Wednesday, March 25, 2009

Þegar hlutirnir breytast

Stundum vildi ég óska að ég gæti slökkt á skynseminni í mér. Hún veldur mér áhyggjum og meiri áhyggjum. Maðurinn er víst skynsemisvera og allt það en það má á milli vera.

Að skipuleggja alla framtíðina og halda að það sé ekkert mál að sýna endalausa fyrirhyggju veldur mér nefnilega áhyggjum. Samt trúi ég því að hver og einn skapi sína framtíð, það er ekki endilega hægt að vera bara "heppinn" og treysta á það heldur er málið að hafa fyrir þessu. Þá kemur uppskeran að lokum. Þetta er svo sem gott og gilt lögmál sem vert er að fara eftir.

Að hafa hinsvegar áhyggjur af framtíðinni vegna þess að ekki alveg allt virðist vera eins og ég vildi helst hafa það, skapar margar andvökunætur og andlega vanlíðan almennt. Þess vegna væri ég til í að lækka örlítið í skynseminni og fyrirhyggjuseminni, því þegar allt kemur til alls þá getur lífið sífellt komið á óvart og maður verður líka að lifa fyrir núið. Líka einfaldlega vegna þess að þetta tekur mjög mikla orku frá mér þegar á hólminn er komið, þá orku sem ég ætlaði að nota í það að vinna fyrir hlutunum og afkasta miklu á hverjum degi.

Þarf maður að breyta aðstæðum til þess að reyna að komast á hamingjustaðinn, þar sem maður er rólegur og áhyggjulaus, eða þarf maður að breyta sjálfum sér?

Og hvar er millivegurinn, hvernig er hægt að halda áfram brosandi í erfiðinu, skapa sér framtíð en lifa samt fyrir hvern dag? Það er stóra spurningin.

No comments:

Post a Comment