Tuesday, July 28, 2009

Bræðsluhelgin

Þá er kominn tími á ferðasöguna.

Ég lagði af stað á Djúpavog á miðvikudagskvöldinu. Friðjón kom á móti og hitti okkur í Berufirðinum þar sem var nú komið mikið rok, en fallegt var samt útsýnið alla leið á Borgarfjörð Eystri. Þar fórum við inn í stofu á Hólalandi, lögðumst niður og sofnuðum fljótlega vært.

Á fimmtudeginum var fljótlega búið sig af stað í gönguna í Stórurð og lögðum við af stað upp úr hádegi frá Vatnsskarði. Gangan tók um 4 tíma í heildina og Stórurðin var ótrúlega falleg. Mér leið eins og ég væri komin í aðra veröld þegar ég labbaði niður í urðina því landslagið þar var allt öðruvísi en ég hafði áður séð. Kom svona smá Lísu í Undralandi tilfinning. Eftir gönguna vorum við þreytt og lúin og hvíldum okkur smá á Hólalandi auk þess sem það voru eldaðar kjúklingapylsur. Síðan fórum við á tónleika hjá Aldísi Fjólu sem komu skemmtilega á óvart og mörg lög þar sem ég fílaði mjög vel. Eftir það skelltum við tjaldinu upp á tjaldsvæðinu.




Eftir hræðilega kalda og svefnlausa nótt vöknuðum við á föstudeginum. Það var þó blíða um daginn sjálfan og enn hafði ekki rignt dropa. Fljótlega um sex leytið fór ég að gera mig tilbúna fyrir tónleikana og flaug tíminn alveg þangað til þeir byrjuðu. Tónleikarnir með Rökkurbandinu í Álfacafé gengu vel og voru þetta sennilega einir bestu tónleikar sem við höfum haldið. Allt gekk upp og runnu lögin áfram eitt af öðru. Þetta voru allavega að mínu mati skemmtilegustu tónleikarnir til þessa, fyrir utan kannski Norðurljósablúshátíðina 2008. Gaman að sjá mörg ný andlit og að margir vinir mínir gætu loksins séð tónleika með okkur. Auk þess sem foreldrar mínir (og Jón Guðni) og Friðjóns voru á svæðinu, sem og ættingjar hans sem höfðu aldrei séð herlegheitin.

Eftir tónleikana fórum við upp í tjald að grilla folaldakjöt en svo á eftir því á rúntinn í heitum bíl í klukkutíma með mömmu og pabba. Flísklæðnaðurinn og öll ullarfötin dugðu semsagt ekki til við kuldanum. Þegar við ætluðum svo að fara að sofa sáum við að tjaldið okkar var frosið á tjaldstæðinu. Við skriðum því inn í stofuna á Geitlandi og sváfum þar vel á loftdýnu.

Laugardagurinn var tekinn snemma og farið í langa göngu og rúnt langleiðina í Loðmundarfjörð. Gangan var inn að fallegu vatni þar sem við fórum meðal annars yfir hóla og hæðir og gengum yfir risastóra mýri. Það er því ekki hægt að segja að það hafi verið mikið slappað af í þessari ferð. Svo var mikil fjölskyldugrillveisla um 6 leytið á Geitlandi og smá útipartý á eftir í garðinum. Fljótlega var þó farið niður á svæði til þess að fara á sjálfa Bræðslutónleikana.

Tónleikarnir voru mjög flottir en þó misjafnir. Mér fannst gaman að sjá Þursaflokkinn og er það örugglega bæði í fyrsta og síðasta skipti sem ég geri það. Eftir tónleikana tók við hefðbundið djamm í Fjarðaborginni. Ég var orðin mjög svo langþreytt sem gerði það að verkum að ég sat voðalega mikið og horfði á hina dansa og þvælast úti um allt.

Sunnudagurinn var bara sami gamli þreytudagurinn þar sem byrjað var í fiskisúpu í Álfacafé. Mæli með henni. Svo var farið á Egilsstaði í pizzuveislu. Mæli líka með því. Svo bara farið fljótlega heim á leið.

Þannig var nú það. Vel heppnuð ferð. Mikið um gönguferðir og minna um djamm... en allt voðalega skemmtilegt.
Næst tekur við Verslunarmannahelgi þar sem stefnan er tekin á lónið. Ódýr en jafnframt frábær skemmtun það.

No comments:

Post a Comment