Thursday, November 19, 2009

Byrjuð að klippa í vetrarkulda

Þá er kominn 19. nóvember og afmæli Svavars liðið! Hann hefði semsagt orðið 100 ára í gær 18. nóvember. Ég ætlaði að koma með pistil í tilefni af því en honum seinkar aðeins. Ég hafði svo mikið að gera í vikunni, var uppi í Listasafni í gær að taka upp athöfn afmælinu til heiðurs. Þetta var formlegt og skemmtilegt, fyrsta bókin var gefin menntamálaráðherra og svo voru veittir styrkir úr sjóði Svavars og Ástu. Ég tók allt upp og hélt því áfram að safna heimildum um þessi tímamót í íslenskri listasögu.

Í gær hitti ég margar frænkur sem ég hef ekki áður séð. Dætur Stefáns, bróðir langafa voru allar í athöfninni. Þetta voru konur ekki ósvipaðar þeim sem ég þekki í ættinni. Litlar með fíngert vaxtarlag og andlitin kunnugleg. Gaman hvernig maður sér oftar en ekki ættarsvipinn. Kannski er þetta hornfirska útlit svona sérstakt, eitthvað er það. Þetta var allavega viðburður út af fyrir sig fyrir mig að fá að tala við "nýjar" frænkur sem sögðu mér frá þeim skiptum sem þær heimsóttu Hornafjörð og dvöldust í Heklu.

Bókin um Svavar verður án efa jólagjöfin í ár í mínum huga, ef einhverjum dettur í hug að gefa mér hana. Hún er þykk og stór og full af frábærum fróðleik til að glugga í yfir jólin. Er ekki þessi "skáldsögumanneskja" svo að ein stór kæmi í staðinn fyrir allar litlu kiljurnar.

Er núna byrjuð að vinna í myndinni, setja inn efni og klippa hana. Stefnan er tekin á 8 mínútna æfingarmynd til að byrja með. Verður skemmtilegt að sjá útkomuna. Ætla að kippa í nokkra spotta til þess að fá tónlist í myndina án þess að stela henni. Þetta verður að vera almennilegt.


No comments:

Post a Comment