Wednesday, September 2, 2009

Haustið og tíminn

Haustið er komið og sumarið hefur liðið eins og að venju, hratt og örugglega.

Ég veit ekki af hverju ég hugsa svona mikið um tímann, af því að hann hvort eð er líður, samt er ég í endalausri tilvistarkreppu út af öllu því sem ég er að missa af á meðan ég eldist.

Ekki það að ég geti nokkuð gert í þessu nema að reyna að lifa lífinu til fulls og njóta þess sem ber að garði hvern dag fyrir sig. Þó felur það í sér mikla andstæðu því flestir dagar eru mjög venjulegir og ekkert beinlínis hægt að njóta þeirra eins og góðs súkkulaðis - að minnsta kosti ekki upp á hvern einasta venjulega dag. Þess vegna líður þetta og líður án þess kannski að maður taki nokkuð eftir því að maður noti dagana í eitthvað gáfulegt.

Þannig er allavega tilfinningin að maður hafi ekki náð að nýta hinn venjulega dag til fulls, þó svo að hafa kannski áorkað ýmsu miðað við að aðeins tæplega 24 ár eru búin af þessu lífi.

Hvað sem öðru líður er ég ennþá leitandi. Leitandi í átt að afslöppuðu hugarfari og glaðlegum, tilvistarkreppulausum hversdagsveruleika.

Ég spyr mig líka að því hvort ein helsta ósk mín, um að ferðast, verði nokkuð að veruleika. Þær hugsanir að ég sé föst á stórskuldugri eyju eru raunverulegar, að minnsta kosti þangað til ég verð svo heppinn að fá vinnu erlendis.

Ég reyni þó að hugsa til þess að það tekur aðeins eina mínútu að fá góða vinnu, einn dag að ákveða að flytja út og tiltölulega litla fyrirhöfn að breyta til. Þess vegna á ég að reyna að hætta að ofhugsa hlutina þangað til það bara gerist, einmitt vegna þess að það eru alvöru aðgerðir sem leiða af sér eitthvað nýtt og spennandi, á meðan leitandi hugsanir eyða orku og flækja málin.

No comments:

Post a Comment