Monday, February 23, 2009

Sæludagar

Síðustu dagar hafa verið hreint út sagt skemmtilegir. Ég er búin að vera á Hornafirði að æfa með hljómsveitinni og jafnast ekkert á við það.

Það er líka búið að vera svo fallegt veður í þessari viku hérna, hrein sæla...


Í dag fór ég á málþing í Nýheimum sem var á vegum Háskólasetursins hér á Höfn og Hagnýtrar Menningarmiðlunar úr HÍ . Komu samnemendur mínir alla leið frá Reykjavík og dvöldu í sýslunni samtals fjórar nætur. Mér fannst svo gaman að hitta þau í dag í Nýheimum og það liggur við að manni sé farið að líða eins og fjölskyldumeðlim í risastórri miðlunarfjölskyldu. Það er svo góður andi í hópnum.

Málþing um miðlun, upplifun, ímynd og fræðslu í Ríki Vatnajökuls. Það væri svo margt hægt að segja um málþingið, Eggert talaði um söfn og setur sem var vissulega áhugavert og sérstaklega fyrir þá kannski sem ekki hafa mikið heyrt um þessi mál.

Mér fannst persónulega hún Gunnþóra Ólafsdóttir alveg frábær sem talaði um “Náttúrutengsl og upplifanir ferðamanna á Íslandi: fjögur tengslamynstur vellíðunar”. Fyrirlesturinn var "wake up call" og sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki áður séð náttúruna og metið verðleika hennar til hins ýtrasta. Ég hef reyndar alltaf verið náttúruverndarsinni, upplifunarfíkill á fjöllum og hvar svo sem ég kemst í burtu frá rafmagni og ósýnilegum heilsuspillandi "siðmenningarárum", fílað mig svakalega í ósnortinni náttúru og líður mér hvergi betur...en það eru ekki allir að skilja þetta. Hversu yndislegt það er að sitja uppi á stórum klettasteini uppi í Laxárdal, á mosabletti að hlusta á nákvæmlega ekkert nema þögnina og náttúruna.

Svo fjallaði Gunnþóra líka um áhugavert sjónarhorn, að hver og einn sækir úr sínum reynsluheimi þegar hann upplifir náttúruna. Þannig upplifir listamaðurinn kannski ægifegurð sem fær hann til að mála fallega og tjáningarríka mynd...eins og Svavar Guðnason. En það er nú önnur og stærri umræða sem kemur kannski síðar. Maðurinn getur nýtt sér náttúruna sem óendanlega orkuuppsprettu en aðeins ef hann er opinn fyrir því.

Svo í kvöld fórum við í Rökkurbandinu á Humarhöfnina og tókum nokkur lög fyrir fólkið. Mér fannst það virkilega skemmtilegt að taka lagið fyrir samnemendur mína og sýna á mér nýjar hliðar. Þessu var lika vel tekið og má segja að maður sé alveg í skýjunum yfir móttökunum. Ég komst að því að það er verið að skipuleggja árshátíð í lok mars... semsagt skemmtilegir tímar framundan í háskólanáminu.

Það sem mér fannst mikilvægt að segja hér í lokin er að Norðurljósablús nálgast og er hún haldin í fjórða skipti á Hornafirði þarnæstu helgi. Líklegast mun lítið sem ekkert kosta inn á hátíðina þannig að þetta frábært tækifæri fyrir ferðalag og tónlistarhátíð og skemmtun í leiðinni.



Sjáiði allt fallega sólarlagið í þessari mynd

svo ekki sé minnst á fagurbláan himininn í forgrunni...

No comments:

Post a Comment