Tuesday, December 30, 2008

Áramótakveðja

Nú kemur árlegur annáll sem er þó sérstaklega skrifaður fyrir mig sjálfa seinna meir. Einskonar verkefni sem ég ætla að líta á þegar ég verð orðin hundgömul. Þá verður hugsanlega áhugavert að skoða hvernig lífið þróaðist ár frá ári. Þess vegna er bloggið í algjöru hlutverki dagbókar í þetta skiptið.

janúar
Ég byrjaði síðustu önnina í listfræðinni ásamt því að klára að skrifa lokaritgerðina. Annað furðulegt kom líka upp á þar sem ég þurfti að skila Frímanni, nýja gítarnum mínum vegna þess að Jakob Frímann vildi fá hann aftur. Ég fór einnig á Janis Joplin tribute tónleika á Organ og fékk blöðrubólgu eina ferðina enn. Fór á árshátíð á veitingarstaðnum Silfur (gamla Hótel Borg) með Friðjóni og vinnunni hans undir lok mánaðarins og borðaði þar ofsalega góðan og dýran mat.

Febrúar
Allt var komið á fullt í skólanum. Fyrsta lokaprófið var 6. febrúar. Hef aldrei tekið lokapróf svo snemma á önn áður en svona voru örnámskeið upp sett alla önnina. Ég tók einnig áfanga úr þjóðfræði/mannfræði sem þýddi töluvert nýjar áherslur í námsefni. Efnismenning; hlutirnir, líkaminn, heimilið. Svo fékk ég myndavélina mína úr viðgerð eftir að hún hafði fengið í sig Borgarfjarðarsandinn sumarið áður.

Mars
Í mars var Norðurljósablúshátíðin á Höfn í þriðja skiptið haldin. Ég var í fyrsta skiptið með heila tónleika ásamt hljómsveitinni sem við stofnuðum jólin á undan. Tónleikarnir okkar voru á Hótelinu og spiluðu pabbi, Bjartmar, Eymundur og Heiðar undir. Þeir heppnuðust vonum framar og var hátíðin í alla staði skemmtileg.
Í lok mánaðarins fór ég aftur heim á Höfn til þess að skrifa lokaritgerðina mína um Svavar Guðnason í ró og næði. Ég var að koma inn á innblástur náttúrunnar svo að það hafði mikið að segja að vera í rétta umhverfinu, til þess að skilja viðfangsefnið betur. Ég fór á Eskifjörð á páskaball en að mestu leyti var annars afslöppun í páskafríinu.

Apríl

Ég var að farast úr stressi vegna lokaritgerðarskila. Fór líka í leikhús á Gítarleikarana. Annars var ég mest að farast úr stressi. Þegar ég í þann mund að skila fór ég líka heim á Höfn að æfa fyrir Hammondhátíð á Djúpavogi. Svo að já - mikið stress. Lenti svo um miðjan mánuð í hræðilegu slysi þegar ég datt í stiga. Það kom mikið mar neðst og þvert yfir bakið og hafði þetta ekki aðeins í för með sér líkamlega þrautargöngu heldur einnig andlega þar sem útihlaupin stoppuðu að mestu næstu 5-6 vikurnar.

Maí
Á sama föstudeginum og ég skilaði lokaritgerðinni, 2. maí, vaknaði ég á Djúpavogi í fallegu hótelherbergi á Hótel Framtíð. Kvöldið á undan höfðum við í Rökkurbandinu flutt efni okkar á tónleikum á Hammondhátíðinni. Kvöldið var frábært í alla staði og við fengum ágætis dóma. Valdís fór síðan með ritgerðina mína í póst á föstudeginum. Þessir dagar einkenndust af "allt á sama tíma" stemningu. Á laugardeginum fórum ég og Friðjón upp í bústað hjá Melkorku og Gunna og svo á Djúpavog á Stórsveit Samma. Eftirminnilegt var það enda alltaf kósý að vera í sumarbústað yfir nótt.
Síðan flutti ég frá Eggertsgötunni upp í Árbæ og réttu eftir það fór ég aftur heim til að byrja vinnuna, þriðja sumarið í röð í Sparisjóði Hornafjarðar. Valdís útskrifaðist úr FAS 24. maí og gerði sér lítið fyrir og dúxaði. Var ég ótrúlega stolt af henni

