Wednesday, April 29, 2009

Heimsóknir í draumi

Reglulega frá því að afi minn heitinn Valdimar fór yfir móðuna miklu, hefur mig dreymt hann nokkuð sterkt.

Oftar en ekki hefur mig dreymt hann og ömmu saman en það gerðist aldrei fyrr en að hún dó líka sem var nokkru á eftir. Þessir draumar með afa eru alltaf sterkir í minnum nokkra daga á eftir og jafnvel lengi.

Í nótt dreymdi mig til dæmis að ég væri á Breiðabliksvellinum og átti að vera að læra einhverjar kúnstir hjá Ástu B. vinkonu mömmu og fótboltakonu. Mér gekk ekki vel og þá kom afi og sagði við mig að við skyldum bara taka þessu rólega og allt í einu vorum við bara orðin tvö í heiminum. Var hann í því að róa mig niður og segja að þetta yrði bara allt í stakasta lagi. Svo settist hann niður, tók upp eplasnafs og vodka sem ég drakk til skiptis með klaka og sömuleiðis afi. Engin ölvun, heldur meiri kyrrðarstund og rólegheit.

Svona draumur finnst mér ansi merkilegur og þó að ég hafi aldrei trúað á líf eftir dauðann eða tilveru framliðinna þá er mér farið að finnast eins og afi sé að heimsækja mig og segja mér eitt og annað.

Kannski er þetta einhver björgunaraðgerð hjá heilanum til þess að róa mig, kalla fram persónu sem hefur róandi áhrif, kalla fram öryggi. Maður veit í raun aldrei hvernig mannsheilinn virkar og hvaða ráða hann tekur til þess að koma á jafnvægi.

Það breytir því þó ekki að ef þessir draumar verða mikið fleiri, sérstaklega þegar ég er frekar stressuð og óróleg, þá get ég ekki að því gert að hugsa hvort það sé möguleiki að afi sé að reyna að tala við mig á einn eða annan hátt.

Allavega eru þessir draumar róandi og mér líður alltaf vel þegar ég er búin að "hitta" afa. Þess vegna vona ég að það verði fleiri "skál í eplasnafsi" í framtíðinni.

2 comments:

  1. Það er mjög gott að finna þessa nærveru. Þú vissir hvar þú hafðir afa. Ávallt á réttum stað.
    Hann mun alltaf fylgjast með. Kveðja. Lóa frænka, Dóri og allir.

    ReplyDelete
  2. Já það er örugglega alveg rétt. :-) Gaman að heyra aftur frá ykkur hér á blogginu.

    ReplyDelete