Monday, June 1, 2009

Hvítasunnuhelgin...

...er liðin.

Friðjón farinn aftur í bæinn. Ekki fara frá mér...sagði ég eins og í fyrstu skiptin sem við hittumst. Eða hugsaði. Stundum er það samt bara þannig að maður þarf að sinna skyldum sínum einhverstaðar annarstaðar. Þá verður það bara að vera gott og blessað.

Ég fór á tónleika með Megasi í kvöld. Eftir að hafa farið ansi góða göngu við ágæta heilsu upp á Bergárdal. Ég hefði kannski komist á Hnjúkinn eftir allt en það þýðir ekki að velta sér upp úr því. Það verður tími fyrir það seinna, vonandi fyrr en seinna.

Tónleikarnir með Megasi voru fínir. Pakkhúsið var staðurinn og Senuþjófarnir lögðu undir sig sviðið. Mér fannst ekki síður gaman að hitta Valda Kolla..ansi mörg ár síðan hann kom hingað síðast. Hann spilaði vel á bassann, er alltaf svo stolt af stóra frænda mínum þó svo að ég sé farin að sjá hann spila ansi reglulega hér og þar síðustu árin.

Það vantaði textabók með tónleikunum...hefði verið gaman að heyra textana og sjá þá og lesa. Textarnir eru jú allveg brillíant hjá Megasi.

Vinnuvika tekur við. Bara stutt, svona þrjá til fjóra daga. Svo fer ég kannski til Reykjavíkur næstu helgi. Næstu helgi er líka heill mánuður síðan ég fékk mér síðast eitthvað með áfengismagni í. Ég vil nú ekki hljóma eins og alki en sem ung dama í heilsuátaki er ég bara ansi ánægð með það.

No comments:

Post a Comment