Thursday, May 21, 2009

Hornafjörður.... aldan blá

Búin að vera á Hornafirði í hálfa viku. Finnst eins og það hafi verið lengri tími en það er sennilega vegna þess að það er tilbreyting að vera kærastalaus. Mikil tilbreyting og tíminn líður aðeins hægar fyrst.

Það er þó margt sem kemur í staðinn þegar maður er kominn í rólegheitin. Ég er virkilega ánægð með að vera byrjuð að vinna. Tók mig líka til og fór á fótboltaæfingar, fór með föndur í handraðann, labbaði í skarðinu og fór á fótboltaleik. Þetta allt á nokkrum dögum og segi svo einhver að það sé hér lítið að gera! Ég á enn eftir að gera margt svo að það er nóg eftir.

Ég var ekki enn búin að segja frá því að Friðjón var að frumsýna í Þjóðleikhúsinu síðasta föstudag og var það mjög flott og vel að verki staðið. Það kom meira að segja pínulítið á óvart hversu vandað allt var og var ekki að sjá að þarna væri áhugamannaleikfélag á ferð. Mér fannst Friðjón sem Hallfreður guðfræðistúdent auðvitað standa sig mjög vel, hann var alveg í fremsta flokki. Það var reyndar ekki bara ég sem var að segja það að hann væri frammúrskarandi, það hafa fleiri haft það á orði síðan á frumsýningu. Það eru enn sýningar eftir svo að það er um að gera að skella sér í leikhús, hægt að panta miða á Ó þú, aftur á midi.is.

Svo var laugardagurinn og sunnudagurinn yndislegur. Gott veður hafði sitt að segja. Við vorum í sólbaði, fórum í Nauthólmsvíkina og betri helmgingurinn var svo örlátur að bjóða mér út að borða á Pisa. Allt voðalega ljúft. Læt nokkrar myndir fylgja með.


Nýkominn af frumsýningu með Sigga og Magga á bakvið




Á "ströndinni"

Thursday, May 14, 2009

Þegar önn klárast

Á morgun er önnin búin.

Þá á ég voðalega lítið eftir af mastersnámi mínu. Sorglegt en satt.

Hefur liðið alltof hratt.

Ég fer svo sem örugglega að læra eitthvað meira. Dunda mér við kennsluréttindin eða eitthvað sem mér dettur í hug að læra betur.

Á morgun skila ég síðasta verkefninu í bili. Fer svo í leikhús kl. 20.00 að horfa á Friðjón frumsýna Ó þú aftur. Fer svo í vorteiti með Hagnýtri menningarmiðlun. Svo geri ég vafalaust eitthvað skemmtilegt í framhaldinu. Það þarf að fagna hverjum áfanga með stæl.

Svo er það Hornafjörður á sunnudaginn og þar verð ég í allt sumar. Virkilega er það nú ljúft og gott.

Friday, May 8, 2009

Hamingjan er ekki ódýr

Ég var að velta fyrir mér í nótt hvort ég væri kannski manneskja sem vildi ekki endilega vera hamingjusöm.

Nú eru allir búnir að ákveða það að það eina sem við leitum að í lífinu er hamingjan. Að það sé okkar hinsta markmið, að verða hamingjusöm. Þetta hafa margir talað um, bæði heimspekingar og allir hinir. Þetta er hið eina heilaga viðmið mannsins.

Ég fór hinsvegar að hugsa: En ef það er ekki svoleiðis með alla? Hvað ef maður hefur aðrar skilgreiningar hjá sjálfum sér.

Ég hef til dæmis alltaf komið í veg fyrir það með einhverjum hætti, litlum aðgerðum og hugsunum, að ég sé fullkomlega hamingjusöm.

Eins og í nótt, þá fór ég að velta fyrir mér af hverju mér fyndist ég aldrei hafa nægan tíma. Ég er ekki orðin 24 ára, samt finnst mér að tíminn sé að hlaupa frá mér og ég hafi ekki gert nóg við hann nú þegar. Samt er ég að klára mastersnám, búin að fá mér kærasta, búin að búa til mína eigin hljómsveit og gera nákvæmlega það sem ég ætlaði mér í sem flestu. Samt er það hreint út sagt ekki nóg.

Ég ætlaði helst að vera búin að gera nokkra geisladiska með mínu eigin efni, vinna að hinu og þessu í lista- og menningarmálum, sjá fleiri sýningar og kynnast meira af fólki, ferðast meira og búa í Evrópu í allavega eitt ár...

...já ég ætlaði sennilega að vera búin að sigra heimin. Helst áður en ég fæddist. Af því að mér líður eins og ég sé svo gömul. Þó að það standi ekki á tölum og afrekin séu ágæt í orðum...

þá er það einfaldlega ekki nóg til þess
að ég verði hamingjusöm.