Tuesday, February 3, 2009

Hlaupadagar

Ég held að ég hafi aldrei hlaupið eins mikið og í byrjun ársins 2009. Nú eru þetta orðnar daglegar ferðir og virkar eins og hinn mesti vímugjafi á mig. Spilar inn í þetta æðislega veður sem er búið að vera, sól, snjór, stilla alla daga. Ekki annað hægt en að fara út að labba, sem verður að skokki, sem verður að hlaupi og nokkrum sprettum.
Ekki að ég sé orðin eitthvað grindhoruð eftir þetta. Skýringin gæti verið að í gær þá prófaði ég í fyrsta skipti að fá mér 2 hamborgara, heimatilbúna. Það var ekki beint af því að ég var svöng, heldur langaði mig að vita hvort ég gæti það. Ég gat það, - en mikið hræðilega var ég södd. Svona einum of. Svo er ég líka smá nammigrís og borða sætindi um helgar með góðri samvisku.

Nóg um það. Ætla að gera svo margt í þessari viku. Meira en síðustu viku. Miðvikudagur á morgun, vikan hálfnuð, en ég ekki hálfnuð með verkefnin. Ó mæ...

Skiptir ekki máli. Ég er svo kærulaus þessa dagana. Algjörlega úr takti við raunveruleikann. Talandi um kæruleysi þá fengum ég og Friðjón okkur lífrænt ræktað rauðvín síðustu helgi. Já, ég ætlaði einmitt aldrei aftur að drekka rauðvín en þegar ég hugsaði um það frekar þá ákvað ég frekar að reyna að LÆRA að drekka rauðvín rétt. Ég er ekki manneskja sem gefst upp. Viti menn, rauðvínið síðustu helgi rann ljúflega niður með ekki einu sinni hausverk daginn eftir. Geri aðrir betur. 2 glös og ekki einn einasti sopi varð til að ég kúgaðist. Bragðið var orðið mun betra en það var áður. Ég varð ekki einu sinni full og ekki heldur þreytt. Bara til í að rölta á Rósen og Ölstofuna. Nú er ég loksins orðin fullorðin, get drukkið rauðvín og borðað osta með.

Ég ætla nú samt ekkert að verða atvinnumanneskja í rauðvínsdrykkju og drekka það hverja helgi. Jafnvel þó að rauðvín virðist ekki hafa nein áhrif á úthaldið í útihlaupunum.

No comments:

Post a Comment