Júní
Ég fór og eyddi sjómannadagshelginni á Eskifirði. Þar var margt um manninn og þótti mér sérstaklega vænt um að hitta Sögu Lind og Leu Sól og eyða með þeim smá tíma. Það var fallegt veður fyrir austan og jafnvel þó svo að ákveðið atvik (ekki tengt dúllunum mínum) hafi sett strik í reikninginn, var það ákveðinn styrkur eftir á. Það er hægt að taka erfiðu atvikin og færa þau sér í vil seinna meir og það gerði ég í þessu tilfelli.
14. júní útskrifaðist ég sem listfræðingur úr Háskóla Íslands. Ég fór í bæinn á miðvikudeginum og reddaði hinu og þessu fyrir veisluna með mömmu og pabba. Friðjón kom á fimmtudeginum og amma hafði meira að segja skellt sér líka. Svo var veislan á laugardeginum heima hjá Valda bróðir mömmu, þau voru ótrúlega vingjarnleg að lána mér húsið og aðstöðuna til veisluhalda. Ég hef aldrei á ævi minni séð eins margar fallegar gjafir og ég fékk þennan dag ... yndislegur dagur sem verður lengi í minnum hafður.
Tónleikarnir með Larry Carlton þann 25. á Jasshátíð Egilsstaða voru líka meiriháttar upplifun, vorum ég og pabbi á einu máli um að þeir hefðu verið einir bestu sem við höfðum séð.


Júlí
Mánuðurinn byrjaði á tónleikum hjá Rökkurbandinu í Pakkhúsinu, miðvikudeginum fyrir Hátíð á Höfn. Þessir tónleikar voru eftirminnilegir fyrir það helst hvað mættu fáir, en góðir gestir engu að síður. Svo kom reyndar stór hópur fólks undir lokin og voru allir í stuði. Góð æfing og skemmtun fyrir hljómsveitarmeðlimi þrátt fyrir allt. Annars var Humarhátíðin aftur með rólegu móti þetta árið, rétt eins og árið áður. Friðjón kom og við grilluðum, löbbuðum um bæinn, fórum á sýningar, fórum í Pakkhúsið.
Helgina frá 19. júlí var ég uppi í lóni í sólbaði með Friðjóni sem kom að austan. Við höfðum það svo gott í letinni að liggja í sólbaði að ég held að ég hafi sjaldan endst eins lengi. Seinni hluta þessa mánaðar fór ég svo austur á Borgarfjörð Eystri á Bræðslutónleikana. Gott veður stóð upp úr, algjör steikjandi hiti allan tímann. Tónleikarnir voru góðir og fannst mér Eivör framúrskarandi ásamt því að Dísa var góð. Einnig var skemmtileg sundferð í litlu stöðuvatni á sunnudeginum eftirminnileg. Þrátt fyrir mikla sól síðustu helgar þá var ég ekkert orðin brún.



Ágúst
Það rann upp fyrir mér að ég var að fara í mastersnám sem ég hafði gengið frá og borgað í júní. Því fylgdi örlítill spenningur og smá ótti eins og með allar breytingar í lífinu. Í ágúst gerðist líka merkilegur viðburður: Rósenberg opnaði á ný í nýju húsnæði. Ég var orðin mjög spennt að komast í bæinn og prófa nýja staðinn.

September
Rósen stóð fyrir sínu og meira en það. Allt sama fólkið, sama starfsfólkið, sömu húsgögn, sama tónlistin, sama stemningin, sami andinn. Ég var vel sátt að vera komin aftur í miðju menningarlífsins. Einnig hafði ég mikið að gera og í fyrsta skipti þurfti ég að vakna kl 7 á morgnanna og fara í langar strætóferðir. Þetta hafði alltaf verið svo ljúft á Eggertsgötunni að labba af stað "korterí tíma", Árbæjarlífið var semsagt krefjandi á nýjan hátt. Alls ekki eins erfitt og ég bjóst við. Valdís flaug til Króatíu og ég hljóp í Elliðárdalnum í miklum mæli.
Fór í lok mánaðarins til Hornafjarðar og horfði á pabba keppa í öldungamóti í frjálsum. Svo var jarðaför hjá Gunnu systir ömmu á sunnudeginum. Mjög falleg athöfn í Hafnarkirkju með ljúfri tónlist.



