Monday, August 10, 2009

Fiskidagur á Dalvík

Sennilega er komið að síðustu ferðasögunni þetta sumarið.

Fiskidagurinn á Dalvík var frábær. Lögðum af stað um 3 á föstudegi og brunuðum í góðu veðri alla leið á Dalvík. Þurftum að bíða í 2 km langri bílaröð eftir að komast inn í bæinn en svo var mjög kósý á tjaldstæðinu sem við fundum rétt fyrir allt skrallið.

Vöknuðum kl. 9 á laugardeginum ferlega hress og vorum komin út á svæði um hálf 12. Þar var ýmislegt smakkað, fiskihamborgari, grillaður þorskur, fiskibollur, fiski þetta og fiski hitt. Allt mjög gott. Svo kítki ég á útimarkað og eyddi pening. Friðjón má ekki líta af mér og þá er ég búin að kaupa eitthvað handverk!
Þar sem það var troðið af fólki á Dalvík rúntuðum við líka yfir í Ólafsfjörð til þess að fara í hraðbanka. Mér fannst nú ólíkt fallegra á Dalvík en það spilaði inn í að í Ólafsfirði var bræðslufíla og rigning en sól á Dalvík.
Tónlistaratriði og fleira var í boði á Fiskideginum svo að dagurinn leið frekar hratt. Um kvöldið grillaði Friðjón svakalegar folaldalundir, við fengum okkur rauðvín, ís í ísbílnum og spjölluðum við nágrannana á tjaldstæðinu. Tvö eldri hjón og ein listakona. Það var fróðlegt þar sem listakonan spáði í spil og kenndi okkur á lífið.
Papaballið um kvöldið var frábært. Það þarf ekkert að segja meira um það nema að við dönsuðum mjög mikið og ég fékk smá salsakennslu.

Á sunnudeginum var ferðalagið langt í frá búið. Við keyrðum á Akureyri og borðuðum á Greifanum. Svo var Goðafoss skoðaður og jarðhitasvæðið í Mývatni. Þar næst, eftir smá ís stopp á Mývatni og ferð í Galleríið, var "rúntað" að Dettifossi. Sú ferð tók reyndar hátt í tvo tíma...en það var vel þess virði. Fossinn var stórfenglegur.

Semsagt frábær ferð og Fiskidagurinn á Dalvík einn sá besti hátíðardagur sem haldinn er á Íslandi að mínu mati. Næst taka við Hornfirskir tónleikar á föstudaginn næstkomandi þar sem Rökkurbandið ætlar að taka nokkur lög í Pakkhúsinu ásamt fleirum hornfirskum hljómsveitum. Svo menningarferð til Reykjavíkur næstu helgi þar sem Menningarnóttin verður tekin með trompi.

No comments:

Post a Comment