Tuesday, April 7, 2009

Gærkvöld á Blúshátíð Reykjavíkur

Ég labbaði mjög sátt út af Rósenberg í gærkvöldi en hér koma nokkur orð um viðburðinn.

Það var hitað upp með góðu djassbandi. Alltaf jafn slakandi að hlusta á fraseringarnar í bland við góðan trommuleik.

Svo tók nú við Tómas R. Einarsson með Ómari Guðjóns og Scott McLemore. Þetta var öðruvísi blús, svona suður-amerískt latínskotin. Mikið stuð, hiti og flott spilamennska. Ég var bara nokkuð skotin í Tómasi, hann er skemmtilegur á sviði og skapandi kontrabassaleikari með húmor. Það er alltaf ánægjulegt að sjá menn gera nýja hluti með hljóðfærin sín (kem betur að því síðar með gítarleikarann).

Síðasta atriði kvöldsins var með Kristjönu Stefáns, Scott, Valda Kolla, Ómari og Agnari Má. Hljómar ekki illa enda gerði það það alls ekki. Hef séð Kristjönu nokkrum sinnum og verð aldrei fyrir vonbrigðum því hún er alveg mögnuð söngkona.

Í gærkvöldi var einhver einstakur kraftur í mannskapnum enda sagði Kristana að það hefði verið svolítið síðan þau spiluðu síðast. Ef ég kem aftur að umræðunni um skapandi tónlistarmenn þá mun ég sennilega aldrei gleyma "sólói" Ómars Guðjónssonar í Sugar in my bowl. Það er nefnilega þannig að þegar allt stoppar á ákveðnum tímapunkti í laginu þá á ákveðin gítarlína að hljóma sem ég beið með eftirvæntingu. Í stað þess spilaði Ómar bara ekki neitt, heldur var svona eins og hann "héldi í sér"með að snerta strengina. Úr varð algjör þögn með spennuþrungnu andrúmslofti og um leið virkaði þetta eins og fullkomin ákvörðun á þessum tímapunkti. Þetta var eitthvað sem gerir Ómar að þeim einstaka gítarleikara sem hann er.

Svona eins og listamaður sem leyfir sér að hengja ómálaðan striga upp á vegg og kalla það listaverk...og á einhvern undarlegan hátt verður það áhugavert.

No comments:

Post a Comment