Monday, January 26, 2009

Mánudagar; allt annað en skemmtilegir

Það getur verið svo erfitt að koma sér af stað á mánudögum.

Ekki það að ég sé að kvarta, það er alls ekki málið. Stundum langar mig samt mest að sækja um 9-5 vinnu og eiga svo bara frítíma þess á milli. Býst ég þó við því að það verða mörg ár framundan í þeirri rútínu svo að ég þarf ekki að örvænta.

Nú langar mig líka að byrja að mála. Það þýðir að vaka langt fram á nótt. Þar sem ég bý ekki ein þá þarf ég að ræða það við Friðjón en ég er ekki viss um að hann segi neitt á móti því. Ég bara hef því miður ekki haft þá ró og yfirvegun í mér að mála í langan tíma. Sakna þess verulega og held að það gæti gert mér gott ef ég kemst í réttar stellingar. Þetta er bara mikið og andlegt ferli ef það á að takast vel upp.

Fórum á Rósen aðeins um helgina og svo í Kolaportið á sunnudag. Helgin var frábær og einkenndist af öllu því sem hægt er að gera um helgar hér í bænum. Verslunarferð þar sem Friðjón var í þetta skipti að versla, nammilandi, kjúklingasallati, rúnti, vídjókvöldi, tónleikum og fleiru. Föstudagurinn (bóndadagurinn) tókst vel upp og ég kom Friðjóni á óvart hvað eftir annað. Eldaði nautakjöt (í brauði (hamborgara) ) og bauð honum upp á uppáhaldsbjórinn með. Svo voru ostar, súkkulaði og smá gjafir.
Kolaportið var samt svolítið súrt í þetta skipti, þar sem stelpan sem ég ætlaði að kaupa ódýran pels af, eða svona loðinn jakka, hækkaði og lækkaði boðið sitt til skiptis. Svo í lokin ákvað hún að hún væri kannski bara ekkert tilbúin að selja hann - "nei hún ætlaði bara að eiga hann sjálf og fara í honum á djammið". Ég var svo sem ekkert rosalega ósátt með það að bæta ekki við enn einum jakkanum, þetta var samt mjög sérkennileg sölumennska.

No comments:

Post a Comment