Monday, September 21, 2009

Mánudagur 2

Það lítur út fyrir að ég bloggi á mánudögum. Allavega núna og síðasta. Annars ætla ég að vera duglegri að rita niður hugleiðingar mínar.

Helgin fór rólega fram og slapp ég við allt djamm fyrir utan einn lítinn bjór á Thorvaldsen og að smakka koníak í fyrsta skipti. Friðjón bauð mér upp á smá sopa með mikilli athöfn þar sem hann var að opna afmælisflöskuna sína. Annars var þetta rölt bara rólegheita rölt um miðbæinn með stutt stopp á English pub til að pissa. Vildi að ég hefði sleppt því þar sem ég þurfti að hlusta á margar mis-fullar ljóskur metast um það hver væri með lykil að mikilvægara fyrirtæki í höndunum. Ein var með að Smáralind, ein af Kringlunni og sú sem stökk fram af klósettinu (til þess að vera með í umræðunni) var með lykil að Reiknisstofu bankanna - og aðgang að kerfinu. Nú svo bættist ein í hópin sem vann einu sinni í Seðlabankanum.

Já þetta voru viturlegar og háleynilegar umræður sem áttu sér stað á klósettinu á English.

Ég er að setja mig í stellingar þessa vikuna til þess að undirbúa mig fyrir afmæli Svavar Guðnasonar sem verður þann 19. nóvember næstkomandi. Er með nokkrar hugmyndir að því hvernig ég ætla að fagna afmælinu og ætla ég að byrja að vinna úr þeim núna, ekki seinna vænna. Svo er það lokaverkefni og Nordisk Panorama þar sem við erum að fara að gera stutta heimildarmynd um hátíðina. Svo auðvitað tónlistarhátíðin Réttir.

Nóg framundan og eins gott að koma sér í skokkið sem fyrst og hefja vikuna...

No comments:

Post a Comment