Wednesday, August 5, 2009

Verslunarmannahelgin

Verslunarmannahelgin er liðin. Sem þýðir að skólinn er alveg að byrja. Eða hvaða skóli sem það nú verður, það er alltaf verið að fella niður námskeið vegna niðurskurðar. Sérstaklega þau námskeið sem mig langaði svo að taka. Hefði kannski ekki átt að sleppa námskeiðinu í fyrra fyrir þessi spennandi námskeið í ár... sem lúta lægra haldi fyrir kreppunni nú.

Eftir margra daga vangaveltur, vonleysisköst og ótta við það hvert framtíðin leiðir mig þá ætla ég að reyna að vera bjartsýn.

Verslunarmannahelgin var svo sannarlega skemmtileg og verður lengi í minnum höfð. Ég og Friðjón vorum búin að ákveða að sleppa útihátíðunum og fara í góða veðrið og hafa það rómó. Helgin byrjaði í pizzuveislu á Hornafirði á föstudagskvöldinu. Svo á laugardaginn skelltum við okkur á suðurlandið og fórum í göngu í Skaftafelli. Að Svartafossi og í ýmsar áttir útfrá því. Nú þegar því var lokið ákváðum við að fara á Kirkjubæjarklaustur og tjalda þar og grilla. Tjaldsvæðið var vægast sagt fallegt og ekkert smá huggulegt að sitja með rauðvínsglas og horfa út í loftið þar. Svo kom Selma og kíkti á okkur og fljótlega var komin stemning fyrir því að skella sér aðeins út á lífið þar í bæ.

Á sunnudeginum var steikjandi hiti á Klaustri. Ég og Friðjón drógum vindsængina úr tjaldinu og lágum í sólbaði allan daginn. Nema þegar við fórum á Systrakaffi og ég fékk mjög góða grænmetispizzu. Svo var lagt af stað seinni partinn alla leið upp í Laxárdal í Lóni þar sem við mættum í svakalega flott grillað lambalæri hjá mömmu og pabba. Amma var með í för og því var mikið fjör. Í eftirrétt voru grillaðir bananar, skúffukaka, glóðaðir sykurpúðar og sitt lítið af allskonar góðgæti. Árni Johnsen klikkaði ekki á brekkusöngnum, ef þannig mætti orða þetta skemmtiatriði, en við vorum að vanda í hláturskasti yfir söngstíl hans og lélegu gítarströmmi.

Mánudagurinn fór mikið í að slappa af, sofa, liggja og eina gönguferð upp á fjall í Lóni. Svo var helgin bara búin. Endaði með vídjókvöldi og ísrúnti heima um kvöldið.

No comments:

Post a Comment