Monday, April 25, 2011

Blúshátíð í Reykjavík 2011

Nú er nýafstaðin Blúshátíð í Reykjavík 2011 og fór hún fram í áttunda sinn. Ég fór á alla viðburði hátíðarinnar og get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir neinum vonbrigðum.

Blúshátíðin hefur án vafa vaxið síðan ég fór fyrstu árin en þá var hún haldin á Hótel Borg (sem var og hét). Það sem er verðmætt er að nákvæmlega sami andi hefur haldist, þrátt fyrir að hátíðin hafi stækkað mikið og blúsfagnaðarerindið borist víða. Ég man alltaf eftir því þegar ég upplifði stemninguna fyrst og var þá á framhaldskólaaldri, horfði með aðdáunaraugum á tónlistarmenn spila tónlist sem ég vissi að ég myndi alltaf elska. Þá hélt ég að Halldór Bragason, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, væri erlendur blúsari með hatt, þangað til hann talaði í hljóðnemann, svona prýðilega íslensku. Ennþá fer ég á þessa sömu hátíð og upplifi sömu góðu tilfinninguna, svona eins og að vera kominn heim. Ég vona að þetta verði fastur punktur í lífi mínu hér á Íslandi og margra annarra næstu árin. Því það er jú alltaf gott að hafa þessa föstu punkta í lífinu.

Í ár stóð upp úr Vasti Jackson enda mætti segja að hann hafi verið aðalnúmer hátíðarinnar. Hann er einn sá líflegasti flytjandi sem ég hef séð á sviði, auk þess að vera skapandi listamaður. Hann fékk áhorfendur til þess að hlægja, dansa, undrast, tárast og allt þar á milli og þá er hægt að segja að tilganginum sé náð. Hinn ungi Marquise Knox stóð líka fyrir sínu og mun vafalaust verða stórstjarna í blúsheiminum, ef ekki víðar í tónlistarheiminum. Hjá honum eru gömlu blúsreglurnar góðar og gildar og hann ætlar svo sannarlega að halda uppi heiðri hinnar sönnu blúshefðar. Laus við glamúr og sýndarmennsku, í nánum tengslum við uppruna sinn.

Fleiri flytjendur stóðu fullkomlega fyrir sínu á hátíðinni og ætla ég að nefna nokkra. Stone Stones voru í senn miklir smekkmenn á blústónlist og einnig góðir flytjendur. Allt sem þeir gerðu var áhugavert og verður gaman að fylgjast með þessum íslensku ungu mönnum. Ferlegheit var önnur ung sveit sem ég hef fylgst með í nokkurn tíma. Sveitin gaf nýlega út plötu sem inniheldur virkilega vel spilaðar og góðar lagasmíðar í anda blústónlistar. Ekki var lifandi flutningur þeirra á hátíðinni síðri. Gaman var að sjá Pál Rósinkrans aftur á sviði blússins. Hann er eflaust með "svartari" söngvurum sem við eigum hér á landi. Síðan langar mig til að nefna "sessionistana" sem spiluðu öll kvöldin. Það sást sérstaklega á tónleikunum með Vasti Jackson hvað við eigum mikla heimsklassa menn. Guðmundur Péturs, Róbert Þórhalls, Birgir Baldurs, Davíð Þór, Dóri Braga og Óskar sax voru fagmennskan uppmáluð alla hátíðina, sem þarf varla að taka fram því allir þeir sem hafa fylgst með tónlist á Íslandi síðustu ár ættu að vita það nú þegar.

Að lokum langar mig að nefna það hvað við erum heppin að hafa slíka hátíð á Íslandi sem Blúshátíð í Reykjavík er. Hátíðin og blústónlist á Íslandi almennt hefur vaxið fyrir tilstilli áhugamanna, sem hafa unnið þessa verðmætu uppbyggingarvinnu af ástríðunni einni. Það má aldrei vanmeta slíkan auð, því án þessara örfáu manna og kvenna sem fóru af stað í upphafi, værum við ekki nú að skrá blústónlistarsögu Íslands. Krafturinn og starfið hjá þessum hópi fólks skilar sér út í samfélagið á margan hátt og lyftir okkur upp í samanburði við aðrar þjóðir. Sérstaklega þar sem að í flestum vestrænum löndum hefur blústónlistarhefðin hlotið mikla virðingu og á sér djúpar rætur. Íslensk tónlistarhátíð sem byrjaði fyrir tilstilli blúsáhugamanna fyrir um 9 árum síðan, fyllir nú stóra sal Hótel Hilton þrjú kvöld í röð. Ég ætla að gerast svo djörf að segja að ef einhver ætti að fá listamannalaun eða að "minnsta kosti" fálkaorðuna, væri það Halldór Bragason, fyrir framlag sitt, frumkvæði og þáttöku í þessari uppbyggingu.

Það merkilega við blústónlistina er það að hún fer aldrei úr tísku og fylgir ekki ákveðnum tíðaranda. Hún bara er. Þessi tónlist er nær okkur en við gerum okkur grein fyrir. Hún endurspeglar það að vera mannlegur, vera bitur, vera glaður, vera reiður, vera svikinn, vera til. Hún kemst hvað næst sönnum mannlegum tilfinningum af öllum stefnum tónlistar, vegna þess að hún er sprottin upp úr sönnum aðstæðum. Blústónlist var og verður alltaf einlæg.

Takk fyrir frábæra Blúshátíð í Reykjavík 2011, megi blúsinn halda áfram að gleðja Íslendinga. Sjáumst á Blúshátíð í Reykjavík 2012.

Marquise Knox og Halldór Bragason
á blúsdjammi eftir stórtónleikana 19. apríl.

Nánar:
www.blues.is
http://www.facebook.com/blusfelag
http://www.vastijackson.com/
http://www.marquiseknox.com/
http://www.myspace.com/ferlegheit
http://www.facebook.com/pages/Stone-Stones/

1 comment:

  1. Frábær grein og svo sannarlega satt sem þú segir. Að öllum ólöstuðum ætti Halldór að fá listmannalaun, það er að mínu mati svo sjálfsagt fyrir alla þá vinnu sem hann hefur lagt í þessar hátíðir og kynnt blúsinn hérlendis, bæði með því að spila sjálfur og alla þá frægu tónlistarmenn og konur sem hann hefur fengið hingað.

    ReplyDelete