Friday, December 12, 2008

Frostharka

Frostið ætlar engan endir að taka. Ég ætlaði að fara á stutt labb áðan en það endaði sem örfá spor um hverfið. Svo mikill var kuldinn að ég hélt að ég kæmist ekki heim.

Það vita nú nokkrir að ef mér verður kalt, þá ER mér kalt í nokkra klukkutíma. Líka eftir að ég er komin inn. Mér er alltaf kalt á löppunum og nefið á mér vanalega frosið. Svo ekki sé minnst á bláu varirnar sem koma jafnt á sumrin og veturnar, hvernær sem einhver hrollkuldi gerir vart við sig. Friðjón segir reglulega að ég hljóti að vera með fætur frá Össuri, vegna þess hversu kaldir og líflausir þeir eru þegar ég hita mér á hans sjóðheitu fótum. Því það tekur stundum dágóðan tíma áður en þær ná venjulegum líkamshita.

Hvort þetta hafi eitthvað með það að gera að ég er vanalega með 36 stiga hita alla daga veit ég ekki. Hvort það renni varla í mér blóðið veit ég ekki eða kannski er það bara svona kalt. Kannski er ég bara svona köld manneskja, róleg og yfirveguð. Hver veit? Það vantar allavega allan blóðhita í mig, svona allavega ef þannig er á það litið.

Ég veit ekki hvort ég þori út á morgun. Þá er nefnilega spáð 8 stiga frosti takk fyrir. Þá verður gott að kveikja á kertum og gera enn fleiri jólakort. Baka kökur. Kannski æfa með hljómsveitinni. Gera svo margt...annað en að fara út í frostið.

No comments:

Post a Comment