Wednesday, December 17, 2008

Vinna, pakka, baka, syngja

Ég fékk smá vinnu um jólin. Í bankanum hérna heima, uppáhalds vinnustaðnum mínum. kannski sérstakt að fá vinnu í banka í kreppuástandi en fyrirtækin þurfa nú að sinna daglegri starfsemi rétt eins og áður. Ég er allavega himinlifandi að hafa fengið þessa örfáu daga til að vinna aðeins og komast úr skólagírnum. - Og nei, ég kann ekki að slappa af, enda tímasóun.

Það er samt frekar skrítið að vinna í banka núna. Án þess að ég fari út í það mikið nánar. Það er allt eins í daglegum störfum, það er ekki málið, samt er eins og það sé hellingur sem maður bara má ekki gera. Eins og allir vita þá er allt svo undarlegt með erlendu viðskiptin í dag.

Manni líður pínulítið eins og hnattvæðingin hafi tekið risastórt skref afturábak. Nútímasamfélagið, Íslendingar sem voru heimshornaflakkarar, Ísland sem heimsmenningarland, er nú aftur orðið innilokað og króað út í norðursjó.

Svo er Rökkurbandið að fara að spila í kvöld á Kaffihorninu. Við höfum ekkert æft vegna tímaleysis svo að það verður fróðlegt. Hugsa að það verði skemmtilegt þó svo að ég eigi erfitt með að stíga alveg óæfð upp á svið. Vil alltaf hafa allt á hreinu. Reyndar höfum ég og pabbi rennt yfir allt í rólegheitum, hver veit nema það dugi. Það er frítt inn og engin ástæða til að kíkja ekki við og sjá herlegheitin.

Svo ótrúlega spennt fyrir helginni sem nálgast óðfluga. Reykjavík á morgun. Er að fara að ná í Valdísi á Keflavíkurflugvöll. Ekki nóg með það að ég sé að sjá systu eftir nokkra mánuða fjarveru, heldur er ég líka að fara að hitta Friðjón minn og halda smá afmælisvinaboð á laugardagskvöld. Þar sem allir nánustu og bestu mæta.

Byrjum á kaffihornsdjamminu í kvöld. Síðan flugið á morgun. Síðan heldur jólaundirbúningurinn áfram. Svo eftir allt stressið verður náttbuxnadagurinn haldinn heilagur og hvíldin vel þegin á jóladag og 2. í jólum.

1 comment:

  1. Ohh já ég get ekki beðið eftir að klæða mig í náttbuxurnar á aðfangadagskvöld þegar allt er búið, svona um miðnætti og horfa á mynd með pepsi og kannski eitthvað af þessu króatíska súkkulaði sem tekur alltof mikið pláss í töskunni minni, hehe það er yndislegur tími :)

    Sjáumst á morgunn :)

    ReplyDelete