Wednesday, November 25, 2009

Freyja

"Í Belgíu eru persónueinkenni okkar sem þjóðar að þurrkast út" sagði kona við mig sem ég bjó hjá í tvær vikur þar í landi. Hún var á móti Evrópusambandinu enda hreinræktaður Belgi sem fannst að þjóðinni vegið sem landi með séreinkenni.

Ég fór að hugsa þegar ég heyrði lagið "Freyja" sem hljómar alltaf í útvarpinu og er um þessar mundir vinsælasta lag Rásar 2. Þó svo að Magnús sagði sjálfur að lagið væri síðbúin afsökunarbeiðni til landsins, náttúrunnar og auðlindanna, (http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/day/2009/9/29/) þá er ekki erfitt að túlka það sem óð til landsins - og þar með lag um það að við eigum ekki að selja landið og auðlindir okkar. "Ég seldi þig..fiskinn í sjónum og fjöreggin þín.." Allavega passar þetta allt frekar vel í mínum huga.

Það er nefnilega ljóst að þegar fólk talar um aðild að Evrópusambandinu (og skiptist í tvo hópa), að hér er á ferðinni álíka umræða og í byrjun 20. aldar þegar hópur manna barðist fyrir sjálfstæði frá Dönum. Þeir sem voru þjóðernissinnar vildu sjálfstæði en það var líka öllu hljóðlátari hópur fólks í í sögubókunum, sem hélt að við værum kannski efnahagslega betur sett á því að vera frekar undir Dönum. Núna erum við þjóðernissinnar að reyna að berjast fyrir því að halda sjálfstæðinu. Semsagt að fara ekki í Evrópusambandið. Á meðan hinn hópurinn heldur enn að það sé virkilega betra að vera öðrum háður. Ég mun aldrei samþykkja það að þjóðernissinnar séu meðal stuðningsmanna Evrópusambandsins (gegn þeim rökum að það sé þjóðinni fyrir bestu að vera í sambandinu). Það eru einfaldlega þeir sem vilja leita "einfaldra skyndilausna" sem er ekki einu sinni víst hvort geri neitt betra fyrir land og þjóð þegar uppi er staðið.

Ég veit að umhverfið er breytt, ástæður eru breyttar og kannski finnst ekki öllum auðvelt að sjá þessa samsvörun svona tæpum 100 árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki. En í grunninn spyr ég : Hversu heitt elskaru landið þitt. Hversu heitt elskaru að vera Íslendingur. Fyrir hvað viltu fórna sjálfstæðinu sem forfeður okkar börðust hart fyrir? Hversu fast viltu halda í séreinkenni þín sem Íslendings og menningu okkar lands? 100 ár sem sjálfstæð þjóð sem stendur á eigin fótum er ekki langur tími. Getum við virkilega ekki betur að mati Evrópusambandssinnuðum?

Það er algjör rómantíker sem talar. Kannski ekki alveg niðri á jörðinni. En sannfæringin er sterk þegar hún er til staðar á annað borð. Þessi sannfæring er yfir peninga hafin. Þetta eru miklu stærri spurningar en um efnahag Íslands næstu árin. Ef við förum inn er ekki svo auðveldlega aftur snúið. Fljótlega töpum við svo sjarmanum sem sérstök þjóð á eyju úti í hafi.

Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?

Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?

Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?

Thursday, November 19, 2009

Byrjuð að klippa í vetrarkulda

Þá er kominn 19. nóvember og afmæli Svavars liðið! Hann hefði semsagt orðið 100 ára í gær 18. nóvember. Ég ætlaði að koma með pistil í tilefni af því en honum seinkar aðeins. Ég hafði svo mikið að gera í vikunni, var uppi í Listasafni í gær að taka upp athöfn afmælinu til heiðurs. Þetta var formlegt og skemmtilegt, fyrsta bókin var gefin menntamálaráðherra og svo voru veittir styrkir úr sjóði Svavars og Ástu. Ég tók allt upp og hélt því áfram að safna heimildum um þessi tímamót í íslenskri listasögu.

Í gær hitti ég margar frænkur sem ég hef ekki áður séð. Dætur Stefáns, bróðir langafa voru allar í athöfninni. Þetta voru konur ekki ósvipaðar þeim sem ég þekki í ættinni. Litlar með fíngert vaxtarlag og andlitin kunnugleg. Gaman hvernig maður sér oftar en ekki ættarsvipinn. Kannski er þetta hornfirska útlit svona sérstakt, eitthvað er það. Þetta var allavega viðburður út af fyrir sig fyrir mig að fá að tala við "nýjar" frænkur sem sögðu mér frá þeim skiptum sem þær heimsóttu Hornafjörð og dvöldust í Heklu.

Bókin um Svavar verður án efa jólagjöfin í ár í mínum huga, ef einhverjum dettur í hug að gefa mér hana. Hún er þykk og stór og full af frábærum fróðleik til að glugga í yfir jólin. Er ekki þessi "skáldsögumanneskja" svo að ein stór kæmi í staðinn fyrir allar litlu kiljurnar.

Er núna byrjuð að vinna í myndinni, setja inn efni og klippa hana. Stefnan er tekin á 8 mínútna æfingarmynd til að byrja með. Verður skemmtilegt að sjá útkomuna. Ætla að kippa í nokkra spotta til þess að fá tónlist í myndina án þess að stela henni. Þetta verður að vera almennilegt.


Tuesday, November 3, 2009

Viðburðaríkir dagar

Það er heldur betur búið að vera margt á döfinni hjá mér. Ég er búin að taka upp nokkra tíma af efni fyrir heimildamyndina mína og gerði það allt í síðustu viku. Fór semsagt alla síðustu viku upp í Listasafn Íslands og myndaði það sem þar fór fram í undirbúningi fyrir stórri sýningu á verkum Svavars Guðnasonar. Þessi sýning opnaði svo á laugardaginn, þar sem ég og Friðjón fórum að sjálfsögðu og vorum við opnunina. Sýningin var svo falleg og svona persónulega fyrir mig fannst mér það algjör forréttindi að fá að vera með þennan dag. Halldór Björn hélt ræðu sem ég hefði alls ekki viljað missa af. Það sem betra er - ég á hana alla á upptöku. Líka ræðuna hjá forsetanum.

Verður eflaust gott að nota þetta í stóru myndina mína sem ég ætla að reyna að klára fyrir næsta sumar.

Svo er ég að missa mig í að hanna hluti og búa til, sköpunargleðin fer öll í það þessa dagana auk þess að vera með kvikmyndavél á öxlinni og vinna með lifandi myndir. Ég held að ég þurfi reglulega að breyta til og er algjörlega búin að leggja gítarnum í bili og alveg hætt að semja lög og texta. Það er kannski bara gott að "rótera" í þessu reglulega þó svo að ég horfi reglulega á hann og skammist mín fyrir að "geta ekki neitt" lengur með honum. Svo er líka pirrandi að semja lög og texta og gera aldrei neitt meira með það. Held ég þurfi að fara að vinna með gömlu lögin betur áður en ný verða til. Það verður tími fyrir það eins og allt annað.

- er bara á milljón þessa dagana með allt og allt.