Wednesday, April 15, 2009

Hústökufólk

Ég á heima rétt hjá Hverfisgötu og líka rétt hjá Vatnsstíg. Það fór því ekki framhjá mér það sem var að gerast áðan þegar lögreglan tók fólk út úr húsi. Almenn samúð virðist vera með fólkinu og almenn andúð á lögreglumönnum.

Ég skil þetta ekki alveg og kannski er fréttaflutningurinn svona ófullnægjandi. Voru þetta mótmælendur, eða var þetta heimilislaust fólk sem vildi lifa fyrir utan kerfið? Ef svo er að þetta var heimilislaust fólk, því miður, þá skil ég mjög vel að lögreglan hefði dregið það á burt því að það geta fáir lifað fyrir utan kerfið og þannig er það nú bara. Hvorki ég né þú, af hverju ætti einhver annar að mega það.

Erum við að missa allan skilning á því sem kallast siðmenning? Erum við virkilega ekki komin lengra í þroska og samfélagshæfni árið 2009? Er það kannski raunveruleikinn að allt er að ganga afturábak og endar á einhverjum frumstæðum menningartöktum. Skrípaleikurinn gengur lengra og lengra...

Fólk heldur að það megi bara allt í dag af því að við fórum á hausinn. Það er auðvitað erfitt að ráða við ástandið en það er líka auðvelt að nýta ástandið til þess að koma sér á framfæri.

Það er allt í lagi að hinn almenni borgari reyni að haga sér og halda áfram með lífið, ástandið getur varla orðið verra. Það er allt í lagi að vera samfélagshlýðinn, jafnvel þó að það sé í tísku að vera á móti öllu. Svona skrítinn áróður í átt að lögreglunni er ekki það sem við þurfum á að halda núna.

Fræðið mig, ef ég er að misskilja þetta allt saman!

No comments:

Post a Comment