegt og sá ég vel fyrir mér að vinna á slíku safni í framtíðinni. Ef guð lofar að maður fái svo góða og skemmtilega vinnu.

Það er yndislegt að knúsa Janis litlu hérna heima. Þó að það jafnist nú ekki neitt á við að kúra með Friðjóni þá kemur það eitthvað smá í staðinn. Ekki fær Janis heldur að lúlla hjá mér á nóttunni af því að hún er hundur og hundar eiga ekki að vera uppi í rúmi.
Ótrúlegt hvað maður getur orðið háður því að vera ekki einn í rúminu. Þrátt fyrir að það getur stundum verið erfitt að sofna þegar Friðjón andar hátt. Hann nefnilega hrýtur ekki, stór plús, en hann andar eitthvað svo hátt. Svo magnast það upp þegar ég ligg og reyni að loka augunum. Nóg um það - það er eini mínusinn við að vera á Höfn eins og núna, það er að mér verður svo kalt á kvöldin og nóttunni af því að Friðjón er vanur að sjá til þess að svo er ekki.

En það er líka eini mínusinn við Hornafjörð þegar ég er ein á flakki. Allir hinir plúsarnir eru góðir og manni líður vel.

Thursday, February 12, 2009

Þá kom að því

..að ég náði að skipuleggja mig almennilega. Semsagt, skipuleggja næstu vikur og get ég sagt ykkur að það hafði ekki gengið svo vel síðustu vikuna. Hefði þurft að klóna mig en vegna skipulagsins (og smávægilegum hliðrunum sem kosta mig 5 einingar þessa önnina) þá gengur allt upp. Eins og alltaf þá tók ég tónlistina fram yfir allt annað og er ánægð með þá ákvörðun.

Þó eftir margar andvökunætur og ókyrran hugarburð dag eftir dag.

Það sem þurfti til voru veikindi. Að sitja veikur heima kemur manni í þá stöðu að þurfa að hugsa mikið og ekki aðeins það, heldur fá niðurstöður. Af því að það er ekkert hægt að hlaupa neitt út og gleyma þessum hugsunum, fresta vandamálunum. Maður er þess í stað dæmdur til þess að leysa vandann.

Eftir á - it feels good.

Wednesday, February 11, 2009

Skilgreining á menningu - ein af mörgum

Þegar hver einstaklingur hefur fullnægt sínum grundvallarþörfum til fæðu, vatns o.s.frv. fer hann að stunda ýmislegt sem nýtist honum og öðrum í næsta nágrenni, vekur forvitni og oft á tíðum ánægju. Þegar jarðvegurinn er frjór spretta upp margvísleg tjáskipti og túlkun tilfinninga og hugsana. Það er hin sanna menning sem eykur lífsgæði.

Menningarhugtakið er vítt. Það nær til andlegra viðfangsefna sem og til verklegra. Gerð leikrits, tónverks, hönnun mannvirkja eða hvað sem spretta kann innan borgarmarkanna eru dæmi um frjóan jarðveg – menningu – borgarbúa. Svo geta menn talað um verkmenningu, matarmenningu og raunar er vaxtarsprotum menningarinnar engin takmörk sett.

Úr fyrirlestri menningar og verkefnastjórnun, vor 2009.

Tuesday, February 10, 2009

Að tala við sjálfan sig

Sit ein heima og tala við sjálfa mig.

Tala líka við sjálfa mig á blogginu því að það hefur enginn kommentað síðan ég byrjaði með nýju síðuna. Mér finnst það miður að sjá ekki smá líf einstöku sinnum.

Kannski er bara ekkert hægt að segja neitt á móti því sem ég bulla.

Allavega, kannski líður mér bara svona einstaklega einmanalega og ömurlega af því að flensan náði mér. Helvísk hálsbólgan. Akkurat þegar ég var byrjuð að æfa með hljómsveitinni hérna í bænum. Loksins þegar eitthvað gerðist í sönglistinni þá fékk ég hálsbólgu. Hef ekki fengið hana í svona 1 og hálft ár. Ekki einustu flensu.

Já ég er pínu bitur en þannig líður manni víst alltaf með flensur.

Saturday, February 7, 2009

Laugardagur til lukku

Mikið rétt, laugardagur til lukku.

Er að hugsa heim, langar í heimsókn til ömmu og spjalla yfir kaffi, borða heimabakaða pizzu í kvöld, út að labba með mömmu og Janis, rúnta með Valdísi, horfa á DVD og borða nammi með Jón Guðna, syngja og spila með pabba.....

væri til í það núna.

Í staðinn er það Kolaportið og listasafn í dag. Kannski háskólaræktin.

Rosalega gaman í gær, fórum á B.Sig á Rósen. Frábær stemning, frábær hljómsveit og smá rölt um miðbæinn eftir það. Hitti Eddu loksins eftir langan tíma og svona. Margt mjög skemmtilegt í gær.


Langar samt í Hornafjörðinn fallega...



Tuesday, February 3, 2009

Hlaupadagar

Ég held að ég hafi aldrei hlaupið eins mikið og í byrjun ársins 2009. Nú eru þetta orðnar daglegar ferðir og virkar eins og hinn mesti vímugjafi á mig. Spilar inn í þetta æðislega veður sem er búið að vera, sól, snjór, stilla alla daga. Ekki annað hægt en að fara út að labba, sem verður að skokki, sem verður að hlaupi og nokkrum sprettum.
Ekki að ég sé orðin eitthvað grindhoruð eftir þetta. Skýringin gæti verið að í gær þá prófaði ég í fyrsta skipti að fá mér 2 hamborgara, heimatilbúna. Það var ekki beint af því að ég var svöng, heldur langaði mig að vita hvort ég gæti það. Ég gat það, - en mikið hræðilega var ég södd. Svona einum of. Svo er ég líka smá nammigrís og borða sætindi um helgar með góðri samvisku.

Nóg um það. Ætla að gera svo margt í þessari viku. Meira en síðustu viku. Miðvikudagur á morgun, vikan hálfnuð, en ég ekki hálfnuð með verkefnin. Ó mæ...

Skiptir ekki máli. Ég er svo kærulaus þessa dagana. Algjörlega úr takti við raunveruleikann. Talandi um kæruleysi þá fengum ég og Friðjón okkur lífrænt ræktað rauðvín síðustu helgi. Já, ég ætlaði einmitt aldrei aftur að drekka rauðvín en þegar ég hugsaði um það frekar þá ákvað ég frekar að reyna að LÆRA að drekka rauðvín rétt. Ég er ekki manneskja sem gefst upp. Viti menn, rauðvínið síðustu helgi rann ljúflega niður með ekki einu sinni hausverk daginn eftir. Geri aðrir betur. 2 glös og ekki einn einasti sopi varð til að ég kúgaðist. Bragðið var orðið mun betra en það var áður. Ég varð ekki einu sinni full og ekki heldur þreytt. Bara til í að rölta á Rósen og Ölstofuna. Nú er ég loksins orðin fullorðin, get drukkið rauðvín og borðað osta með.

Ég ætla nú samt ekkert að verða atvinnumanneskja í rauðvínsdrykkju og drekka það hverja helgi. Jafnvel þó að rauðvín virðist ekki hafa nein áhrif á úthaldið í útihlaupunum.