Tuesday, December 23, 2008

Þorláksmessa

Þorláksmessan er runnin upp.

Að venju borða ég ekki skötu. Það hefur aldrei verið hefð á mínu heimili heldur í seinni tíð höfum við fengið okkur þorláksmessu-pítsu. Eins sorglega vestrænt og það hljómar er það samt dagsatt. Örfá skipti höfum við haft saltfisk eða siginn fisk og það finnst mér algjört æði. Skötuna er ég hinsvegar ekki búin að læra að meta og mun sennilega seint gera. Allavega tekur því ekki upp úr þessu. Ekki frekar en að ég borði bjúgu eða þorramat.

Það er merkilegt hvað jólin eru mikil matarhátíð. Sérstaklega í ljósi þess að Íslendingar reyna eftir bestu getu að grenna sig fyrir jólin. Þá er markaðsetningin á fullu og allir sjá fyrir sér að vera grannir á jólamyndunum. Semsagt nær útlitsdýrkunin hámarki hjá ákveðnum hópi. Aukakílóin sem þeir losnuðu við í nóvember og desember, koma svo aftur aðeins á 3-4 dögum ef vel er tekið á því. Þar sem markaðsetning matvöruverslana tekur yfirhöndina rétt fyrir jól og fólk getur ekki hugsað sér að missa af hinum ýmsu kræsingum sem eru nauðsynlegar yfir hátíðarnar. Þó það hafi varla tíma til að borða helminginn.


Ég ætla hinsvegar að reyna að vera bara hógvær og allavega ekki hakka í mig konfekt eða annað jukk. Enda ekki svo mikil sykurmanneskja þessa dagana. Meira fyrir heilbrigðið og engar öfgapælingar, takk. Ég var nefnilega að velta fyrir mér þeirri staðreynd um daginn að jólin eru vafalaust tækifæri til alls konar ýktra athafna. Sem maður ætti eftir bestu getu að sniðganga. Halda sig í hófi, í hverju sem það er.

No comments:

Post a Comment