Saturday, April 25, 2009

Hornafjörður, kosningar, hammond og gleði

Nú er ég stödd á Hornafirði og margt og mikið skemmtilegt búið að gerast síðan ég kom síðasta mánudag.

Þá ber fyrst að nefna að við í Rökkurbandinu tókum þá skyndiákvörðun að halda litla tónleika á Kaffi Horninu á miðvikudagskvöldið, í tilefni af síðasta vetrardegi. Svei mér þá ef við erum ekki alltaf að bæta okkur og erum að mínu mati orðin full fær til þess að fara með prógrammið annað. Enda er það á dagskrá í sumar og er mjög spennt fyrir því, að sjá viðbrögðin hjá fleirum.



Svo fór ég að kjósa utankjörstaðar á miðvikudaginn líka. Það má auðvitað ekki gleyma þeim stórviðburði. Eða þannig. Mér finnst samt þessar kosningar ekki svo tímabærar einhvernveginn.

Svo já, föstudagur, Hammondhátíð á Djúpavogi, þvílík gleði! Höfum farið síðustu 2 ár, fyrst með Mæðusveitinni, síðan með Rökkurbandinu í fyrra en í þetta skipti sem áhorfendur.

Við þurfum auðvitað ekkert að ræða það neitt frekar en Guðmundur Pétursson er magnaður gítarleikari sem virðist einnig alltaf vera að þróa sína spilamennsku. Hann hefur reyndar alltaf, á öllum þeim tónleikum sem ég hef séð hann spila, staðið fullkomlega fyrir sínu. Tekur ein áhugaverðustu og smekklegustu sóló sem heyrast hér á landi og þó víða væri leitað. Svo var auðvitað algjör sæla að horfa á Birgir Baldursson sem er einn af mínum uppáhalds trommuleikurum og hefur verið í mörg ár. Hann er svo skemmtilegur, taktviss, skapandi og hefur allt sem góður trommari þarf að geta, þessa góðu breidd. Nú, þarna voru líka fleiri góðir hljóðfæraleikarar, reyndar þeir bestu á landinu. Ég hef oft sagt hér hversu góður Davíð Þór er og svo er hann líka svona eins og "óþægi prakkarinn" í bandinu og gerir oft eitthvað sem lífgar upp og hefur mikið skemmtanagildi. Þá er ég ekki að taka frá honum hversu góður hljóðfæraleikari hann er og hann naut sín vissulega á hammondinu. Ég hef ekki oft séð Róbert bassaleikarann en hann var auðvitað algjör fagmaður, sem og Halldór Bragason sem er auðvitað enn helsti blúsari landsins til margra ára og hefur einnig unnið alveg ótrúlegt starf með Blúshátíð Reykjavíkur. Lagt fram mikla vinnu í þágu blústónlistarinnar með mikilli ástríðu og ber mikla virðingu fyrir blúshefðinni.

Svo má ekki gleyma söngkonunni Ragnheiði Gröndal sem steig á svið eftir hlé. Ég hefði fyrir það fyrsta auðvitað viljað heyra fleiri lög en hún söng um 4 lög að mig minnir. Tvö af þeim voru Ray Charles blúsar sem voru mjög flottir, hefði þó alveg mátt við meiri fjölbreytni. Nú, þegar ég hef sagt hvað hefði mátt vera betra þá verð ég að segja að það var mikil upplifun að sjá Ragnheiði Gröndal syngja tónlist í þessum stíl og finnst mér hún hafa bætt við sig í kraftinum. Svo hafði hún svo ótrúlega góða tjáningu sem passaði við tónlistina.

Ég fór mjög sátt aftur til Hornafjarðar eftir gott kvöld. Til hamingju Djúpavogsbúar með frábært framtak og þessa glæsilegu hátíð sem verður vonandi haldin á komandi árum!

No comments:

Post a Comment