Friday, July 17, 2009

Engri lík

Ég veit að ég ætlaði ekki að tala meira um pólitík hér í sumar en stundum finn ég mig knúna til þess að segja mína skoðun. Sérstaklega núna, á tímapunkti í íslandssögunni þar sem ástandið er undarlegt. Vissulega er ég að tala um Evrópusambandsaðildarviðræður, já eða Evrópusambandið yfir höfuð. Ég hef nefnilega ákveðna framtíðarsýn.

Þegar Evrópusambandið er annars vegar þá er ekki hægt að taka auðveldar ákvarðanir og alls ekki ákvarðanir sem varða nútímaástand. Svona ákvörðun er ákvörðun sem varðar fyrst og fremst framtíðarlandið Ísland vegna þess einmitt að það er ekki svo auðvelt að segja sig úr Evrópusambandinu. Það er ekki sanngjarnt að segja að Evrópusambandið lagi ástandið á Íslandi eins og það er í dag. Bæði út af því að það tekur einhver ár að komast í sambandið og einnig út af því að þetta er framtíðarákvörðun. Ef við myndum segja okkur úr því (svo ólíklega ef að það tækist) þá myndu sennilega fylgja því stórir efnahagslegir vankostir. Plús það að ráðamenn þjóðarinnar hafa það svo gott á spenanum frá sambandinu að þeir vilja aldrei fyrir sitt litla líf fara til baka, jafnvel þó svo að fólkið á landinu líði fyrir það. Og þá er ég að tala um fólk í öllum flokkum sem líkar góða lífið jafn vel, ekki bara Sjálfstæðisflokkinn eins og sumir myndu ætla (flokkinn sem er einmitt ekki að tala fyrir það að fara í sambandið, jafnvel þó svo að það fylgi því margir eiginhagsmunalegir kostir fyrir ráðamenn, ferðalög og flottheit) .

Það sem vantar er að fólk hugsi einmitt 30-50 ár fram í tímann, ekki næstu 10 árin. Næstu 10 árin verða hvort eð er erfið, það þarf ekkert að bæta það með öllum þeim kostnaði sem fer í aðildarviðræðurnar. Ég sé fyrir mér að með allar þær auðlindir sem við höfum og sérstöðu sem land með vel menntuðu fólki, að eftir tugi ára gætum við staði sterkari en aðrar þjóðir. Við gætum lifað góðu lífi sem einstaklingar sem skapa sér sín auðæfi, halda þeim inn í landinu og nýta allt fyrir okkur sjálf. Þetta eru ekki margir einstaklingar sem þarf að dreifa auðæfunum og framleiðslutekjum okkar til.

Við erum búin að brenna okkur á því að ríkur verði miklu ríkari svo að núna væri hægt að fara öðruvísi að uppbyggingunni, með Ísland fremst í flokki sem fallegt hreint land með gáfuðu fólki og skapandi kröftum. Við myndum halda áfram á þeirri góðu braut sem við erum á með ferðamannaiðnaði og einstakri, séríslenskri menningu, skapa okkur þannig sérstöðu í heiminum, laða fólk að allan ársins hring.

Miðað við þessar pælingar þá er Evrópusambandið bara til þess að gera okkur háð öðrum þar sem við missum sjálfstæði okkar aftur, eftir annars stuttan tíma sem við höfum verið sjálfstæð. Evrópusambandið mun líklegast sjúga í sig allar auðlindir og planta hér enn meira af verksmiðjum, virkjunum og svo framvegis. Hver veit nema þeir taki vatnið okkar, fiskinn, þurrki upp landið... þetta eru auðvitað svartsýnis hugsanir en það er mjög óljóst hvernig Evrópusambandið reynir að "hjálpa" okkur upp úr skuldunum. Hver verða útgjöldin? Svona af því að þeir eru þá væntanlega að fara að "hjálpa litla Íslandi sem var í djúpum skít".

Í stað þess að við reynum að bjarga okkur sjálf með fyrri reynslu að leiðarljósi til bættari lifnaðarhátta. Getum við ekki staðið upprétt sem þjóð núna sem aldrei fyrr og bjargað okkur sjálf? Kannski með einhverjum hætti tekið upp annan gjaldmiðil og séð hvert það leiðir.

Ástandið er ekki gott núna á Íslandi. En það verður ólíklegast bættara til framtíðar með því að gerast hluti af þessu Evrópusambandi. Það gæti lagast í nokkur ár eftir að við förum inn, en kannski er þetta bara stutt tímabil í mannkynssögunni sem Evrópusambandið yfir höfuð virkar sem bandalag milli landa.

Hvar stendur Evrópusambandið í sinni framtíðarsýn?

Hvar stendur Ísland í sinni framtíðarsýn? Spurning um að fara að móta hana af einhverri alvöru og hætta að láta núverandi ríkisstjórn að fara með okkur eins og peð á taflborði.

No comments:

Post a Comment