Október
ég og Friðjón skelltum okkur á Bítlasýninguna á Höfn fyrstu helgina í október þar sem okkur áskotnuðust miðar á frumsýninguna alveg óvænt. Svo skall kreppan fyrir alvöru á okkur öll, þó svo að ég væri ekki farin að finna fyrir neinum breytingum. Mugison tónleikarnir í tjaldinu á Októberbfest stóðu upp úr.
Ég fékk það á hreint að ég væri að fara að flytja í miðbæinn, í Skuggahverfið. Skilaði fyrsta stóra verkefninu í mastersnáminu og var gríðarlega stolt af mér. Var á fullu við að pakka niður og pakkaði niður inn í nóvember.

Nóvember
Vorum komin í nýju íbúðina 5. nóvember eftir erfiða flutninga þar sem allt gekk á afturfótunum á tímabili. Obama varð forseti Bandaríkjanna en við vorum á fullu að skúra veggina í íbúðinni til þess að ná reykingarlyktinni út úr henni.
Fór á tónleika með KK á Rósen með mömmu og pabba og bíó í Regnbogann. Var alveg að fíla að búa í miðbænum. Flutti erindi á ráðstefnu um Svavar Guðnason um miðjan mánuð og tókst furðu vel upp miðað við sviðsskrekkinn sem stundum lætur sjá sig. Allir fóru að mótmæla og ég og Friðjón mótmæltum í fyrsta skipti á Austurvelli. Voru samt ekki alveg viss hverju.
Gerði heilan slatta í skólanum lok nóvember og meðal annars lærði að klippa og gera heimildarmynd í fyrsta skipti. Þó svo að myndin hafi ekki verið nema 10 mínótur á endanum þá var þetta ágætis æfing.

Desember
Opnuðum sýningu í Árbæjarsafni þar sem við sýndum stól og borð úr vinnustofu Finns Jónssonar listmálara. Ég var mjög ánægð með afraksturinn á mínu “horni” í sýningunni en ég og vinnufélagi minn, Vigdís Gígja, reyndum að endurskapa stemninguna í vinnustofu listmálarans. Fór fljótlega til Hornafjarðar eftir sýningarhelgina og æfði með hljómsveitinni. Héldum svo tónleika á kaffihorninu 18. desember í gríðarlegri stemningu. Var virkilega ánægð með það hversu margir mættu.
Svo var brunað til Reykjavíkur að sækja Valdísi á Keflavíkurflugvöll. Helgin var notuð allskonar jólastúss, ásamt því að halda jólaglögg partý og fara út að borða á Ítalíu með Friðjóni í tilefni afmælisins. Það var virkilega notalegt og maturinn góður. Ég og Valdís keyrðum síðan heim á afmælisdeginum í fljúgandi hálku.
Svo tóku við vinnudagar í bankanum, jólin með öllu tilheyrandi, 2. í jólum ball á Egilsstöðum og almenn leti með Friðjóni ásamt smá vinnu í bland. Hefur verið mjög gott að hafa ekki leiðst eina einustu mínútu þessi jólin, reyndar bara í langan tíma hefur verið virkilega gott og mikið að gera.


Ég fer því bjartsýn inn í nýtt ár, þrátt fyrir þá erfiðu tíma sem allir tala um að séu framundan. Ég held jafnframt áfram með mottóið: Góðir hlutir gerast hægt. Vona um leið að ég eigi eftir jafnt og þétt að gera skemmtilegri og betri hluti, í tónlist og starfi.

Um leið vona ég að árið 2009 verði ykkur heillavænlegt og þakka fyrir samverustundirnar á árinu 2008.


Nýárskveðjur til ykkra allra

Hulda Rós

No comments:

Post a Comment