Wednesday, November 25, 2009

Freyja

"Í Belgíu eru persónueinkenni okkar sem þjóðar að þurrkast út" sagði kona við mig sem ég bjó hjá í tvær vikur þar í landi. Hún var á móti Evrópusambandinu enda hreinræktaður Belgi sem fannst að þjóðinni vegið sem landi með séreinkenni.

Ég fór að hugsa þegar ég heyrði lagið "Freyja" sem hljómar alltaf í útvarpinu og er um þessar mundir vinsælasta lag Rásar 2. Þó svo að Magnús sagði sjálfur að lagið væri síðbúin afsökunarbeiðni til landsins, náttúrunnar og auðlindanna, (http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/day/2009/9/29/) þá er ekki erfitt að túlka það sem óð til landsins - og þar með lag um það að við eigum ekki að selja landið og auðlindir okkar. "Ég seldi þig..fiskinn í sjónum og fjöreggin þín.." Allavega passar þetta allt frekar vel í mínum huga.

Það er nefnilega ljóst að þegar fólk talar um aðild að Evrópusambandinu (og skiptist í tvo hópa), að hér er á ferðinni álíka umræða og í byrjun 20. aldar þegar hópur manna barðist fyrir sjálfstæði frá Dönum. Þeir sem voru þjóðernissinnar vildu sjálfstæði en það var líka öllu hljóðlátari hópur fólks í í sögubókunum, sem hélt að við værum kannski efnahagslega betur sett á því að vera frekar undir Dönum. Núna erum við þjóðernissinnar að reyna að berjast fyrir því að halda sjálfstæðinu. Semsagt að fara ekki í Evrópusambandið. Á meðan hinn hópurinn heldur enn að það sé virkilega betra að vera öðrum háður. Ég mun aldrei samþykkja það að þjóðernissinnar séu meðal stuðningsmanna Evrópusambandsins (gegn þeim rökum að það sé þjóðinni fyrir bestu að vera í sambandinu). Það eru einfaldlega þeir sem vilja leita "einfaldra skyndilausna" sem er ekki einu sinni víst hvort geri neitt betra fyrir land og þjóð þegar uppi er staðið.

Ég veit að umhverfið er breytt, ástæður eru breyttar og kannski finnst ekki öllum auðvelt að sjá þessa samsvörun svona tæpum 100 árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki. En í grunninn spyr ég : Hversu heitt elskaru landið þitt. Hversu heitt elskaru að vera Íslendingur. Fyrir hvað viltu fórna sjálfstæðinu sem forfeður okkar börðust hart fyrir? Hversu fast viltu halda í séreinkenni þín sem Íslendings og menningu okkar lands? 100 ár sem sjálfstæð þjóð sem stendur á eigin fótum er ekki langur tími. Getum við virkilega ekki betur að mati Evrópusambandssinnuðum?

Það er algjör rómantíker sem talar. Kannski ekki alveg niðri á jörðinni. En sannfæringin er sterk þegar hún er til staðar á annað borð. Þessi sannfæring er yfir peninga hafin. Þetta eru miklu stærri spurningar en um efnahag Íslands næstu árin. Ef við förum inn er ekki svo auðveldlega aftur snúið. Fljótlega töpum við svo sjarmanum sem sérstök þjóð á eyju úti í hafi.

Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?

Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?

Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?

No comments:

Post a Comment